11. tbl. 102. árg. 2016

Umræða og fréttir

Að loknum Sumarskóla Evrópusamtaka lyflækna: „Minna er meira“


Endurfundir nokkurra námslækna á þingi Evrópusamtaka lyflækna í Amsterdam í september síðast
liðnum:
Mark frá Hollandi, Sarah frá Svíþjóð, Þórunn frá Íslandi, Inma frá Spáni og Inbar og Amir frá Ísrael.


Sumarskóli Evrópusamtaka lyflækna (European Summer School of Internal Medicine) var haldinn í þriðja og síðasta sinn á Sardiníu á Ítalíu á nýafstöðnu sumri. Greinarhöfundur, ásamt tveimur öðrum námslæknum á lyflækningasviði Landspítalans, þeim Helgu Huld Petersen og Óskari Valdórssyni, var þess heiðurs aðnjótandi að vera þátttakandi í þetta sinn og njóta góðs af þeirri frábæru kennslu og handleiðslu sem einkennir þennan skóla. Evrópusamtök lyflækna (EFIM – European Federation of Internal Medicine) voru stofnuð árið 1996 með það hlutverk að leiða saman félög lyflækna í hverju landi fyrir sig og beina athyglinni að lyflækningum sem sérgrein, á tímum vaxandi áherslu á sérhæfingu og undirsérgreinar lyflækninga. Samtökin ná yfir 33 undirfélög víðsvegar um Evrópu og innan þeirra starfa um 40.000 lyflæknar. Það sem líklega færri vita er að Evrópusamtökin halda úti öflugu starfi fyrir unga námslækna í Evrópu. Innan þeirra er starfræktur sérstakur „Hópur ungra lyflækna“ (YI - Young Internists) með það að markmiði að styrkja lyflækningar sem sérgrein með því að leiða saman unga námslækna og sérfræðinga í Evrópu, stuðla að samstarfi, mynda tengslanet, auðvelda möguleika á starfsframa í öðrum löndum og hvetja aðra til feta í fótspor þeirra. Undir merkjum Evrópusamtaka lyflækna og Hóps ungra lyflækna standa til boða fjölmörg verkefni sem áhugaverð eru fyrir unga lækna. Þar ber helst að nefna Evrópuskóla ungra lækna í framhaldsnámi í lyflækningum. Markmið þessa skóla er að stuðla að kennslu í læknisfræði af hæsta gæðaflokki fyrir námslækna í lyflækningum en ekki síður hvetja til félagslegra tengsla og skapa vináttu milli þeirra. Skólinn er haldinn tvisvar á ári, að sumri og vetri til, í vikutíma og á tilteknum stað í þrjú ár í senn. Hverju sinni sækja 50-60 læknar frá 20-25 löndum skólann, þó aldrei fleiri en þrír einstaklingar frá sama landi. Allir eiga þeir það sameiginlegt að vera vel á veg komnir í sínu sérnámi í lyflækningum og vera yngri en 36 ára. Rúmlega 1000 læknar hafa farið í gegnum skólann frá því hann var haldinn fyrst árið 1998 og saman mynda þeir grunninn að Hópi ungra lyflækna. Kennslan fer fram frá morgni fram eftir degi og samanstendur af fyrirlestrum, vinnubúðum og kynningu sjúkratilfella. Saman dvelja læknarnir á hóteli þar sem öll kennsla fer fram en ekki er síður lagt upp úr félagslegri tengslamyndun með sameiginlegum málsverðum í hádeginu og á kvöldin ásamt skipulögðum skoðunarferðum og öðrum skemmtunum.

Greinarhöfundur hafði miklar væntingar til sumarskólans enda höfðu þrír ungir íslenskir læknar setið hann á sama stað árið áður og létu vel af vistinni. Var það því með mikilli eftirvæntingu sem haldið var til Costa Rei á suðausturhluta Sardiníu á sunnudegi í júnímánuði. Þema skólans að þessu sinni var „Less is More“ eða minna er meira til að vekja athygli á ofgreiningum og ofmeðhöndlunum í læknisfræði. Fengum við jafnframt að hlýða á fyrirlestra um hvernig best sé að takast á við og draga úr líkum á mistökum í okkar starfi, efni sem öllum ungum læknum er mjög hugleikið, en ekki síður athyglisverð var umræðan um ákvörðun meðferðartakmarkana. Evrópskir sérfræðingar á mismunandi sviðum innan lyflækninga stýrðu vinnubúðum sem voru einstaklega fagmannlega unnar og lærdómsríkar. Mikilvæg málefni voru tekin fyrir og krufin til mergjar, svo sem gollurshúsbólga, lungnasegarek, blóðleysi, viðeigandi sýklalyfjameðferð og blóðsaltbrenglanir en vinnubúðum um hið síðast nefnda var stjórnað af Runólfi Pálssyni prófessor, sem nýtekinn er við sem forseti Evrópusamtaka lyflækna. Öllum þátttakendum var skipt í minni hópa þar sem ákveðin tilfelli eða vandamál voru lögð fyrir og þeim gert að leysa úr þeim. Ekki var ætlast til þess að farið væri eftir sérstökum evrópskum klínískum leiðbeiningum heldur var takmarkið að spreyta sig á tilfellunum eins og hver og einn myndi gera við sambærilegar aðstæður í sínu heimalandi. Þannig komu skýrt fram mismunandi sjónarhorn, starfsvenjur og hefðir í mismunandi Evrópulöndum. Það kom greinarhöfundi skemmtilega á óvart að uppgötva að starfsvenjur á Landspítala eru á pari við og jafnvel stundum betri en það sem tíðkast í nágrannalöndunum. Fulltrúar úr stjórn Hóps ungra lyflækna önnuðust að lokum vinnubúðir sem voru einkar viðeigandi fyrir þá tíma sem við búum við í dag því þær fjölluðu um flóttamenn í Evrópu og þau áhrif sem ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs hefur á heilbrigðiskerfin í nærliggjandi löndum. Hér áttaði greinarhöfundur sig fljótt á því að hann hefði töluvert minni reynslu en evrópskir kollegar sínir. Hlutskipti sumra þeirra er ekki eftirsóknarvert þegar kemur að því að takast á við þetta gríðarstóra og flókna verkefni sem engan enda sér fyrir á og lítið af lausnum í sjónmáli. Í ár var tveimur gestafyrirlesurum boðið frá Bandaríkjunum, þeim Ritu Redberg ritstjóra JAMA Internal Medicine og John Ioannidis prófessors við Stanford-háskóla. Gáfu þau okkur ómetanlegar ráðleggingar varðandi skipulagningu og högun rannsóknarvinnu, ritun vísindagreina og hvernig auka megi líkur á samþykki og birtingu þeirra. Að lokum má geta þess að hefð er fyrir því í Evrópuskólanum að námslæknar frá hverju landi flytji tilfelli að heiman fyrir hina námslæknana og var ekki brugðið út af vananum í ár. Erindin voru margvísleg og misjöfn, mörg hver bentu á mistök sem orðið höfðu við greiningu eða meðferð, sum fjölluðu um zebrahesta (hver man ekki eftir Good‘s syndrome?) en öll höfðu þau það sameiginlegt að vera vel flutt og metnaðarfull með áhugaverðum lærdómspunktum.


Á lokakvöldinu var skálað í sardinískum bláberjadrykk fyrir vel heppnuðum sumarskóla.

Sumarskólinn var að þessu sinni haldinn í síðasta sinn á Sardiníu en næst verður förinni heitið til Ede í Hollandi í júní 2017. Ekki er hægt að fjalla um Evrópuskólann án þess að minnast á önnur mikilvæg verkefni Evrópusamtaka lyflækna sem ætluð eru ungum lyflæknum í dag. Þar ber helst að nefna þriggja daga vinnubúðir í klínískri rannsóknarvinnu (Clinical Research Seminar) sem haldnar eru fyrir 14-15 lyflækna ár hvert að vori í París og samevrópskt skiptiprógramm (The European Exchange Programme) þar sem 20 ungir lyflæknar geta dvalið við nám og störf í einn mánuð á öðrum háskólasjúkrahúsum á mismunandi stöðum í Evrópu. Þá er rétt að vekja athygli á því að Evrópusamtök lyflækna halda úti eigin veftímariti sem eingöngu er ætlað fyrir læknisfræðileg tilfelli á sviði lyflækninga (European Journal of Case Reports in Internal Medicine) og eru ungir lyflæknar sérstaklega hvattir til að senda inn áhugaverð og lærdómsrík tilfelli sem verða á vegi þeirra. Að lokum skal þess getið að Evrópuskólinn er einnig haldinn að vetri til ár hvert og verður hann í þriðja og síðasta sinn í Riga í Lettlandi í byrjun febrúar næstkomandi. Á nýafstöðnu þingi Evrópusamtaka lyflækna sem haldið var í Amsterdam í september var kosið um næsta áfangastað vetrarskólans. Kosningin var Finnum í hag og verður skólinn því haldinn norður í Lapplandi frá og með 2018. Íslenskir námslæknar í lyflæknisfræði ættu ekki að láta sér þetta tækifæri úr greipum renna en hingað til hefur enginn íslenskur námslæknir sótt vetrarskólann. Það er ljóst að með uppbyggingu sérfræðináms í lyflækningum á Landspítalanum ættu íslenskir námslæknar að nýta sér betur þau tækifæri sem bjóðast á vegum samtaka lyflækna innan Evrópu og stuðla þannig að samvinnu og myndun tengslanets við kollega í álfunni enda er aldrei að vita hvaða dyr það muni opna til áframhaldandi sérnáms eða starfa síðar meir.Þetta vefsvæði byggir á Eplica