04. tbl. 102. árg. 2016

Umræða og fréttir

Þyrlulækningar 30 ára


Núverandi og fyrrverandi starfsmenn, læknar og áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar komu saman þann 4. mars síðastliðinn til að fagna því að 30 ár eru liðin síðan læknar á bráðadeild Borgarspítalans ákváðu að manna læknavakt á þyrlunni í sjálfboðavinnu. Eftir fyrsta árið varð þyrluvaktin hluti af starfsemi bráðadeildar spítalans en hefur á stundum síðan verið pólitískt bitbein og ekki alltaf samstaða um á hvers könnu læknavakt þyrlunnar skuli vera. Bergur Stefánsson yfirlæknir á bráðadeild Landspítalans í Fossvogi orðaði það þannig í samtali við RÚV: „Við erum að tala um mannslíf, ekki aura.“

Og sannarlega hefur mikilvægi þess að hafa lækni um borð í þyrlunni við björgunarstörf margsannað gildi sitt og hafið yfir vafa að með því hefur mörgum mannslífum verið bjargað á þessum 30 árum. Það er því full ástæða til að fagna þessum áfanga og óska læknum og áhöfn þyrlunnar alls hins besta um ókomna tíð við sín mikilvægu störf.Þetta vefsvæði byggir á Eplica