05. tbl. 102. árg. 2016

Umræða og fréttir

Stærsti styrkur sem íslenskum hópi vísindamanna hefur hlotnast

Sigurður Yngvi Kristinsson, prófessor í blóðsjúkdómum við læknadeild Háskóla Íslands og sérfræðingur við Landspítala, og hópur vísindamanna undir hans forystu, hefur hlotið 300 milljóna króna styrk til krabbameinsrannsókna. Rannsóknarefnið er forstig mergæxla og framvinda sjúkdómsins í mannslíkamanum. Rannsóknarteymi Sigurðar Yngva samanstendur af sjö doktorsnemum, tölfræðingi, verkefnisstjóra auk fjölda læknanema. 


„Stefnum að því að geta boðið sjúklingum með mergæxli meðferð mun fyrr en annars gerist og er
það von okkar að þannig getum við stuðlað að lækningu sjúkdómsins,“ segir Sigurður Yngvi Kristinsson
prófessor í blóðsjúkdómum.


Sigurður Yngvi segir að rannsóknarhópurinn stefni að því að bjóða um 140.000 manns yfir fertugu, búsettum á Íslandi, að taka þátt og skima fyrir forstigi mergæxlis, svokallaðri einstofna góðkynja mótefnahækkun (MGUS). Finnist þetta forstig sjúkdómsins verði viðkomandi einstaklingum boðið að taka þátt í klínískri rannsókn þar sem markmiðið er að skoða hvaða meðferð henti best. Jafnframt er ætlunin að nýta gögnin úr rannsókninni til þess að þróa nýtt áhættulíkan fyrir framþróun sjúkdómsins. „Í framhaldinu stefnum við að því að geta boðið sjúklingum með mergæxli meðferð mun fyrr en annars gerist og er það von okkar að þannig getum við stuðlað að lækningu sjúkdómsins.“

140 þúsund Íslendingum, 40 ára og eldri, verður boðið að taka þátt í rannsókninni. Skimað verður fyrir forstigi mergæxlis og þeim sem greinast verður boðið að taka þátt í klínískri rannsókn. „Í stað þess að hefja skipulega skimun ætlum við að rannsaka gildi skimunar fyrir forstigi mergæxla. Við munum með niðurstöðum þessarar rannsóknar geta svarað nokkrum mikilvægum spurningum, eins og hvort skimun sé hagkvæm, hversu oft þurfi að fylgjast með einstaklingunum, hvaða áhrif það hafi á lífsgæði einstaklinga að hafa vitneskju um forstig krabbameina og hvort unnt sé að lækna mergæxli með því að meðhöndla það fyrr en nú er gert um allan heim,“ segir Sigurður Yngvi.

Áætlað er að um 4% fólks yfir fimmtugu séu með MGUS-forstig mergæxlis en fæst þeirra hafa verið greind. Árlega greinast um 20-25 manns með sjúkdóminn hér á landi og alls um 200.000 manns í heiminum öllum. Samfara auknum rannsóknum á sjúkdómnum og nýjum og betri lyfjum hafa horfur sjúklinga með mergæxli hins vegar batnað gríðarlega síðastliðin ár, að sögn Sigurðar Yngva.

Bandarísku samtökin The International Myeloma Foundation veita styrkinn sem er einn sá hæsti sem vísindamaður við Háskóla Íslands hefur hlotið. IMF hafa yfir að ráða elsta og stærsta sjóði heims sem styrkir sérstaklega rannsóknir á mergæxlum en markmið hans er að stuðla að bættum lífsgæðum fyrir mergæxlissjúklinga bæði með rannsóknum, fræðslu, stuðningi og ráðgjöf. Sjóðurinn hefur meðal annars sett á laggirnar rannsóknaverkefnið Black Swan Research Initiative en markmið þess er að stuðla að lækningu á mergæxli.

Rannsóknin er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Landspítala, Krabbameinsfélags Íslands, Memorial Sloan Kettering sjúkrahússins í New York og Binding Site í Bretlandi.Þetta vefsvæði byggir á Eplica