06. tbl. 102. árg. 2016

Umræða og fréttir

Undirbýr veglegt þing Samtaka norrænna röntgenlækna - Maríanna Garðarsdóttir er formaður

Samtök norrænna röntgenlækna standa fyrir veglegu þingi á Íslandi 29. júní – 1. júlí á næsta ári. Maríanna Garðarsdóttir er formaður Félags Íslenskra röntgenlækna og tók við sem forseti Norrænu samtakanna í byrjun þessa árs. Maríanna, í samvinnu við þingnefnd Félags íslenskra röntgenlækna, hefur haft veg og vanda af skipulagningu þingsins ásamt stjórn samtakanna sem skipuð er fulltrúum félaga röntgenlækna frá hverju Norðurlandanna.


„Við fáum stóran hóp fyrirlesara frá Bandaríkjunum, frá Norðurlöndunum og öðrum Evrópu-
löndum,“ segir Maríanna Garðarsdóttir formaður Samtaka norrænna röntgenlækna.

„Þingið er haldið á tveggja ára fresti og skiptast löndin á að halda það. Það er hefð fyrir því að formaður samtakanna sé frá því landi sem þingið er haldið en það eru 15 ár síðan þingið var síðast haldið á Íslandi þannig að það var sannarlega kominn tími til að hafa þing hér. Við höfum boðið Félagi geislafræðinga til samstarfs við okkur og vonumst auðvitað til að allt röntgenfólk á Íslandi fjölmenni enda frábært tækifæri til að fræðast um það nýjasta sem er á döfinni í greininni,“ segir Maríanna.

„Þema þingsins er Everyday challenges in Radiology og verður þingið haldið á ensku, bæði vegna þess að gestir okkar koma ekki einungis frá Norðurlöndunum og svo eru margir Finnar og Íslendingar sem ekki tala skandinavísku tungumálin. Við höfum einnig fundið fyrir miklum áhuga kollega okkar utan Norðurlandanna á þinginu svo enskan varð eðlilega fyrir valinu sem tungumál þingsins og vonumst við auðvitað eftir þátttakendum sem víðast að. Dagskrá þingsins er að mótast og meðal annars fáum við stóran hóp fyrirlesara frá Bandaríkjunum og einnig koma fyrirlesarar frá Norðurlöndunum og öðrum Evrópulöndum. Af fyrirlesurum sem þegar hafa boðað komu sínu eru til dæmis taugaröntgenlæknarnir Anne Osborn sem er vel þekktur fyrirlesari um taugasjúkdóma barna, og Emanuel Kanal sem er sérfróður um segulómun. Þá koma einnig fyrirlesarar frá Yale University Hospital og Mayo Clinic en þar eigum við hauk í horni sem er Haraldur Bjarnason prófessor. Við vonumst til að efnið höfði til sem flestra í sérgrein okkar, bæði lækna og geislafræðinga sem og sérnámslækna.

Þingið stendur í tvo og hálfan dag með fyrirlestrum og utan þess gefst einnig tími til skemmtunar og ferðalaga því margir gestanna hafa mjög mikinn áhuga á Íslandi og vilja gjarnan nota tækifærið til að sjá eitthvað af borginni og landinu. Margir hafa gert ráðstafanir til að dvelja lengur og nýta tækifærið til fara í styttri og lengri ferðir um landið þegar þinginu er lokið.“

Undirbúningur hefur staðið í rúm tvö ár að sögn Maríönnu enda ekki ráð nema í tíma sé tekið þegar eftirspurn eftir ráðstefnustöðum og gistirými er slík að útilokað er að fá hótelgistingu nema með löngum fyrirvara. „Reyndar eru margir sem útvega sér gistingu sjálfir eftir öðrum leiðum enda hefur ýmislegt breyst á þeim markaði undanfarin misseri. Við rennum reyndar svolítið blint í sjóinn hvað þátttakendafjölda varðar því síðast þegar þingið var haldið í Stokkhólmi slógu Svíarnir saman norræna þinginu og sínu eigin árlega landsþingi. Þar var fjöldinn ríflega 2000 manns enda sækja það röntgenlæknar og geislafræðingar frá allri Svíþjóð en við vonumst til að taka á móti allt að 500 manns og höfum bókað aðstöðu í Hörpu sem ræður við það.“

Norrænu samtökin eru gömul í hettunni en þau voru stofnuð árið 1921 og er stjórnin skipuð tveimur fulltrúum frá hverju landsfélaga röntgenlækna á Norðurlöndunum og halda þau stjórnarfund einu sinni á ári og aðalfund annað hvert ár að sögn Maríönnu. „Hlutverk samtakanna er fyrst og fremst að efla samstarf á milli félaganna á Norðurlöndunum og árið sem ekki er haldið þing hefur verið boðið upp á ferðastyrki fyrir lækna í sérnámi í myndgreiningu svo þeir geti kynnst nýju umhverfi og séð hvað er að gerast annars staðar. Þetta hefur gefist mjög vel og verið eftirsótt frá byrjun. Á norræna þinginu er síðan hefð fyrir því að veita verðlaun þeim sem skarað hafa framúr í rannsóknum í myndgreiningu undangengin tvö ár og einnig er lýst kjöri heiðursfélaga ef ástæða þykir til.“

Maríanna segir að þörfin fyrir sérfræðinga í myndgreiningu sé mikil og fari stöðugt vaxandi en einnig er þörf fyrir reynda deildarlækna. „Við þjálfum stöðugt upp nýtt fólk sem síðan hverfur til áframhaldandi sérnáms þannig að við búum við talsvert bil á milli sérfræðinga og deildarlækna með takmarkaða reynslu en þarna á milli er bil sem erfitt er að brúa, hvort sem er í sérgrein okkar eða öðrum. Þar á ofan vantar fleiri sérfræðinga í myndgreiningu til starfa hér á Landspítalann, sem og á öðrum myndgreiningardeildum á landinu. Eftirspurnin eftir sérnáminu er mjög góð og hér hafa verið að jafnaði 4-6 námslæknar hverju sinni. En okkur vantar einnig útskrifaða sérfræðinga því þeir sem flytjast heim eftir sérnám kjósa fremur að vinna annars staðar en á Landspítala þar sem að þeirra mati bjóðast betri kjör og starfsaðstæður.“ 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica