10. tbl. 102. árg. 2016

Fræðigrein

Tilfelli mánaðarins – aðskotahlutur í auga

Case report: Intraocular foreign body

doi: 10.17992/lbl.2016.10.102

Höfundar fengu samþykki sjúklings fyrir þessari umfjöllun og birtingu.
Höfundar hafa útfyllt eyðublað um hagsmunatengsl

 

37 ára gamall karlmaður leitaði á augndeild Landspítalans eftir að hafa fengið högg á vinstra augað þegar hann var að meitla steypu. Hann taldi að steinvala hefði skollið á auganu. Við komu var hann með væg óþægindi í auganu, fannst sjón móðukennd og sá grænleita slikju sem kom og fór.

Sjón mældist 1,0 á hægra auga og 0,7 á því vinstra. Augnþrýstingur var eðlilegur. Við skoðun var vinstra ljósop samandregnara en það hægra en ljóssvörun var eðlileg. Við skoðun í slitlampa sást sár á hornhimnunni og óregla dýpra í henni. Ekki greinanlegur litarefnisleki. Forhólfið var eðlilega formað en þar sást mikið af frumum. Þegar ljósgeisla var lýst beint í gegnum ljósopið sást rauður reflex í gegnum lítið gat á  lithimnunni (mynd 1). Hvaða þýðingu hefur það? Hver er líklegasta greiningin?

Augnbotn vinstra auga er sýndur á mynd 2. Við uppvinnslu var fengin tölvusneiðmynd af auga og augnumgjörð (mynd 3).

Hver er greiningin?

Tilfelli mánaðarins – svar

Við augnbotnaskoðun sást stálflís hliðlægt í sjónhimnunni og blæðing í kring (mynd 2). Gatið á lithimnunni og óregla dýpra í hornhimnunni gefa til kynna að rof hafi orðið á auganu. Sárið var sjálflokandi og því ekki greinanlegur litarefnisleki. Sjúklingur hafði verið að meitla gamlan húsgrunn og járnflís skotist inn í augað. Lega, stærð og staðsetning hennar var staðfest með tölvusneiðmynd (mynd 3).

Sjúklingur var lagður inn á vegum augnlækna, fékk rocephalin 2 g í æð og oftaquix augndropa í vinsta auga 6 sinnum á dag. Hann fór í aðgerð daginn eftir þar sem glerhlaupið var hreinsað og flísin fjarlægð (vitrectomia). Gerð voru laser-ör í kringum gatið sem flísin skildi eftir sig (mynd 4). Hann fékk einnig stífkrampabólusetningu (boostrix). Tveimur mánuðum eftir slysið mældist sjón 1,2 á vinstra auganu. (mynd 5).

Umfjöllun

Augnslys eru algengasta orsök blindu hjá fólki á vinnualdri.1 Aðskotahlutur innan auga er til staðar í 17-41% af slysum þar sem rof verður á auga.2 Alvarleiki skaðans fer eftir stærð, lögun og gerð aðskotahlutarins, með hvaða hætti áverkinn á sér stað og hvaða vefir augans skaddast. Aðskotahluturinn getur verið staðsettur hvar sem er innan augans, allt frá forhólfi aftur í sjónhimnu eða æðu.3,4

Saga, skoðun og rannsóknir

Sjúklingar gefa oft óljósa sögu af óhappinu en lýsa því gjarnan að þeim hafi fundist þeir fá eithvað upp í augað án þess að augljós ummerki sjáist um það á yfirborðinu. Þannig getur verið auðvelt að missa af greiningunni. Við nánari skoðun má greina lítið inngangssár en þessi sár geta verið sjálflokandi og þá sést ekki litarefnisleki (neikvætt Seidel´s test). Gat á lithimnunni getur verið eina ummerkið um að rof hafi orðið á auganu. Einkenni sjúklings og útlit skoðunar fer eftir áverkanum og hvar aðskotahlutur situr í auganu. Mekanísk áhrif þess þegar aðskotahlutur fer í gegnum augað geta verið sár og síðar örmyndun á hornhimnu, skýmyndun á augasteini vegna skaða á augasteinshýði, glerhlaupslos, blæðingar í sjónhimnu og/eða glerhlaupi og sjónhimnulos.3

Vakni grunur um aðskotahlut í auga er tölvusneiðmynd af augum og augnumgjörð kjörrannsókn. Þar er unnt að meta andlitsbein, lögun augnknatta og ef aðskotahlutur sést, stærð og staðsetningu hans.4 Greinist ekki aðskotahlutur á tölvusneiðmynd en grunur er áfram sterkur, má gera segulómun af auga og augnumgjörð en þá rannsókn má einungis framkvæma þegar búið er að útiloka aðskotahlut úr málmi.3

Meðferð

Fyrsta meðferð sjúklings með grun um rof á auga er að setja skjöld yfir augað til að forðast utanaðkomandi þrýsting og vísa sjúklingi til augnlæknis. Meðhöndlunin í framhaldinu fer eftir tegund áverka, gerðar og stærðar aðskotahlutar og staðsetningu hans.4 Sé rof á auganu sem ekki hefur lokast af sjálfu sér er fyrsta markmið meðferðar að loka gatinu. Það fer eftir aðstæðum og ástandi sjúklings hvort aðskotahluturinn er fjarlægður í sömu aðgerð.1,4 Miklar framfarir hafa orðið í aðgerðum á aftari hluta augans og samfara því hefur aðgerðum þar sem fjarlægja þarf augað fækkað.2,4 Í dag eru aðskotahlutir í aftari hluta augans í flestum tilfellum fjarlægðir í glerhlaupsaðgerð og þá er ýmist notast við töng eða segul.4

Aðskotahlut úr málmi og lífrænum efnum er mikilvægt að fjarlægja. Agnir úr málmi valda oxunarálagi á vefi augans og frumudauða. Sé aðskotahlutur úr steini eða lífrænu efni eru auknar líkur á sýkingu.3 Gler og plast eru hlutlaus efni og hafa ekki sambærilega fylgikvilla í för með sér og kemur til greina að láta þá vera og fylgja sjúklingi náið eftir.5,6

Vegna sýkingarhættu er mælst til þess að sjúklingar fái breiðvirk sýklalyf um munn/æð og einnig í formi augndropa fyrir og eftir aðgerð. Algengustu sýkingarvaldar eru gram-jákvæðar bakteríur, kóagúlasa-neikvæðir stafýlókokkar og streptókokkar.4  

Síðkomnir fylgikvillar eftir fjarlægingu aðskotahlutar úr aftari hluta augans eru sýkingar, himnumyndun yfir sjónhimnu (epiretinal membrane), sjónhimnulos og örmyndun (proliferative vitreoretinopathy). Þessir fylgikvillar valda verulegu sjóntapi hjá allt að 8% þeirra sem fá aðskotahlut inn í augað og undirgangast glerhlaupsaðgerð.2

Horfur með tilliti til sjónskerpu fara eftir áverkanum, hvaða vefir augans skaddast og hvort sjúklingur fái einhverja síðkomna fylgikvilla.1,4,7


Heimildir

1. Ehlers JP, Kunimoto DY, Ittoop S, Maguire JI, Ho AC, Regillo CD. Metallic intraocular foreign bodies: characteristics, interventions, and prognostic factors for visual outcome and globe survival. Am J Ophthalmol 2008; 146: 427-33.
http://dx.doi.org/10.1016/j.ajo.2008.05.021

PMid:18614135

 
2. Erakgun T, Egrilmez S. Prognostic factors in vitrectomy for posterior segment intraocular foreign bodies. J Trauma 2008; 64: 1034-7.
http://dx.doi.org/10.1097/TA.0b013e318047dff4

PMid:18404071


 
3. Kanski JJ, Bowling B. Clinical Ophthalmology: A Systematic Approach. Elsevier Health Sciences, UK 2011.
 
4. Yeh S, Colyer MH, Weichel ED. Current trends in the management of intraocular foreign bodies. Curr Opin Ophthalmol 2008; 19: 225-33.
http://dx.doi.org/10.1097/ICU.0b013e3282fa75f1

PMid:18408498


 
5. Al-Thowaibi A, Kumar M, Al-Matani I. An overview of penetrating ocular trauma with retained intraocular foreign body. Saudi J Ophthalmol 2011; 25: 203-5.
http://dx.doi.org/10.1016/j.sjopt.2011.01.001

PMid:23960924




 






PMCid:PMC3729828


 
6. Greven CM, Engelbrecht NE, Slusher MM, Nagy SS. Intraocular foreign bodies: Management, prognostic factors, and visual outcomes. Ophthalmology 2000; 107: 608-12.
http://dx.doi.org/10.1016/S0161-6420(99)00134-7

 
7. Choovuthayakorn J, Hansapinyo L, Ittipunkul N, Patikulsila D, Kunavisarut P. Predictive factors and outcomes of posterior segment intraocular foreign bodies. Eye (London) 2011; 25: 1622-6.
http://dx.doi.org/10.1038/eye.2011.229

PMid:21921948


PMCid:PMC3234471




Þetta vefsvæði byggir á Eplica