06. tbl. 102. árg. 2016

Umræða og fréttir

Landspítali opnar hermisetur. Langþráður draumur að rætast – segir Alma D. Möller

Landspítalinn opnaði í apríl hermisetur í Ármúla þar sem heilbrigðisstarfsfólki gefst kostur á að æfa sig í ýmsum læknisverkum og aðgerðum á þar til gerðum brúðum og líkönum og tilgangurinn er augljóslega að auka færni starfsfólksins þegar kemur að læknisverkum á lifandi sjúklingum. Alma D. Möller framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landspítala hefur, ásamt fleirum, unnið að uppsetningu setursins.


„Okkar ábyrgð felst í því að tryggja öryggi sjúklinganna okkar með öllum þeim aðferðum sem við
höfum tiltækar. Hermisetrið er lykilþáttur í því,“ segir Alma D. Möller framkvæmdastjóri aðgerðasviðs
Landspítalans.

„Það hefur lengi verið draumur okkar að koma upp slíku setri til þjálfunar og kennslu en okkur vantaði húsnæði þar til skyndilega að þetta húsnæði losnaði í vetur og þá var ekki eftir neinu að bíða. Starfsemi er þegar hafin með endurlífgunarnámskeiðum og fleiru þó ýmislegt sé enn ógert í standsetningu húsnæðisins áður en það verður fyllilega frágengið.“

Húsnæðið er um 140 fermetrar að stærð í Ármúla 1 og þar verða tvö hermiherbergi  og stjórnherbergi,  ein rúmgóð kennslustofa fyrir 40-50 manns og 3-4 herbergi fyrir verkstöðvar. Kaffistofa, mötuneyti og skrifstofa  eru sameiginleg með annarri starfsemi í húsinu en þar er fyrir veirufræðideild og menntadeild spítalans. „Þetta fer mjög vel saman og húsnæðið er að flestu leyti mjög hentugt,“ segir Alma.

Þjálfun í hermisetrinu er þjálfun heilbrigðisstarfsfólks á oft á tíðum mjög flóknum og erfiðum aðgerðum þar sem mikilvægt er að allir viti nákvæmlega hvað á að gera og samvinnan sé hnökralaus.

„Hermisetrið gerir okkur kleift að æfa slíka hluti við öruggar aðstæður þar sem leyfilegt er að gera mistök, stýra flækjustiginu og endurtaka ferlið eins oft og þarf þar  til allir eru þrautþjálfaðir í því,“ segir Alma. Hún bætir við að þarna verði hægt að þjálfa viðburði sem eru sjaldgæfir en jafnmikilvægt að kunna ferlið út í hörgul þegar á þarf að halda.

Fullkomnar brúður og líkön

Hermiþjálfunin felst bæði í stöðluðum námskeiðum eins og endurlífgun, að sögn Ölmu, en einnig geta mismunandi deildir sett fram sérstakar óskir um þjálfun í tilteknum aðgerðum eða verkum og þá verður hægt að búa til námskeið sérsniðin að þeirra þörfum. „Hluti af starfseminni felst líka í að fara með hermiþjálfunina á deildirnar þar sem starfsmenn geta æft verkin í sínu rétta umhverfi. Brúðurnar eða líkönin eru mjög fullkomnar og hægt að æfa á þeim ýmis verk eins að setja æðaleggi, taka blóðgös, sinna endurlífgun, framkvæma mænustungu og setja inn brjóstholskera en síðast en alls ekki síst, þá er sífellt meiri áhersla lögð á teymis- og samskiptaþjálfun. Þar sem starfsmennirnir fá þjálfun í að vinna saman og taka ákvarðanir við erfiðar aðstæður  eins og til dæmis skyndilega versnun sjúklings, öndunarbilun, lost og meðvitundarskerðingu svo eitthvað sé nefnt. Þetta er nauðsynleg þjálfun í  samskiptum, teymisvinnu, ákvarðanatöku og leiðtogahæfni. Árangurinn er ótvíræður og felst meðal annars í  aukinni færni starfsmanna, auknu sjálfsöryggi þeirra við erfiðar aðstæður, minnkandi streitu í starfinu og styttri tíma sem fer í að læra verkið.“

 

Eykur öryggi sjúklinga

Alma leggur áherslu á að allar rannsóknir á árangri af hermikennslu sýni fram á að slík þjálfun auki öryggi sjúklinga. „Það er auðvitað það sem þetta snýst um og okkar ábyrgð felst í því að tryggja öryggi sjúklinganna okkar með öllum þeim aðferðum sem við höfum tiltækar. Hermisetrið er lykilþáttur í því. Það var því sett á oddinn að koma þessu á laggirnar og þegar húsnæðið hér losnaði vorum við eiginlega löngu tilbúin að hefja þetta verkefni og það hefur sýnt sig annars staðar að þegar svona er einu sinni komið af stað þá vindur það upp á sig því gagnsemin er svo fljót að skila sér og fólkinu finnst þetta líka skemmtileg aðferð við að þjálfa sig í starfi. Okkar markmið var því að komast einhvers staðar inn og byrja og síðan yrði eftirleikurinn auðveldari. Við vorum reyndar svo lánsöm að örfáum dögum eftir að ákveðið var að nýta þetta húsnæði undir hermisetrið barst spítalanum vegleg peningagjöf, 20 milljónir króna, sem ákveðið var að leggja í þetta verkefni. Það gerði okkur kleift að kaupa þann nauðsynlega búnað sem þurfti til að opna starfsemina.“

Alma segir samstarf Landspítala og læknadeildar Háskólans æskilegt og verið sé að ræða hvernig slíkri samvinnu verði háttað en báðar stofnanirnar hafa svo sannarlega áhuga á því. Fyrst um sinn er þó hermisetrið fyrst og fremst ætlað heilbrigðisstarfsfólki Landspítalans. Þetta er fyrst og fremst endur- og símenntunarsetur en læknanemar munu koma hingað þegar þeir hefja störf á Landspítala, jafnvel strax á 5. og 6. námsári.

Umsjón með hermisetrinu er í höndum menntadeildar Landspítalans en að sögn Ölmu verða kennarar fengnir af ýmsum deildum spítalans, allt eftir því hvaða námskeið verður boðið uppá. „Við erum einnig að þjálfa kennara úr okkar röðum og njótum við það leiðsagnar norskra sérfræðinga sem tengjast framleiðanda lækningabrúðanna sem við höfum fest kaup á. Þetta eru námskeið sem kallast að þjálfa þjálfarana (train the trainer) og er mjög mikilvægt því kennslutækni hefur fleygt fram og við viljum geta boðið okkar fólki uppá það besta sem völ er á í því efni,“ segir Alma D. Möller að lokum.Þetta vefsvæði byggir á Eplica