05. tbl. 102. árg. 2016

Umræða og fréttir

Konur voru skiptimynt í viðskiptum karla - Óttar Guðmundsson geðlæknir og rithöfundur skrifar um kynlíf í Íslendingasögunum

Frygð og fornar hetjur er titill tíundu bókar Óttars Guðmundssonar geðlæknis og rithöfundar og fjallar hún um kynlíf í Íslendingasögum, kynhegðun og hlutverk kynjanna á þjóðveldisöld. Óttar hefur þaullesið sögurnar og les á milli línanna, bregður upp sjónarhorni geðlæknisins á hegðun einstakra persóna og leggur á ýmsan hátt útaf þeim atburðum sem þar er lýst.


„Ég vorkenni konum Íslendingasagnanna og Sturlungu. Mér finnst líf þeirra ömurlegt og flestar eru
þær undir hæl einhverra karla sem stjórna lífi þeirra,“ segir Óttar Guðmundsson höfundur bókarinnar 
Frygð og fornar hetjur.

„Í byrjun bókarinnar velti ég fyrir mér stöðu kvenna í þessu frumstæða samfélagi og færi ákveðin rök fyrir því hvernig á þeirri stöðu stendur. Eignarréttur karla á konunni tengist frjósemi hennar, karlmaðurinn vill eiga frjósemi konunnar og stjórna henni, hann slær eign sinni á konuna og fjölgunarfæri hennar. Það verður öðru mikilvægara að börn séu rétt feðruð, en karlarnir eru alltaf hræddir um að þau séu ekki rétt feðruð og það er undirrót tortryggninnar gagnvart konum og þeim margítrekuðu skilaboðum að konum sé ekki treystandi, þær séu viðsjálar og svikular og karlmenn verði að gæta sín á þeim ef ekki á illa að fara fyrir þeim,“ segir Óttar.

„Ég velti því síðan fyrir mér hvernig þetta viðhorf endurspeglast í sögunum og hversu gjörsamlega áhrifalausar konurnar eru um sitt eigið líf, þær ráða bókstaflega engu um það. Þær eru giftar mönnum sem þær hafa aldrei séð, þær eru mikilvæg skiptimynt í viðskiptum karlmanna, þær ganga bókstaflega kaupum og sölum eins og hver annar búfénaður.“

Egill var áhugalaus um konur

Óttar segist alveg sannfærður um að þeir atburðir sem Íslendingasögurnar lýsa hafi raunverulega gerst og að persónur þeirra hafi verið uppi.

„Ég held að þarna sé alveg raunhæf mynd dregin upp af undirokun kvenna þó endalaust megi takast á um að hve miklu leyti söguefni Íslendingasagna sé skáldskapur eða lýsing á raunverulegum atburðum. Staða kvenna í Íslendingasögunum er eflaust sú sama og á ritunartíma sagnanna og er Egilssaga gott dæmi. Kjör kvenna í Sturlungu eru jafnvel enn síðri en í sumum Íslendingasagnanna, þar eru afskaplega fáar sterkar konur sem hafa einhver áhrif á örlög karla eins og Hallgerður Langbrók eða Guðrún Ósvífursdóttir. Snorri Sturluson lítur á dætur sínar sem eign sem hann getur ráðstafað að vild og hann nýtti bæði eigin hjónabönd og barna sinna til að auka áhrif sín og völd. Konur voru peð á taflborði Snorra og annarra Sturlunga sem menn tefldu fram til sigurs í skákinni.

Flestir fræðimenn telja að Snorri Sturluson hafi ritað Egilssögu. Það er einkennileg staðreynd að kvennamaðurinn mikli, Snorri, skuli hafa ritað eina kynlausustu Íslendingasöguna. Egill og Snorri eiga fátt annað sameiginlegt en skáldskapargáfuna og kvennamál fá lítið rými í sögunni. Egill giftist Ásgerði ekkju Þórólfs bróður síns og þau eignuðust nokkur börn saman en að öðru leyti dvelur Snorri ekkert við lýsingar á þessu sambandi. Ásgerður fær lítið rými í sögunni þótt hún hafi verið gift tveimur aðalhetjum sögunnar. Hún virðist láta sér það vel líka að maður hennar dvelur langdvölum í útlöndum við að drepa menn og yrkja ódauðleg kvæði. Kannski eru þetta skilaboð til eiginkvenna Snorra að láta hann í friði við bókfellin og ferðalögin og einbeita sér að barnauppeldi og búsumsýslu.“

Áhrifavaldar á örlög karla

Í heimi Íslendingasagnanna snúast átök um heiður og völd og hefndarskyldan er hafin yfir vafa ef gert er á hluta manns.

„Sterkustu konur Íslendingasagnanna, Hallgerður Langbrók og Guðrún Ósvífursdóttir, semja sig algjörlega að þessu miskunnarlausa samfélagi hefndardrápa sem ganga eins og rauður þráður í gegnum sögurnar. Þær egna karlmenn til átaka og hafa úrslitaáhrif á örlög þeirra en ráða sorglega litlu um sitt eigið líf. Karlmennirnir eru hvatvísir, hégómlegir og graðir og kona einsog Hallgerður áttar sig á því hvaða áhrif hún getur haft á karlmenn með fegurð sinni og kynþokka. Hún tryllir alla karlmenn í kringum sig. Hún sefur hjá sex mönnum ef marka má Njálu og þeir deyja allir á voveiflegan hátt. Sagan refsar henni síðan grimmilega fyrir að hafa beitt valdi sínu á þennan hátt. Hallgerður er flagð undir fögru skinni að dómi höfundar Njálu. Það er engan veginn jafnræði með þeim Hallgerði og Gunnari þegar fundum þeirra ber fyrst saman. Engum sögum fer af kvennamálum Gunnars fram að fyrsta fundi þeirrar Hallgerðar en hann er líklega hreinn sveinn og heillast af þessari frægu, lífsreyndu ekkju sem miklum sögum fór af. Það er velþekkt að ungir menn og óreyndir í kynferðismálum heillast af lífsreyndum konum. Hann er kvíðinn og óttast að standa ekki undir væntingum Hallgerðar í rúminu. Gunnar er háður sínum besta vini, Njáli, og spyr hann í sífellu ráða um allt milli himins og jarðar. Þetta nána samband þeirra Gunnars og Njáls fellur Hallgerði mjög illa og hefur komið henni á óvart. Hún hélt að hún væri að giftast hraustasta manni á landinu en fékk í hjónasængina taugaveiklaðan mann, algjörlega óreyndan í kynlífi og samskiptum við konur. Samband þeirra Njáls og Gunnars er á þann veg að vel má gera því skóna að þeir hafi verið elskendur og Gunnar tekur ávallt afstöðu með Njáli og Bergþóru gegn eiginkonu sinni Hallgerði þegar á reynir. Allt fer þetta úr böndunum og endar með dauða Gunnars sem höfundur sögunnar gerir að þolanda en konan er hinn illi gerandi sem tryllir hetjuna með fegurð sinni og skilur hana eftir til að deyja.“

Samkynhneigð var tabú

„Í karlmannasamfélagi þessara tíma var kynlíf einstaklinga af sama kyni fordæmt. Í Grágás er stranglega bannað að væna menn um slíkt þó hvergi sé kveðið á um refsingar eða bönn við samkynhneigð. Kirkjan fordæmdi reyndar allt það kynlíf sem ekki var stundað milli karls og konu í hjónabandi og sagnaritararnir hafa verið meðvitaðir um  það. Það er athyglisvert að sögurnar geta í raun ekki um neinn mann sem örugglega nýtur kynlífs með öðrum karlmönnum. Sögurnar fjalla eiginlega mest um móðganir og ásakanir sem hníga í þessa átt. Það var stórhættulegt að núa andstæðingi sínum því um nasir að hann væri argur eða sorðinn. Sögurnar geta um allmarga menn sem týndu lífinu vegna ógætilegra orða um kynhegðun einhverra höfðingja. Ekki er þó að efa að í þessu lokaða karlasamfélagi þar sem karlmenn eyddu löngum stundum saman í ferðalögum og hernaði hafi sitthvað gerst sem aldrei rataði inn á síður Íslendingasagna.“

Í Laxdælasögu er það Guðrún Ósvífursdóttir sem tryllir þá Kjartan Ólafsson og Bolla Þorleiksson með fegurð sinni og kynþokka og veldur dauða þeirra beggja auk nokkurra annarra í leiðinni. Guðrún hefur þó fengið mun jákvæðari eftirmæli en Hallgerður þrátt fyrir ýmis líkindi með þeim. „Þjóðin hefur alltaf talið sér trú um að Guðrún hafi elskað þrjá eiginmenn sína og ekki hvað síst hetjuna Kjartan Ólafsson, sem var ástmaður hennar. Reyndar lét hún drepa þennan sama Kjartan, en þjóðin gerði Guðrún að heilagri konu sem hvílir við rætur Helgafells. Guðrún er barnaleg, hégómleg og afbrýðisöm og fellur vel að hefndarsamfélaginu. Hún hagar sér eins og kona á að gera í karlasamfélaginu  og semur sig að siðalögmálum samtíma síns. Guðrún hefur verið heillandi og fögur kona sem lærir fljótlega að vefja karlmönnum um fingur sér. Hún áttar sig á viðkvæmni karlmanna sem vilja allt til þess vinna að fá viðurkenningu og aðdáun glæsilegrar konu. Hún afhjúpar veikleika þeirra og kemur miklum hetjum til að líta út og haga sér eins og vesalingar.“


Málverkið á bókarkápu gerði Jóhanna V. Þórhallsdóttir eiginkona Óttars. Það sýnir Þorvald Vatnsfirðing
með frillum sínum tveimur, Halldóru Sveinsdóttur og Lofnheiði.

Að hafa stjórn á eigin frjósemi

Óttar segir ýmislegt vera sammerkt þessum tveimur konum, Guðrúnu og Hallgerði. Feður þeirra gifta þær kornungar eldri mönnum og hjónaböndin enda bæði með ósköpum. „Báðar þessar stúlkur báru sterk einkenni persónuleikaröskunar og gelgju, svo sennilega hafa þær ekki verið eiginmönnum sínum eftirlátar. Þær haga sér báðar í samræmi við það. Hallgerður vanrækti bústörfin en Guðrún eyddi öllu því sem eiginmaðurinn gat komið höndum yfir. Í báðum þessum samböndum eiga þær sér elskhuga sem þær sinna betur en mönnum sínum. Hjúskapur beggja gæti verið í nútímanum með tilheyrandi drama, framhjáhaldi og gelgjulátum. Stúlkurnar eru reyndar báðar svo ungar að nútímamenn myndu ekki hika við að kalla eiginmennina barnaperra. Höfundar sagnanna hafa fulla samúð með þessum óhamingjusömu eiginmönnum sem héldu sig hafa höndlað hamingjuna en hlutu báðir dapurleg endalok.“

Það er augljóst hvar samúð Óttars gagnvart persónum Íslendingasagnanna liggur. Konurnar eru fórnarlömb aðstæðna og þó þær sterkustu geti haft áhrif á líf karlanna í kringum sig fá þær litlu breytt um eigin örlög.

„Ég vorkenni konum Íslendingasagnanna og Sturlungu. Mér finnst líf þeirra ömurlegt og flestar eru þær undir hæl einhverra karla sem stjórna lífi þeirra. Sumir þessara karla eru sannarlega ekki öfundsverðir af uppeldi sínu og lífsreynslu á unga aldri, Snorri goði er gott dæmi en hann á ömurlega æsku og fer því mjög tengslaraskaður út í lífið og lætur það síðan bitna á systur sinni Þuríði. Það réttlætir í sjálfu sér ekki neitt en útskýrir sumt.  

Meginboðskapur Íslendingasagnanna hvað konur varðar er að þeim sé ekki treystandi og þetta má finna í Hávamálum þar sem beinlínis er sagt að konur séu viðsjárverðar og ungir menn eigi að vara sig á þessum helmingi mannkynsins.

Tilvera og réttindi konunnar í þessu samfélagi voru algjörlega undir því komin hversu sterkir og voldugir karlmenn voru í kringum hana og að mínu mati þá helst þessi staða kvenna óbreytt allt fram á 20. öld þegar konur geta farið að stjórna frjósemi sinni án afskipta karla.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica