12. tbl. 102. árg. 2016
Umræða og fréttir
Námskeið fyrir handleiðara í sérnámi lækna
Frá vinstri: David Parry frá RCP, Tómas Þór Ágústsson, Winnie Wade frá RCP, Gerður Gröndal, Kjartan Örvar, Inga Sif Ólafsdóttir, Brynja Ragnarsdóttir, Sigurbergur Kárason, Friðbjörn Sigurðsson, Guðjón Birgisson, Guðjón Kristjánsson og Óskar Einarsson.
Læknablaðið tók eftir því að mikil fundarhöld stóðu yfir í húsnæði Læknafélags Íslands alla síðustu viku októbermánaðar. Þar voru sérfræðilæknar frá hinum ýmsu sérgreinum lækninga komnir saman í þeim tilgangi að sækja námskeið frá Royal College of Physicians í Bretlandi fyrir handleiðara í sérnámi lækna. Blaðamaður Læknablaðsins náði tali af Friðbirni Sigurðssyni framhaldsmenntunarstjóra lyflækninga en eins og áður hefur komið fram í blaðinu hafa umtalsverðar breytingar átt sér stað varðandi framhaldsnámið í lyflækningum. Friðbjörn segir að sérgreinar lækninga séu því að endurskipuleggja framhaldsnám frá grunni. Sú vinna byggist að miklu leyti á sérstökum áhuga nokkurra einstaklinga. Ekki sé við því að búast að unnt sé að viðhalda framhaldsnámi sem stendur undir nafni á þeim forsendum. Því þurfi að efla alla umgjörð um framhaldsnámið og skapa því viðeigandi sess innan heilbrigðisþjónustunnar. Stórir áfangar hafi náðst og nefnir Friðbjörn í því samhengi opnun hermiseturs á Landspítala. Þá nefnir hann að mikilvægt sé að sérnám á Íslandi sé skipulagt á landsvísu og að það hafi reynst vel að Landspítali og Sjúkrahúsið á Akureyri standi sameiginlega að sérnáminu í lyflækningum.
Á Læknadögum, nánar tiltekið mánudaginn 16. janúar, verður sérstakt málþing um framhaldsnám í lækningum á Íslandi. Sama dag verður einnig málþing um símenntun lækna.