05. tbl. 102. árg. 2016

Ritstjórnargrein

Líffæraígræðslur - margþætt ferli

Margrét Birna Andrésdóttir klínískur dósent‚ sérfræðingur í nýrnalækningum á Landspítala

doi: 10.17992/lbl.2016.05.77

Líffæraígræðsla er eina mögulega meðferð við líffærabilun á lokastigi í hjarta, lungum og lifur. Þó að sjúklingar með nýrnabilun á lokastigi eigi kost á skilunarmeðferð er nýraígræðsla kjörmeðferð, bætir lífsgæði og lengir líf sjúklinganna en er að auki ódýrari til lengri tíma en skilunarmeðferð.

Í þessu tölublaði Læknablaðsins er sagt frá árangri af lungnaígræðslum í Íslendinga frá upphafi. Þar kemur fram að lifun lungnaþeganna er svipuð og hjá öðrum stærri þjóðum.1

Þessi góði árangur er ánægjulegur en niðurstöðurnar verður þó að skoða með þeim fyrirvara að um fáa sjúklinga er að ræða (20 lungnaþegar) og eftirfylgnitími stuttur fyrir um helming hópsins. Í greininni endurspeglast fjölbreytileiki fylgikvilla sem ígræðslulæknar verða að geta greint og meðhöndlað, en þeir eru aðallega af ónæmisfræðilegum toga oft ásamt óvenjulegum sýkingum.1 Þá er mikilvægt að bera kennsl á mögulega líffæraþega, þekkja ábendingar og hefja uppvinnslu eins fljótt og auðið er.

Allt eftirlit með líffæraþegum og uppvinnsla fyrir ígræðslu er í höndum sérfræðinga á Landspítala sem gjarna hafa komið sér upp sérþekkingu á sviði ígræðslumála í sérnámi sínu. Þessir sérfræðingar hafa síðan tekið að sér að fylgja sjúklingum eftir, þó án sérstaks umboðs eða að því fylgi stöðuhlutfall. Það er að mínu mati helsta brotalömin í eftirliti með líffæraþegum, því þessi þjónusta þarfnast sérstakrar árvekni og einnig er mikilvægt að ígræðslulæknar viðhaldi þekkingu sinni og fái tíma til að sinna henni. Á síðustu árum hefur verið komið upp sérstakri ígræðslugöngudeild á Landspítalanum við Hringbraut þar sem tveir hjúkrunarfræðingar starfa. Þar er nýrna-, lifrar- og hjartaþegum sinnt ásamt lifandi nýrnagjöfum. Vegna staðsetningar lungnadeildar er sérstök göngudeild fyrir lungnaþega í Fossvogi þar sem einnig eru tveir hjúkrunarfræðingar starfandi. Það er verkefni komandi ára að efla þessar göngudeildir svo að hægt verði að tryggja að meðferð ígræðslusjúklinga megi vera sem öruggust og í samræmi við þekkingu á hverjum tíma.

Undirbúningur, ígræðsluaðgerð og meðferð líffæraþega er aðeins einn hlekkur í því flókna ferli ígræðslulækninga sem hefst með líffæragjöf. Það er einstakt í læknisfræði að meðferð sé háð aðkomu almennings, sem gefur úr sér líffæri til ígræðslu, lifandi eða að sér liðnum. Ef þessara líffæragjafa nyti ekki við, yrðu ígræðslur aflagðar. Þetta er afar viðkvæmt ferli og kallar á gott skipulag og regluverk til að uppfylla lagalegar og siðferðilegar skyldur.

Til þess að uppfylla þessi skilyrði þarf nána samvinnu milli ígræðslusjúkrahúsa og yfirvalda og líka við almenning. Á Norðurlöndum gegnir Scandiatransplant lykilhlutverki sem ígræðslustofnun er lýtur stjórn allra 10 ígræðslusjúkrahúsa á Norðurlöndum. Landspítalinn öðlaðist þá viðurkenningu þegar ígræðslur nýrna úr lifandi gjöfum hófust hér á landi í desember 2003. Hvert Norðurlandanna á sér einn fulltrúa í stjórn og hefur undirrituð setið þar síðastliðin 6 ár. Allar meiriháttar ákvarðanir eru bornar undir fulltrúaráð á aðalfundi sem haldinn er einu sinni á ári, en Íslendingar eiga þar einn fulltrúa. Hlutverk Scandiatransplant er fyrst og fremst að halda utan um biðlista og sjá til þess að dreifing líffæra sé sem best og í samræmi við reglur sem settar hafa verið um forgang fyrir hvert líffæri. Í þeim tilgangi er haldið úti gagnabanka þar sem allir líffæraþegar og -gjafar eru skráðir og er aðalverkefni skrifstofu Scandiatransplant að viðhalda þeim gagnagrunni. Þegar líffæri býðst til ígræðslu er ígræðslusjúkrahúsunum skylt að kanna í gagnagrunninum hvort senda beri líffæri til annars sjúkrahúss, sem getur verið í öðru landi, áður en ákveðið er að nota líffærið til ígræðslu á eigin sjúkrahúsi. Slíkir flutningar líffæra milli Norðurlandanna gerast í um 16-22% tilvika, eftir því hvaða líffæri á í hlut.2 Ef líffæri nýtist ekki á Norðurlöndum er það boðið öðrum ígræðslustofnunum í Evrópu. Gagnagrunnurinn nýtist enn fremur til vísindastarfa og til að gefa tölulegar upplýsingar um fjölda sjúklinga á biðlistum, líffæragjafir og fjölda ígræðsluaðgerða, sem geta til að mynda nýst yfirvöldum.2 Stjórn Scandiatransplant fundar einnig einu sinni á ári með hópum um ígræðslumál á vegum yfirvalda (Nordic Transplant Committee) og hefur Embætti landlæknis haft það hlutverk hérlendis frá 2014. Fjalla þessir hópar til að mynda um málefni er varða lög og lagasetningar um líffæragjafir en einnig leiðir til að fjölga líffæragjöfum.

Ígræðsla er kjörmeðferð við líffærabilun og stundum eina meðferðarúrræðið. Eins og hér hefur komið fram er ígræðsluferlið margþætt. Íslendingar eru háðir góðu samstarfi við ígræðslusjúkrahús á Norðurlöndum þar sem ígræðslur úr látnum gjöfum eru eingöngu gerðar erlendis, en einnig samstarfi við Scandiatransplant, yfirvöld og ekki síst almenning. Helstu annmarkar á starfsemi hér innanlands eru takmörkuð tækifæri fyrir sérfræðinga til að geta helgað sig ígræðslumálum. Mikilvægt er að læknar framtíðarinnar hljóti áfram menntun á sviði ígræðslulækninga og má það ekki vera tilviljun háð hvort svo verði. Slíkt gerist helst ef hlúð er að starfseminni heima fyrir og áhugi hinna ungu vakinn.

Heimildir

  1. Hansdóttir S, Harðardóttir H, Einarsson O, Hrafnkelsdóttir SK, Guðmundsson G. Lungnaígræðslur á Íslendingum. Læknablaðið 2016; 102: 233-8.
  2. scandiatransplant.org  - apríl 2016.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica