05. tbl. 102. árg. 2016

Umræða og fréttir

Félag íslenskra barnalækna 50 ára - saga barnalækna á Íslandi

Myndir frá vísindadeginum: Brynja Kristín Þórarinsdóttir

Katrínardagur er árlegur vísindadagur barnalækna. Hann var haldinn laugardaginn 2. apríl þetta árið og dagskrá var skipulögð í ljósi þess að Félag íslenskra barnalækna fagnar nú 50 ára starfsafmæli, stofnað 20. maí 1966. Stofnfélagar voru alls 13.


Stofnfélagaskrá frá árinu 1966 - 13 félagar og þar af þrjár konur, það er merkilegt hlutfall. Baldri Jónssyni barnalækni á FSA var boðin aðild að félaginu stuttu eftir stofnun þess, sem hann og þáði.

Katrín Thoroddsen (1897-1970) var fyrsti íslenski læknirinn sem veitt var sérfræðileyfi í barnasjúkdómum árið 1927. Hún starfaði hjá Hjúkrunarfélaginu Líkn (1915-1956) frá 1927 til 1956 og síðan hjá Heilsuverndarstöð Reykjavíkur (1956-2006) frá 1956. Hún sat á Alþingi fyrir hönd Sósíalistaflokksins á árunum 1946-1949, en starfaði á þeim tíma að hluta til sem læknir líka. Vísindadagur barnalækna er nefndur Katrínardagurinn henni til heiðurs. Margrét Sveinbjörnsdóttir menningarmiðlari hóf daginn á sögu Katrínar. Katrín var brautryðjandi á sviði heilsuverndar barna og verðandi mæðra hér á landi, bæði með beinum hætti og í stefnumótun á sínum pólítíska vettvangi.

Það liðu 10 ár þar til næsti læknir sótti sérfræðiviðurkenningu í barnasjúkdómum, en það var Óskar Þórðarsson (1897-1958) árið 1937. Hann starfaði sem barnalæknir Sumargjafar við barnaheimili Reykjavíkur, skólalæknir og víðar. Bent Scheving Thorsteinsson stofnaði Verðlaunasjóð Óskars Þórðarsonar árið 2000 með veglegri peningagjöf til minningar um fóstra sinn, til að styrkja rannsóknir á sviði barnalækninga.


Ásgeir Haraldsson prófessor í barnalækningum rakti sögu barnadeildar Landspítala.

Ásgeir Haraldsson (f. 1956) fór yfir sögu barnadeildar Landspítalans, sem sett var á fót árið 1957, og komið fyrir á þriðju hæð í elstu byggingu spítalans. Tveir læknar voru ráðnir við deildina og annar þeirra var Kristbjörn Tryggvason (1909-1983). Kristbjörn var þriðji læknirinn til að fá sérfræðiviðurkenningu í barnalækningum (1940) hér á landi, á eftir Katrínu og Óskari. Kristbjörn starfaði sem deildarlæknir fyrstu árin en þarna voru sérfræðingar gjarnan í deildar- og aðstoðarlæknisstöðum. Hann var yfirlæknir barnadeildar árin 1960-1974, og dósent við HÍ á sama tímabili. Hann varð prófessor í barnalækningum 1970-74.

Barnadeild Landspítalans flutti í nýrri húsakynni árið 1965, á tvær hæðir í nýrri álmu. Barnadeildin hlaut nafnið Barnaspítali Hringsins í virðingarskyni við kvenfélag Hringsins, en félagskonur veittu verulegu fjármagni til deildarinnar og stuðluðu að hraðari uppbyggingu hennar.

Sérstök bygging var loks reist til að sinna sjúkrahúsþjónustu fyrir veik börn. Nýr Barnaspítali Hringsins var tekinn í notkun vorið 2003. Sú bygging var einnig styrkt mjög myndarlega af Hringskonum. Bygging spítalans fór af stað áður en tekin var ákvörðun um að sameina Landspítalann og Sjúkrahús Reykjavíkur (1996-2000). Töluverð endurskipulagning starfsem-innar var því nauðsynleg á byggingartíma. Staðsetningin var ákveðin meðal annars með það í huga að tengsl vökudeildar og fæðingardeildar væru góð.

Ásgeir fór yfir aðkomu barnalækna að kennslu í læknadeild HÍ, vísindastarfsemi og doktorsnám þeirra. Kristbjörn varð fyrsti prófessorinn í faginu. Víkingur Heiðar Arnórsson (1924-2007), sem hlaut sérfræðiviðurkenningu 1961, var skipaður næsti prófessor í barnalæknisfræði 1974 og gegndi því hlutverki þangað til Ásgeir tók við árið 1995. Fram kom í umræðum með Ásgeiri að fyrsti íslenski barnalæknirinn til að verja doktorsritgerð í barnalæknisfræði við Karolinska (1988) var Birgir Jakobsson (f. 1948) núverandi landlæknir. Stuttu síðar, árið 1989, varði Atli Dagbjartsson (f. 1940) doktorsritgerð sína við HÍ. Alls hafa vel á annan tug barnalækna lokið doktorsnámi og eru nokkrir í slíku námi. Einnig kom fram að barnalæknar hafa verið virkir í vísindavinnu. Vísindagreinar, nemaverkefni og ritgerðir skipta hundruðum. Þá nefndi Ásgeir einnig mikinn og almennan áhuga barnalækna á kennslu.


Þröstur Laxdal var sérfræðingur á barnadeild Landakotsspítala og kenndi í læknadeild í 20 ár.

Þröstur Laxdal (f. 1935) fór yfir fyrstu árin sín sem barnalæknir og á bæjarvöktum í Reykjavík eftir að hann kom heim frá Bandaríkjunum síðla árs 1968. Hann fékk ásamt Sævari Halldórssyni (1934-2008) sérfræðingsstöðu á barnadeild Landakotsspítala í ársbyrjun 1969. Fyrir ráðningunni stóð yfirlæknir spítalans, Dr. Bjarni Jónsson (1909-1999). Yfirlæknir og eini læknir barnadeildarinnar frá formlegri stofnun hennar 1961, Björn Guðbrandsson (1917-2006), var henni mótfallinn, taldi fram hjá sér gengið um samráð og sýndi andúð sína með ýmsu móti, eins og fram kemur í sjálfsævisögu hans frá 1987. Þröstur lýsti ýmsum tilfellum sem hann þurfti að fást við og mjög áhugavert var að heyra hann lýsa börnum með alvarleg einkenni og varanlegar afleiðingar veikinda sem nú er bólusett fyrir. Veikindi sem yngri barnalæknar hafa margir aldrei séð og almenningur jafnvel búinn að gleyma. Lýsing hans styrkir okkur enn frekar í mikilvægi þess að tala fyrir gagnsemi bólusetninga. Síðar bættust í hóp barnalækna á Landakoti Árni V. Þórsson (f. 1942) árið 1979, svo Ólafur Gísli Jónsson (f. 1956) árið 1990 og þá Kristleifur Kristjánsson (f. 1955) árið 1993. Einnig starfaði Birgir Jakobsson, núverandi landlæknir, sem sérfræðingur við deildina í rúmt ár, 1988-1989. Vísi að barnadeild á Landakoti var fyrst komið upp með fjórum stofum og biðherbergi þegar árið 1957, en deildin stækkuð og formlega stofnsett árið 1961. Barnadeildin flutti starfsemi sína í lok árs 1995 yfir á Sjúkrahús Reykjavíkur (1996-2000), eða við sameiningu Landakots (1902-1996) og Borgarspítalans (1967-1996). Sá tilflutningur var jákvætt skref að mati margra barnalækna því þá kom þeirra sérþekking loks að umönnun þeirra barna sem áður höfðu legið á Borgarspítalanum án aðkomu barnalækna. Þröstur var lektor og dósent í læknadeild yfir 20 ár og þótti afar góður kennari, bæði á sviði fræðilegs efnis og svo var ávallt gerður góður rómur að klínískri kennslu hans á barnadeild Landakots. Vegna natni hans hefur verið haft á orði að Þröstur hafi vakið áhuga margra félaga til að leggja stund á barnalækningar.


Þórður Þórkelsson er yfirlæknir á vökudeildinni þar sem yngstu hjörtun á landinu hamast við að slá.

Þórður Þórkelsson (f. 1954) yfirlæknir vökudeildar Barnaspítala Hringsins fór yfir þróun nýburalækninga hér á landi og tengdi hana sögu deildarinnar. Það vill reyndar svo skemmtilega til að vökudeildin fagnaði 40 ára starfsafmæli sínu 2. febrúar síðastliðinn. Tólf rúm voru áætluð undir fæðandi konur á handlækningadeildinni í gamla Landspítalanum sem opnaði árið 1930. Fæðingardeild var formlega sett á fót í nýju húsnæði kvennadeildar Landspítalans árið 1949. Sú bygging stendur enn, en samanstendur af gamla ljósmæðraskólanum og núverandi B-álmu kvennadeildar. Gunnar Biering (1926-2007) barnalæknir var ráðinn á fæðingardeildina árið 1958 til að sinna veikum nýburum, en þeim hafði áður aðallega verið sinnt af ljósmæðrum og fæðingarlæknum. Síðar var byggt við kvennadeildina og er það sú bygging sem kallast A-álma kvennadeildar í dag. Þar var lítil nýburagjörgæsludeild hönnuð sem fékk nafnið vökudeild (1976). Með nýrri þekkingu sem fylgdi meðal annars ráðningu Atla Dagbjartssonar (f. 1940) og Harðar Bergsteinssonar (f. 1942) varð bylting í meðferð alvarlega veikra nýbura, meðal annars með markvissri öndunarvélameðferð sem hafði verið að ryðja sér til rúms erlendis á þessum tíma. Hjúkrunardeildarstjóri var Ragnheiður Sigurðardóttir (f. 1948) hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir. Hafði hún kynnt sér gjörgæsluhjúkrun ungbarna í Skotlandi nokkru áður. Stýrði hún deildinni í 34 ár, frá upphafi til 2010. Gunnar Biering var skipaður yfirlæknir deildarinnar árið 1980 og Atli tók við af honum sem yfirlæknir þegar Gunnar lét af störfum vegna aldurs 1996. Þegar Atli hætti störfum við deildina 2008 tók Þórður við yfirlæknisstarfinu.

Stór þáttaskil í nýburalækningum urðu þegar lungnablöðruseyti (surfactant) kom til skjalanna 1990. Enn betri tækni við öndunaraðstoð kom með hátíðniöndunarvélameðferð (oscillator) 1994 og við innleiðingu á notkun niturildis (nitric oxide) í meðferð við háþrýstingi í lungnablóðrás 1996. Burðarmálsdauði hefur stöðugt farið lækkandi á síðustu áratugum og er nú meðal þess sem lægst gerist á heimsvísu. Sama má segja um ungbarnadauða. Mikil-væg starfsemi deildarinnar er að sinna öllum mikið veikum nýburum á Íslandi og flutningi þeirra frá stöðum utan af landi, auk þess sem deildin þjónustar veika nýbura á austurströnd Grænlands. Í dag starfa 8 nýburalæknar við deildina.


Magnús Stefánsson var yfirlæknir barnadeildar Sjúkrahúss Akureyrar.

Magnús Stefánsson (f. 1936) barnalæknir fór yfir sögu barnadeildar Sjúkrahúss Akureyrar (SAk). Þann 1. október 1961 var Baldur Jónsson (1923-1994) ráðinn að SAk sem sérfræðingur í barnalækningum til að sinna veikum börnum. Aðstaðan var ansi þröng í mörg ár, en Baldur fékk fyrst til umráða tvær sjúkrastofur í elsta hluta spítalans. Það var svo í ársbyrjun 1972 sem barnadeild var formlega stofnuð á SAk. Baldur var ráðinn yfirlæknir þar þangað til hann hætti -vegna aldurs í lok árs 1993. Um mitt ár 1976 flutti deildin í nýtt húsnæði á efsta palli í stigahúsi sem var fyrsti hluti viðbyggingar SAk. Þá stækkaði deildin úr um 40 m2 í 166 m2, en þetta var lagt upp sem bráðabirgðahúsnæði til tveggja ára en það teygðist úr því. Deildin var á þessum stað í rúm 24 ár. Byrjað var á nýrri álmu við SAk 1995 og barnadeildin flutti í nýtt rúmgott (870 m2) húsnæði árið 2000, 10 rúma deild með sérstöku rými til að sinna nýburum. Opnun þessarar deildar var mikið framfaraskref í umönnun veikra barna á Akureyri og mikil bót á aðstöðu fyrir aðstandendur og starfsfólk. Magnús var ráðinn við deildina árið 1975 og tók við yfirlæknisstöðu 1994 og gegndi til 2005, en vann sem sérfræðingur til ársloka 2008. Geir Friðgeirsson (f. 1947) barnalæknir vann við deildina frá 1982 til 1997. Andrea E. Andrésdóttir (f. 1955) hóf störf 1996 og tók við yfirlæknisstöðunni í framhaldi af Magnúsi 2006. Fyrir utan Andreu eru nú tveir sérfræðingar fastráðnir við deildina í fullu starfi, þau eru Gróa B. Jóhannesdóttir (f. 1969) og Viktor Sula (f. 1977). Nokkuð margir barnalæknar hafa starfað við deildina í mislangan tíma, bæði fastráðnir og enn fleiri við afleysingar.


Barnalæknar komu saman í húsnæði læknafélaganna í Hlíðasmára 8 og fóru yfir hálfrar aldar sögu síns félags.

Eins og að ofan greinir stofnuðu 13 barnalæknar Félag íslenskra barnalækna fyrir 50 árum og er einungis einn þeirra á lífi í dag, en það er aldursforseti félagsins, Geir Hannes Þorsteinsson (f. 1928). Geir fékk sérfræðiviðurkenningu 1963 og vann aðallega við ungbarnavernd víða á höfuðborgarsvæðinu, á stofu og við skólalækningar. Geir gat sér gott orðspor í starfi, en ákvað að söðla um og vinna sem heilsugæslulæknir í Heilsugæslu Kópavogs þegar hún var stofnuð árið 1980 og vann hann þar til starfsloka. Geir var kjörinn fyrsti formaður félagsins á stofnfundi þess, sem að hans sögn kom honum á óvart. Hann sat í eitt ár (1966-1967) eins og fyrstu lög félagsins sögðu til um. Næstelsti núlifandi barnalæknir er Einar Lövdahl (f. 1929), en hann fékk sérfræðileyfi árið 1969. Einar lærði barnalækningar í Svíþjóð. Hann dvaldi í Addis Ababa í Eþíópíu með fjölskyldu sinni árin 1965-1967, er hann vann þar á vegum sænsku þróunarhjálparinnar (SIDA). Einar flutti heim 1967 og vann á Barnaspítala Hringsins um tveggja ára skeið. Hann vann síðan á stofu, við skólalækningar og ungbarnaeftirlit út sína starfsævi. Þriðji elsti félagi er Þórey J. Sigurjónsdóttir (f. 1930) frá Vestmannaeyjum. Þórey lærði barnalækningar á Mayo Clinic í Rochester, Minnesota, og starfaði að mestu á sinni stofu og aðeins við ungbarnavernd. Þórey varð fjórða konan til að öðlast sérfræðiréttindi í barnalækningum á Íslandi (1967). Katrín var fyrst allra, en Hulda Sveinsson (1920-2012) og Kristjana P. Helgadóttir (1921-1984), fengu báðar sérfræðileyfi 1952. Hulda starfaði með Katrínu hjá Líkn og Heilsuverndarstöð Reykjavíkur, en Kristjana mest á stofu.


Katrín Thoroddsen ruddi brautina fyrir barnalækna hérlendis. Myndin er tekin í Heilsuverndarstöðinni
árið 1956, hinir þriflegu tvíburar sem Katrín er þarna að skoða eru sextugir á þessu ári.
Myndina tók Gunnar Rúnar Ólafsson og hún er varðveitt í Ljósmyndasafni Reykjavíkur.

Það vekur óneitanlega athygli að allir aldursforsetar félagsins hættu störfum á Barnaspítala Hringsins við upphaf starfsferils síns hér á landi, á árabilinu 1965-1970, og munu samskiptaerfiðleikar innan deildarinnar hafa legið þar að baki. Magnús H. Ágústsson barnalæknir (f. 1924) flutti aftur til Bandaríkjanna eftir að hafa unnið á barnadeild 1957-1958. Magnús, þá prófessor við University of Illinois, hafði milligöngu um fyrstu hjartaskurðaðgerðir á nokkrum íslenskum börnum í Chicago. Bróðir hans, Hreiðar (1918-2009), fékk sérfræðileyfi í barnalækningum 1948. Hann vann á Íslandi um stutt skeið en síðan sem barnalæknir í Minnesota frá 1949.

Hér hefur verið stiklað á stóru í sögu barnalækna og sjúkrahúsþjónustu við börn á Íslandi, en ekki farið í mikilvæga þjónustu barnalækna utan sjúkrahúsa. Þær stofnanir þar sem barnalæknar hafa komið við sögu í miklum mæli eru heilsuverndarstöðvar, síðar heilsugæslustöðvar og ungbarnavernd víða um land. Margir félagar hafa unnið á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins sem stofnuð var 1986. Stefán J. Hreiðarsson (f. 1947) var forstöðumaður stöðvarinnar í 30 ár, frá stofnun til loka árs 2015. Sumir hafa tengst Miðstöð heilsuverndar barna, sem síðar varð Þroska- og hegðunarstöð hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðis. Að lokum má ekki gleyma sjálfstæðum stofurekstri, aðallega í Domus Medica og Barnalæknaþjónustunni, þar sem aðkoma barnalækna hefur vegið þungt í mati og meðferð veikra barna hér á landi.

Þakkir fá allir fyrirlesarar dagsins og stjórnarmeðlimir; Brynja Kristín Þórarinsdóttir (f. 1973) ritari, Sindri Valdimarsson (f. 1971) gjaldkeri og Sigurður Einar Marelsson (f. 1973) varamaður.


Helstu heimildir

  • Haraldsson G. Læknar á Íslandi. Þjóðsaga, Reykjavík 2000.
  • Harðarsson Þ. Hjartaskurðlækningar og tildrög þeirra á Íslandi. Læknablaðið 2013; 99: 406-7.
  • Skjalasafn. Félag íslenskra barnalækna 1966-2016.
  • Sæmundsson MV. Minningar barnalæknis. Lífssaga Björns Guðbrandssonar. Forlagið, Reykjavík 1987. 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica