07/08. tbl. 102. árg. 2016

Ritstjórnargrein

Innlagnir unglinga á Vog helmingi færri nú en árið 2002

Þórarinn Tyrfingsson forstjóri á Sjúkrahúsinu Vogi

doi: 10.17992/lbl.2016.0708.88

Árið 1977, þegar SÁÁ var stofnað, var unglingadrykkja vel þekkt vandamál á Íslandi og unglingar á aldrinum 15-19 ára byrjuðu snemma að koma þar til meðferðar. Á 9. áratugnum fjölgaði unglingum í meðferð jafnt og þétt og kannabisneysla varð algengari meðal þeirra. Á árunum 1995-2000 jukust innritanir áfengis- og vímuefnasjúklinga á aldrinum 15-19 ára á Vog skyndilega úr rúmlega 100 á ári í rúmlega 300 árlega á þessum aldri. Nýgengi ungu sjúklinganna varð mest árið 2002 og fór þá í rúmlega 800 á hverja 100.000 íbúa á aldrinum 15-19 ára. Síðan hefur dregið stöðugt úr nýgengi innlagna þeirra sem eru yngri en 20 ára og árið 2015 var það komið niður í tæp 300 á sama mælikvarða.

Sjúklingahópurinn sem kemur til afeitrunar hjá SÁÁ breytist ár frá ári. Á upphafsárunum settu túradrykkjumenn mestan svip á hópinn og hlutur kvenna fór hratt vaxandi, hlutfall þeirra fór úr 20% í rúm 30%. Um 1980 urðu kannabissjúklingarnir á aldrinum 20-30 ára meira áberandi í hópnum. Stóra breytingin kom svo 1983 þegar ungu kannabissjúklingarnir fóru að nota ólöglegt amfetamín í vaxandi mæli og sjúklingar sem notuðu vímuefni í æð sáust í fyrsta skipti í Reykjavík.

Upp úr 1995 fór neysla vímuefna hratt vaxandi á Íslandi og hélst mikil fram yfir aldamót. Kókaín kom til Reykjavíkur 1999 og vímuefnasjúklingar sem sprautað höfðu amfetamíni í æð sóttu í vaxandi mæli í morfín sem þeir leystu upp úr forðatöflum ætluðum verkjasjúklingum. Ástandið fór hratt versnandi en átakanlegast var þó að áður óþekktur fjöldi ungmenna 19 ára og yngri rataði í vímuefnavanda. Unglingar höfðu alla tíð verið hluti af sjúklingahópnum hjá SÁÁ en svo brá við rétt fyrir síðustu aldamót að fjöldi ungu einstaklinganna sem lagðist inn á Sjúkrahúsið Vog ríflega tvöfaldaðist árlega. Innritanirnar hjá þessum aldurshópi fóru vel yfir 300 á hverju ári og fjöldinn fór úr tæplega 100 í rúmlega 200 árlega. Ljóst var að í óefni stefndi.

SÁÁ brást við þessum vanda með því að byggja við Sjúkrahúsið Vog 11 rúma deild fyrir unglinga sem voru 19 ára og yngri og stórauka göngudeildarþjónustu. Unglingameðferðin var endurskipulögð og boðið upp á göngudeildarþjónustu fyrir unglingana og foreldra þeirra, bæði fyrir og eftir Vogsdvölina. Síðan hafa unglingar ekki þurft að bíða eftir leguplássi á Vogi.

Á síðustu 20 árum hefur umfang þjónustunnar fyrir unglinga verið mikið. Á árunum 1996-2015 leituðu 2853 einstaklingar (kvenhlutfall 37,7%) sem voru 19 ára eða yngri sér meðferðar í fyrsta sinn. Á sama árabili voru innritanir fyrir sama aldurshóp 6340. Það vímuefni sem gerir unglingana helst félagslega óvirka er kannabis en þeim stafaði einnig hætta af amfetamíni, e-pillu, morfíni og vímuefnaneyslu í æð.

Árangur í slíkri meðferð næst fyrst og fremst með mikilli vinnu, þrautseigju, fjármagni og góðum húsakosti. Skyndilausnir eru ekki til þó þeim sé oft lofað.

Meðferðin á Vogi bjargar mannslífum því að í ljós hefur komið að þrátt fyrir ýmiskonar meðferðarinngrip er þessi ungi sjúklingahópur í mun meiri hættu á að deyja ótímabært en jafnaldrar þeirra. Á árunum 2001-2005 var áhættan 11 sinnum meiri (relative risk 11,4) en 7 sinnum meiri á árabilinu 2005-2010 fyrir þá sem voru 15-19 ára. Sjúkrahúsið Vogur býður þessum hópi upp á flýti- og skyndiinnlagnir þar sem markmiðið er að koma jafnvægi á hættu-ástand vegna neyslunnar og í framhaldi að aðstoða foreldra og forráðamenn unglingsins við að skapa félagslega umgjörð og aðhald sem dregur úr alvarleika ástandsins.

Áhugahvöt unglinga til að breyta vímuefnaneyslunni er oft lítil framan af. Markmiðið er þá að fleyta hópnum í gegnum slysa- og sýkingahættur þar til samstarfsvilji skapast til markvissrar meðferðar. 678 úr þessum hóp hafa sprautað vímuefnum í æð og 475 byrjuðu á því fyrir tvítugt. 237 hafa fengið lifrarbólgu C og þar af 92 fyrir tvítugt. Í byrjun árs 2016 var ljóst að 168 þessara einstaklinga þurfa lyfja-meðferð og 49 hafa þegar hafið slíka meðferð hjá SÁÁ og Landspítala þegar þetta er skrifað.

Meðferðin á Sjúkrahúsinu Vogi er oft upphaf að auknum lífsgæðum og varanlegu bindindi. Þegar sjúklingar undir tvítugu koma til meðferðar í fyrsta sinn er ekki hægt að vænta þess að nauðsynlegur samstarfsvilji skapist eins oft strax og hjá þeim fullorðnu. Margir hinna ungu eru líka hálfþvingaðir til meðferðar í fyrstu innlögn. Þrátt fyrir þetta næst oft góður árangur í fyrstu meðferð og margur unglingurinn kemur fljótt til endurinnlagnar með breytt hugarfar. 1487 einstaklingar af umræddum 2853 unglingum, eða 52%, hafa einungis komið á Vog einu sinni og 83% hafa verið þar þrisvar sinnum eða sjaldnar frá 1996-2015.

Ekkert heilbrigðisvandamál er jafn algengt og hættulegt fyrir unglinga og notkun vímuefna. Það er því fagnaðarefni að áfengis- og vímuefnavarnir Íslendinga hafi skilað svo góðum árangri að innlögnum vegna áfengis- og vímuefnasjúkdómsins hjá 15-19 ára ungmennum hafi fækkað um rúmlega helming frá árinu 2002.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica