10. tbl. 102. árg. 2016

Umræða og fréttir

Fjölmennt gigtarlæknaþing haldið í Hörpu, rætt við Gerði Gröndal

Gerður er lyf- og gigtarlæknir og formaður Samtaka norrænna gigtarlækna

Fyrstu dagana í september var haldin í Hörpu fjölmenn ráðstefna norrænna gigtarlækna og tókst afar vel ef marka má frásagnir í fréttabréfi gigtardeildar Karolinska sjúkrahússins. Undir það tekur formaður Samtaka norrænna gigtarlækna sem er Gerður Gröndal lyf- og gigtarlæknir á Landspítalanum. Með henni í íslensku undirbúningsnefndinni voru þau Björn Guðbjörnsson, Sigríður Þórdís Valtýsdóttir,  Gunnar Tómasson, Þorvarður Jón Löve og Guðrún Björk Reynisdóttir, öll gigtarlæknar.


Gerður Gröndal forseti þingsins.


Scandinavian Congress of Rheuma-tology er haldin annað hvert ár til skiptis á Norðurlöndum og var ráðstefnan hér sú 36. í 70 ára sögu samtakanna. Síðast var hún haldin á Íslandi árið 2006 og 10 árum síðar var röðin aftur komin að íslenskum gigtarlæknum að halda hana.

„Þetta tókst ótrúlega vel,“ sagði Gerður þegar Læknablaðið tók hana tali. „Venjulega er þátttakendafjöldinn á þessum ráðstefnum á bilinu 3-400 en Ísland er vinsælt og við höldum líka að dagskráin hafi verið góð hjá okkur því það skráðu sig 530 til leiks og var vel mætt á alla fyrirlestra. Við fengum 70 fyrirlesara, flesta frá Norðurlöndum, en til þess að auka fjölbreytnina og breiddina fengum við einnig fyrirlesara sem eru fremstir í faginu utan Norðurlandanna. Veðrið lék við okkur svo ytri umgjörðin var mjög fín, landið og Harpa skörtuðu sínu fegursta. Yfirleitt hafa norrænir gigtarlæknar verið allsráðandi á þessum ráðstefnum en að þessu sinni komu ráðstefnugestir frá 34 löndum, alls 160 manns utan Norðurlanda. Eflaust spilar það inn í að við ákváðum í vor að sækja um svonefnda CME-vottun á endurmenntunargildi þingsins. Hún fékkst en þetta er evrópsk vottun sem ég held að sé lykill að því að þing á borð við þetta geti lifað af í harðnandi samkeppni. Hún gefur til kynna að þangað sé hægt að koma til að læra af því sem vel er gert hjá gigtarlæknum norrænna velferðarþjóðfélaga,“ segir Gerður.


Íslenska undirbúningsnefndin: Sigríður Þórdís Valtýsdóttir, Gunnar Tómasson, Guðrún Björk
Reynisdóttir, Þorvarður Jón Löve, Björn Guðbjörnsson og Gerður Gröndal.
Myndina tók Per Lundblad frá blaðinu Reumabulletin.


Ráðstefnur, blað og sjóður

„Ráðstefnurnar eru meginverkefni samtakanna,“ heldur hún áfram, „en þau halda einnig úti norrænu gigtarblaði, Scandinavian Journal of Rheumatology, fræðiriti sem kemur út 10 sinnum á ári og er ritstjórnin núna í Danmörku. Þá erum við með stóran rannsóknarsjóð sem hefur aðsetur í Noregi. Sjóðurinn veitir styrki /verðlaun og þau voru afhent á þinginu, að þessu sinni voru það þrír ungir vísindamenn frá Svíþjóð, Noregi og Danmörku sem hlutu verðlaun, en við úthlutun þar áður fengu Þorvarður Jón Löve og Gunnar Tómasson rannsóknarstyrk til þess að rannsaka fjölvöðvagigt á Íslandi. Sjóðurinn styrkir einnig námskeið fyrir unga vísindamenn og gigtarlækna og var það haldið í sal Íslenskrar erfðagreiningar dagana fyrir þingið.

Þinginu er ætlað að auka norræna samvinnu, bæði um klínískar leiðbeiningar og þær meðferðir sem við beitum sem og um vísindarannsóknir, ásamt því hvernig við flytjum aukna þekkingu frá rannsóknum yfir í bætta þjónustu og meðferð sjúklinga. Á þinginu var meðal annars kynnt nýtt samnorrænt rannsóknarverkefni þar sem nota á gögn úr gagnabönkum norrænu ríkjanna til að rannsaka ýmsa sjúkdóma í öllum löndunum. Loks er það hlutverk þessara þinga, sem teljast fremur lítíl í samanburði við til dæmis Evrópu- og Ameríkuþing gigtarlækna, að veita ungu fólki tækifæri til að æfa sig í að kynna rannsóknir sínar með því að halda erindi eða sýna veggspjöld og voru ungir vísindamenn og gigtarlæknar áberandi á þinginu.“

Blaðamaður játar fáfræði sína um gigtarsjúkdóma almennt og nefnir slitgigtina í eldra fólki. „Já, það er slitgigtin og vefjagigtin sem eru algengastu gigtarsjúkdómarnir en einnig er um að ræða liðbólgu- og bandvefssjúkdóma af ýmsum toga sem angra fólk á öllum aldri, allt niður í börn. Nú er meðalaldur sjúklinga sem gangast undir líftæknilyfjameðferð hér á spítalanum á bilinu 45-50 ára. Á þinginu reyndum við að hafa fjölbreytta nálgun og segja má að flestir gigtarsjúkdómar hafi komið þar við sögu.


Jón Atli Árnason og Þorvarður J´ón Löve gigtarlæknar í opnunarhófinu sem haldið var í blíðskaparveðri.


Rafræn heilsa og söguþing

Eins og áður segir endurspeglaði þingið þessa breidd í faginu ágætlega og einn daginn vorum við með sérstaka dagskrá fyrir heilbrigðisstarfsmenn sem fást við gigt aðra en lækna – hjúkrunarfræðinga, iðjuþjálfa, sjúkraþjálfara, sálfræðinga og fleiri – í samvinnu við Gigtarfélagið og Fagfélag gigtarhjúkrunarfræðinga. Ég var mjög ánægð með þá dagskrá því þar var meðal annars fjallað um skipulagningu þjónustunnar og hvernig sjúklingurinn getur sjálfur tekið þátt í meðferðinni. Undir það fellur það sem kallast á ensku e-health þar sem sjúklingur og læknir eru í rafrænum samskiptum. Í Svíþjóð er farið að láta sjúklinga skipuleggja og fylgjast með blóðprufunum sínum sjálfir eins og greint var frá á málþinginu.

Þá vorum við með nýjung á þinginu sem helgast af áhugasviði mínu sem er saga lækninga. Um það var haldið málþing þar sem Ido Leden og Frank Wollheim fyrrverandi prófessorar frá Svíþjóð sögðu frá sögu gigtarlækninga á Norðurlöndunum og fjallað var um ævi og störf Jan Waldenströms sem var þekktur sænskur blóðsjúkdómalæknir. Einnig mætti Óttar Guðmundsson og sagði frá geðveiki í Íslendingasögunum. Loks kom ástralskur læknir, John Ornsby Stride, og flutti erindi um rannsóknir sínar á heimildum um höfuðkúpu Egils Skallagrímssonar. Þar fann hann merki um sjúkdóm sem kallaður er Van Buchem og lýsir sér í beingisnun. Málþingið var vel sótt og mæltist vel fyrir svo þess er að vænta að saga læknisfræðinnar verði fastur liður á þingum framtíðarinnar sem ég er mjög ánægð með,“ sagði Gerður Gröndal.Þetta vefsvæði byggir á Eplica