07/08. tbl. 102. árg. 2016

Umræða og fréttir

Þyrluvakt lækna - 30 ár síðan þau fóru í loftið

Í febrúar síðastliðnum voru 30 ár síðan 5 ungir læknar stofnuðu sjálfboðaliðasveit við björgunarsveitarþyrlu Landhelgisgæslunnar. Málið átti sér nokkurn aðdraganda sem sjaldan hefur verið rifjaður upp og því þótti Læknablaðinu við hæfi að ræða við nokkra af stofnendum sveitarinnar ásamt læknisfræðilegum stjórnanda hennar og fyrstu konuna sem starfaði með sveitinni.


Jón Baldursson og Guðmundur Björnsson voru í hópnum sem stofnaði þyrluvakt lækna í ársbyrjun 1986. Ásamt þeim voru Felix Valsson, Óskar Einarsson og Ari Halldórsson í upprunalega hópnum en fljótlega bættust fleiri við og mannaskipti voru nokkuð ör þar sem allir voru þeir deildarlæknar og á leið utan í sérnám. Ólafur Þ. Jónsson svæfingalæknir sem þá var formaður læknaráðs Borgarspítalans og síðar yfirlæknir á gjörgæsludeild spítalans tók að sér læknisfræðilega stjórn þyrluvaktarinnar – og er gjarnan kallaður guðfaðir þyrluvaktarinnar – segir að þrátt fyrir ungan aldur hafi þetta allt verið læknar með góða og fjölbreytta reynslu: „Þeir voru búnir að starfa á ýmsum deildum spítalans í allt að fjögur ár sumir hverjir. Það var heldur enginn tekinn beint inn í sveitina eftir læknapróf, menn urðu að fá nokkra reynslu áður en það gat orðið.“


„Eftir þetta sumar velktumst við ekki lengur í vafa um þörfina á læknavakt við þyrluna og fórum þá að róa að því öllum árum að fá vaktina setta formlega upp,“ segir Jón Baldursson.


Á sloppnum út í óvissuna

Guðmundur Björnsson lýsir aðdraganda þess að nokkrir áhugasamir ungir læknar tóku sig saman og stofnuðu þyrluvaktina, þeim hafi fundist nauðsynlegt að koma meira skipulagi á útköllin og vera betur undirbúnir þegar kallið kæmi. „Stundum lenti þyrlan bara hérna við spítalann eða læknirinn var sóttur af lögreglunni og keyrður með forgangsljósum út á flugvöll. Það var þá tilviljun háð hvaða læknir fór með. Við vissum varla hvers eðlis útkallið væri eða hvaða búnað ætti að taka með. Það voru dæmi um að menn fóru bara á klossunum og hvíta sloppnum út í óvissuna. Umræðan á meðal okkar læknanna spannst talsvert um þetta og Ólafur Þ. Jónsson yfirlæknir var mikill áhugamaður um sjúkraflug og Jón Baldursson hafði einnig talsverða reynslu í gegnum starf sitt með Hjálparsveit skáta. Þetta varð allt til þess að haustið 1985 ákváðum við að reyna að setja saman hóp og búa til vaktaskipulag og í kjölfar þessa ræddum við málið við stjórn spítalans því við þurftum að fá leyfi til að sinna útköllum á vinnutíma. Þetta var aukakostnaður fyrir spítalann og við fórum því á fund fjárveitinganefndar Alþingis og óskuðum eftir sérstakri fjárveitingu til að standa undir kostnaði við þyrluvaktina. Okkur var ágætlega tekið og hugmyndin þótti góð en það komu engir peningar út úr þessum samtölum. Við ræddum við fjölmarga aðila og samtök sem áttu hagsmuna að gæta en árangurs í formi peninga. Við þóttumst sjá af þessu að við þyrftum bara að byrja og sannfæra fjárveitingavaldið um nauðsyn þess að halda úti þyrluvakt lækna. Við gerðum þetta allt í mjög nánu og góðu samstarfi við Landhelgisgæsluna enda gerðu menn þar sér fulla grein fyrir mikilvægi okkar læknanna. Gæslan sá um búnaðinn að miklu leyti og spítalinn lagði einnig til ýmislegt og í byrjun árs 1986 hófust æfingar okkar með Gæslunni en frá upphafi var læknirinn hluti af áhöfn þyrlunnar og við því skyldaðir til að taka þátt í björgunaræfingum með þeim. Það var mjög gagnlegt.

Niðurstaðan af þessu öllu var að við mönnuðum sólarhringsvakt lækna utan okkar vinnutíma á spítalanum og ákváðum að láta á þetta reyna í eitt ár. Þetta hófst svo formlega þann 20. febrúar 1986. Fljótlega eftir það komu útköll og þá slípaðist ákvarðanatakan með hvort læknir ætti að fara með í útkallið eða ekki og flugstjórinn tók að sjálfsögðu loka-ákvörðun um hvort væri flugfært vegna veðurs eða vegalengdar. Síðan héldum við nákvæmar skýrslur um hvert útkall og fórum vandlega yfir alla þætti eftir á til að læra sem mest af hverju útkalli. Við nutum þess að sjálfsögðu hvað áhöfn þyrlunnar var vel þjálfuð og skipulögð í vinnubrögðum og lærðum mikið af þeim, bæði á æfingum og í útköllunum sjálfum.

Samhliða þessu voru við stöðugt að nudda í fjárveitinganefnd og þingmönnum og fengum Sjómannasambandið og fleiri í lið með okkur því þeir gerðu sér fulla grein fyrir mikilvægi þyrluvaktarinnar. Ýmsir þingmenn tóku þetta mál upp en það reyndist furðulega þungt fyrir fæti að fá fjárveitingu fyrir þessu starfi. Um sumarið fórum við hringferð um landið með þyrlunni og kynntum starf þyrluvaktarinnar fyrir heimamönnum á hverjum stað. Það mæltist mjög vel fyrir og allir gerðu sér grein fyrir því að þetta skipti máli. Það sem réði svo úrslitum um að fjárveiting fékkst var slys úti á landi þar sem náinn ættingi eins stjórnmálamanns slasaðist og það var alveg ljóst að þyrluvaktin og læknirinn um borð höfðu bjargað lífi viðkomandi.

Til að gera langa sögu stutta komst þyrluvaktin inn á fjárlög næsta árs, 1987, og hefur verið þar síðan. Þetta hefur auðvitað þróast  í gegnum árin og er löngu komið í mjög fastar og öruggar skorður og enginn efast lengur um mikilvægi þess að hafa lækni um borð í þyrlunni þegar farið er í útköll vegna slysa langt út á land eða haf.“

„Þyrluvakt lækna á sér talsvert langa forsögu en um miðjan 8. áratuginn var hópur lækna sem reyndi að gera eitthvað svipað og við gerðum áratug síðar. Hvers vegna það rann út í sandinn veit ég satt að segja ekki,“ segir Jón Baldursson bráðalæknir en hann vísar hér til þess að í kjölfar ráðstefnu sem Rauði Kross Íslands efndi til í nóvember 1973 um sjúkraflug á Íslandi kom sú hugmynd fram hjá stjórn Læknafélags Reykjavíkur að kanna hvort unnt væri að koma á fót læknavakt fyrir sjúkraflug. Segir í bréfi sem stjórn LR sendi félagsmönnum um þetta efni að rætt hafi verið við ráðuneytisstjóra heilbrigðisráðuneytisins vegna hugsanlegrar þátttöku hins opinbera við greiðslu vinnulauna lækna vegna sjúkraflugsins. Voru undirtektir sagðar jákvæðar en ekkert varð úr efndunum. Formleg vakt lækna vegna sjúkraflugs beið í 12 ár þó vissulega hafi læknar farið í sjúkraflug með flugvélum og þyrlum á þessum árum eftir því sem þurfa þótti og tök voru á.

*
„Það sem réði svo úrslitum um að fjárveiting fékkst var slys úti á landi þar sem náinn ættingi eins
stjórnmálamanns slasaðist og það var alveg ljóst að þyrluvaktin og læknirinn um borð höfðu bjargað
lífi viðkomandi,“ segir Guðmundur Björnsson.


Tilraunaverkefni í upphafi

„Þegar við félagarnir fórum að undirbúa stofnun þyrluvaktarinnar hafði ég verið sveitarforingi Hjálparsveitar skáta tæp tvö ár og hafði farið í leitar- og björgunarflug með Landhelgisgæslunni, meðal annars um hvítasunnuna 1985. Þetta var með leiguvél en gæslan var enn að jafna sig eftir þyrluslysið í Jökulfjörðunum 1983 þegar TF Rán fórst með nokkra af reyndustu þyrlumönnum Gæslunnar. En ég átti síðar þetta sama ár samtöl við Pál Halldórsson flugstjóra um samstarf Gæslunnar og Hjálparsveitarinnar og snemma árs 1986 barst þetta í tal okkar í milli hvort ekki væri hægt að fá lækna af Borgarspítalanum til að vera til taks þegar þyrlan væri kölluð út. Áður hafði Gæslan einfaldlega reynt að grípa þann lækni sem var á lausu, stundum tekið héraðslækni með en ég var mjög áfram um að þetta yrði fært í ákveðnari farveg og læknarnir fengju þjálfun með áhöfn þyrlunnar og væru betur undirbúnir fyrir þau verkefni sem útkallið krefðist. Það skemmtilega við þetta samtal var að meðan á því stóð kom Óskar Einarsson inn á skrifstofuna og var fljótur að átta sig á um hvað símtalið snerist og þegar ég lagði á horfðum við hvor á annan og hann sagði: Væri það ekki æðislegt? Og með það spruttum við uppúr stólunum, tveir galvaskir unglæknar, örkuðum eftir ganginum og knúðum dyra hjá þáverandi formanni læknaráðs Borgarspítalans, Ólafi Þ. Jónssyni svæfingalækni. Það kom okkur verulega á óvart að við þurftum ekkert að hafa fyrir því að sannfæra hann en þá höfðum við ekki hugmynd um að hann hafði um árabil verið mikill áhugamaður um sjúkraflug og bráðaþjónustu og hafði heilmikla reynslu af slíku. Ólafur reyndist okkur svo betri en enginn því hann tók þetta mál strax upp á arma sína, gerðist eins konar verndari þyrluvaktarinnar og þar með varð þetta uppátæki okkar aldrei umdeilt að ráði innan spítalans því Ólafur naut mikillar virðingar og það var gríðarlegur styrkur að því að hafa hann sem bakhjarl. Við fengum síðan þrjá aðra unglækna í lið með okkur, Guðmund Björnsson síðar endurhæfingarlækni, Ara Halldórsson síðar skurðlækni og Felix Valsson síðar gjörgæslu- og svæfingalækni sem enn er að fljúga með gæslunni. Ari og Felix hurfu til framhaldsnáms erlendis ekki löngu eftir að við stofnuðum vaktina og í þeirra stað bættust í hópinn Stefán Carlsson bæklunarlæknir, Grétar Ottó Róbertsson síðar bæklunarlæknir og Arn-aldur Valgarðsson svæfingalæknir en hann átti eftir að fljúga í mörg ár og reynast klettur í þessu starfi.

Við stofnuðum til þyrluvaktar lækna sem tilraunaverkefnis til að sjá hvort þörf væri á slíkri vakt og hversu gagnlegur læknir væri við þessar aðstæður. Enginn okkar var fyrirfram viss um hvað úr þessu yrði og við gengum að þessu með opnum huga. Fljótlega rákum við okkur á að verkefnin voru sum hver mjög erfið og krefjandi en þau voru fá um veturinn og fram á vorið. Um sumarið helltust útköllin yfir, mestmegnis slys bæði á sjó og landi, en það kom Landhelgisgæslunni á óvart hversu mörg útköll voru á þurru landi. Eftir þetta sumar velktumst við ekki lengur í vafa um þörfina á læknavakt við þyrluna og fórum þá að róa að því öllum árum að fá vaktina setta formlega upp. Þó að við hefðum notið velvildar spítalans frá upphafi vorum við gagnrýndir af sumum fyrir að vinna læknisstörf frítt en það útskýrðum við með því að þetta væri rannsóknarverkefni og þessu yrði ekki haldið áfram þannig til langframa. Síðan gerðist þetta slys um haustið sem Guðmundur nefndi og það reið baggamuninn. Þyrluvaktin var sett á fjárlög frá og með áramótum 1986-1987.“


„Ég var læknisfræðilegur stjórnandi þyrlusveitarinnar allt til þess að spítalarnir  voru sameinaðir,“ segir
Ólafur Þ. Jónsson.


Allir voru sammála um mikilvægi málsins

Ólafur Þ. Jónsson var yfirlæknir svæfinga- og gjörgæsludeildar Borgarspítalans þegar þyrlusveitin var að fæðast og hann hafði mikinn áhuga á og persónulega reynslu af sjúkraflugi og gerði sér góða grein fyrir mikilvægi þess.

„Ég hafði í mörg ár þarna á undan farið í mörg sjúkraflug, bæði innanlands og til  Grænlands, með flugvélum og þyrlum, en það var ekkert fast form á þessu og það var því sannarlega tímabært þegar þessir ungu menn komu á minn fund og lýstu áhuga sínum á því að gerast sjálfboðaliðar og stofna þyrlusveit lækna. Ári síðar, eða í febrúar 1987, var gerður samningur milli Borgarspítalans og Landhelgisgæslunnar um hvernig þessar tvær stofnanir sameinuðust um sjúkraflugið. Í samningnum var grein þar sem sagði að spítalinn skipaði læknisfræðilegan stjórnanda. Forstjóri spítalans fól mér þetta starf.  

Samningurinn var í fyrstu til 5 ára en var síðan endurnýjaður árlega eftir það.

Ég var læknisfræðilegur stjórnandi þyrlusveitarinnar allt til þess að spítalarnir voru sameinaðir. Í starfinu fólst að ræða við þá lækna sem óskuðu eftir því að komast í þyrlusveitina og hvort eitthvað gæti komið í veg fyrir þátttöku þeirra í sveitinni. Haldnir voru reglulegir fundir með áhöfn þyrlunnar og læknanna í þyrlusveitinni þar sem farið var vandlega yfir allt sem sneri að útköllunum og verk-efnunum. Þetta var nú í hnotskurn það sem sneri að mér varðandi þyrlusveitina meðan ég hafði afskipti af henni. Yfirleitt voru þetta ungir læknar sem höfðu ekki hafið sérfræðinám en höfðu talsverða reynslu sem deildarlæknar. Seinna komu oft sérfræðimenntaðir læknar í sveitina.“

Ólafur rifjar upp að það hafi ekki gengið snurðulaust fyrir sig þegar ungar konur í læknastétt óskuðu eftir því að komast í þyrlusveitina. „Þetta hafði verið karlaveldi fram að því að Alma Möller kom til liðs við sveitina og hún sýndi strax að konur voru alveg jafn færar um þetta og karlarnir. Reyndar efaðist enginn um það heldur settu flugmennirnir aðallega fyrir sig að það væri ekki sérstakir búningsklefar fyrir konur  og takmörkuð snyrtiaðstaða í þyrlunum. Það reyndist svo ekkert vandamál og þetta gekk alveg ljómandi vel allt saman.“

Að sögn Ólafs var það stundum álitamál hvenær teldist fært að sækja slasaða eða sjúka og fyrir kom að slík mál rötuðu í fjölmiðlana. „Ákvörðun um þetta var og er enn tekin af lækninum á vakt, hvort sjúkdómurinn eða slysið er þess eðlis að fara þurfi á þyrlunni eða ekki og síðan er það flugstjórans að ákveða hvort fært væri  vegna veðurs eða langdrægis vélanna. Einu sinni fór slíkt mál fyrir dómstóla. Það kom líka fyrir að við vorum skammaðir fyrir að fara þegar það þótti óþarft. Reyndar er ástæða til að taka það fram að nokkuð löngu áður en ungu læknarnir stofnuðu þyrlusveitina hafði Sigurður Steinar Ketilsson skipherra samband við mig og óskaði eftir ráðleggingum um hvaða búnað væri best að hafa í sjúkratösku þyrlunnar. Samstarfið milli spítalans og gæslunnar átti sér því talsverða sögu og gerði þetta allt auðveldara í vöfum þegar þyrlusveitin var stofnuð. Það voru í rauninni allir sammála um mikilvægi þess og allur þessi tími og samskipti við lækna og flugmenn og aðra var hinn ánægjulegasti í alla staði.“


„Þetta voru oft langar ferðir en æfingarnar voru ekki síður skemmtilegar þar sem við fengum
þjálfun í að síga niður í skip og fjalllendi og þar var Sigurður Steinar Ketilsson skipherra okkar
helsti lærimeistari,“ segir Alma Möller.
Myndina tók Gunnar V. Andrésson fyrir DV 20. september 1991 af Ölmu D. Möller þyrlulækni hjá
Landhelgisgæslu Íslands við vinnu, sigið niður í varðskipið Tý. Þyrla gæslunnar er TF Sif. Í ferðinni
voru líka Helga Magnúsdóttir þyrlulæknir og Árni Jónsson stýrimaður og spilmaður, Benóný Ásgrímsson
flugstjóri og Pétur Steinþórsson flugmaður.


Höfðu áhyggjur af fataskiptum og pissuferðum

„Ég hafði mikinn áhuga á hvers kyns bráðameðferð og var í námsstöðu á svæfinga- og gjörgæsludeildinni hjá Ólafi Jónssyni,“ segir Alma Möller framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landspítalans. „Ég hafði líka verið deildarlæknir á lyflækningadeild og tekið vaktir í eitt og hálft ár á neyðarbílnum þannig að ég var komin með talsverða reynslu af bráðalækningum. Ólafur stakk upp á því við mig að ég færi á þyrluvaktina og mér fannst það mjög spennandi. Það hafði hins vegar engin kona verið í þyrlusveitinni svo það var sko ekki sjálfgefið að ég kæmist í þetta þó Ólafur væri því mjög meðmæltur. Þetta voru náttúrlega allt karlar og þeir höfðu meðal annars áhyggjur af praktískum atriðum eins og fataskiptum og pissuferðum. Menn höfðu einnig áhyggjur af því hvort líkamlegir burðir mundu nægja, til dæmis í sigi og að læknir gæti þurft að taka þátt í að bera sjúkling. Ég brást við því með að þjálfa vel í ræktinni og ekkert af þessu varð nokkru sinni vandamál. Landhelgisgæslumennirnir urðu allir miklir vinir mínir og eru það enn í dag. Svo bættust fleiri konur í þennan hóp og það hefur alltaf gengið ljómandi vel enda enginn munur á því hvort læknirinn er karl eða kona.“

Alma segir margt minnisstætt úr ferðunum með þyrlunni og hún kveðst hafa búið að þessari þjálfun alla tíð, maður náði úr sér „akúthrollinum“ fyrir lífstíð. Undir það taka reyndar bæði Guðmundur og Jón Baldursson sem gerði reyndar gott betur og hélt utan til Bandaríkjanna og lagði fyrir sig bráðalækningar sem sérgrein og hefur verið einn helsti lærimeistari unglækna á bráðadeild Borgarspítalans og síðar Landspítalans.

„Þetta voru oft langar ferðir en æfingarnar voru ekki síður skemmtilegar þar sem við fengum þjálfun í að síga niður í skip og fjalllendi og þar var Sigurður Steinar Ketilsson okkar helsti lærimeistari. Ég seig síðan niður í bæði togara á hafi úti og smábáta í haugasjó. Fyrsta vaktin mín var nokkuð litrík því hún hófst með því að við fórum hringferð um landið til að taka þátt í sjómannadagshátíðahöldum og þar sýndi ég sig úr þyrlunni ofan í bát og upplifði mig einsog sirkusdömu. Á leiðinni til baka kom útkall um alvarlegt slys í Hrútafirði og stuttu eftir að við vorum komin aftur í loftið með hinn slasaða kom annað útkall vegna alvarlega veiks barns á Akranesi. Við stungum okkur niður þar svo ég kom með tvo sjúklinga á Borgarspítalann úr þessari ferð,“ segir Alma.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica