12. tbl. 102. árg. 2016
Umræða og fréttir
Saga, menning og siðir ráða viðbrögðunum, segir Cheik Ibrahime mannfræðingur frá Senegal
Hér á landi var staddur í október doktor Cheik Ibrahime frá Senegal í Afríku og flutti erindi á málþingi um alþjóðlega heilsu sem haldið var í Háskóla Íslands. Ibrahime er prófessor í félagsmannfræði með læknisfræðilega mannfræði og umhverfisfræði sem aukagreinar og gegnir prófessorsstöðu við ríkisháskólann í Dakar í Senegal. Erindi hans fjallaði um félags- og mannfræðilegar aðferðir við að vinna bug á ebólufaraldrinum í Vestur-Afríku.
„Það var mikilvægt að skilja að þetta fólk var hrjáð af borgarastríði, ofsóknum og árásum og treysti
bókstaflega engum sem komu í stórum bílalestum inn í þorpin með blikkandi ljósum og framandi fólk
í einkennisbúningum,“ segir dr. Cheik Ibrahime prófessor í félagsmannfræði
„Ég hef unnið fyrir Alþjóðaheilbrigðisstofnunina WHO í mörg ár og sérstaklega í baráttunni gegn HIV í Afríkulöndum. Þegar ebólufaraldurinn braust út varð fljótt ljóst að ekki yrði hægt að ráða niðurlögum hans með læknisfræðilegum aðferðum eingöngu. Félagsleg og menningarleg þekking á hefðum og siðum hinna fjölmörgu ættbálka og þorpssamfélaga sem urðu fyrir barðinu á sjúkdómnum var í rauninni forsenda þess að hægt væri að vinna á honum. Þessi sjónarmið voru ekki höfð til hliðsjónar í upphafi baráttunnar en okkur tókst að ná eyrum WHO og ég og samstarfsfólk mitt vorum fengin til að vera eins konar framverðir í baráttunni; fara á undan lækna- og hjúkrunarteymunum inn í þorpin og vinna íbúana á okkar band áður en hægt var að hefjast handa við smitvarnir og læknishjálp,“ segir Ibrahime í upphafi.
„Staðreyndin var sú að íbúar afskekktra þorpa í Sierra Leone, Malí og Gíneu voru mjög andsnúnir allri hjálp frá vestrænum löndum og því var nauðsynlegt að senda á undan þeim teymi félags- og mannfræðinga til að skilja í hverju andstaðan fólst og finna leiðir til að fá íbúana til samvinnu. Þeir neituðu að senda sýkta einstaklinga í sjúkraskýlin og réðust á lækna og sjúkrabíla þegar átti að sækja sjúklingana. Fólkið taldi að ebólafaraldurinn væri hinum erlendu læknum að kenna, og ýmist snerist til varnar eða flúði úr þorpunum út í skógana þegar átti að sækja sjúklinga eða einangra þorpin.
Það var mikilvægt að skilja að þetta fólk var hrjáð af borgarastríði, ofsóknum og árásum og treysti bókstaflega engum sem komu í stórum bílalestum inn í þorpin með blikkandi ljósum og framandi fólk í einkennisbúningum. Öllum slíkum táknum um vald er tekið með fullkominni tortryggni. Skiljanlega. Þar á ofan eru enn mjög lifandi í munnlegum frásögnum íbúanna skelfilegar reynslusögur þegar forfeður þeirra voru teknir og hnepptir í þrældóm af hvítum þrælasölum svo allt lagðist á eitt um að gera þetta mjög erfitt.“
Ibrahime segir að mannfræðiteymið hafi oft lent í lífshættu og mætt mikilli tortryggni í upphafi en ávallt tekist að vinna traust íbúanna að lokum.
„Við sem fórum á undan urðum því að afþakka ökutæki og fara fótgangandi inn í þorpin klædd sömu klæðum og íbúarnir og gefa það mjög skýrt til kynna að við værum komin til að hlusta og fara eftir vilja íbúanna; þeir yrðu ekki þvingaðir til neins. Með þessu byggðum við varlega upp traust á milli okkar og þeirra þar til íbúarnir voru tilbúnir að hleypa erlendu hjálparliðunum inn í þorpin. Við byrjuðum á verst sýktu svæðunum í Sierra Leone og fórum þaðan yfir til Malí og enduðum í Gíneu þar sem við mættum mestu andstöðunni og tók okkur lengstan tíma að sannfæra íbúana um að við værum að hjálpa þeim en ekki að ráðast á þá. Stundum vildu yfirvöld senda vopnaðar öryggissveitir með okkur því ástandið var talið mjög hættulegt en við höfnuðum því alltaf. Þá hefði verkefnið fallið um sjálft sig.“
Konurnar gegndu mikilvægu hlutverki
„Við gegndum hlutverki talsmanns hinna marghrjáðu íbúa þessara landa og komum sjónarmiðum þeirra á framfæri við yfirvöld og alþjóðasamfélagið. Í hvert sinn sem við komum í nýtt þorp urðum við að byrja á byrjuninni. Mikilvægast var að sýna auðmýkt og snúa algjörlega við ímyndinni sem íbúarnir höfðu af yfirvöldum og utanaðkomandi valdbeitingu. Við urðum að sýna varnarleysi og auðmýkt og sannfæra íbúanna um að við yrðum eyru þeirra og munnur í samskiptum við yfirvöld. Við ræddum við trúarleiðtoga íbúanna og þær viðræður stóðu oft klukkutímum saman. Einnig var rætt við konurnar því þær hafa mikil völd í þorpunum og stjórna greftrunarsiðunum. Útskýrt var í hverju smithættan var fólgin og gátum komist að samkomulagi um að hægt væri sýna hinum látnu táknræna virðingu án þess að snerta líkin.
Í sumum þorpum höfðu einhverjir íbúar verið handteknir og fangelsaðir vegna andstöðu sinnar og við þurftum þá að semja um lausn þeirra áður en hægt var að vinna traust þorpsbúanna. Þetta var stundum mjög tímafrekt og alþjóðasamfélagið var eðlilega mjög óþolinmótt. Við urðum því einnig að koma erlendum samstarfsmönnum okkur í skilning um mikilvægi þess að sýna þolinmæði, auðmýkt og skilning á aðstæðum.
Aðstæðurnar sem við tókumst á við þarna eru í rauninni sammannlegar um allan heim og í öllum samfélögum. Þegar hætta steðjar að, hnappast samfélögin saman og verja sig gegn henni. Þorpssamfélög þessara Afríkulanda eru í engu frábrugðin öðrum samfélögum að því leyti. Saga, menning og siðir hvers samfélags ráða því síðan hvernig viðbrögðin verða og það er mikilvægt að skilja þau til að geta komist í gegnum varnirnar og byrjað að hjálpa. Lexían sem við lærðum þarna mun gagnast alls staðar í framtíðinni þegar svipaðar aðstæður koma upp,“ sagði Cheik Ibrahime að lokum.