03. tbl. 102. árg. 2016

Umræða og fréttir

Sjúkrahótelið rís


Teikning af sjúkrahótelinu, til vinstri er hornið á kvennadeildinni og fyrir aftan hótelið liggur Barónsstígur.

Framkvæmdir standa nú sem hæst við sjúkrahótelið nýja sem rís við Landspítalann. Erlendur Hjálmarsson verkefnisstjóri Nýja Landspítalans segir framkvæmdir vera nokkurn veginn á áætlun. „Undanfarið höfum við verið að fleyga fyrir tengigöngum sem munu tengja annars vegar kvennadeildina og hins vegar K-bygginguna við sjúkrahótelið. Þessari vinnu er nánast lokið og næsta skref er að steypa tengigangana og við reiknum með að því verði lokið um miðjan mars. Þá hefjum við jarðvinnu við sjálft sjúkrahótelið og því munu fylgja einhverjar sprengingar og fleygun en það er allt unnið í nánu samráði við stjórn spítalans og reynt að velja tíma sem veldur minnstu ónæði. Því ætti að vera lokið um miðjan apríl.“


Jarðvinna er hafin við göngin sem tengja hótelið við önnur hús á lóðinni, en ekki við sjálft hótelið.

KOAN-hönnunarhópurinn sem fullhannaði sjúkrahótelið samanstendur af arkitektastofunum Glámu Kím og Yrki-arkitektum. Verkfræðihönnun var á hendi Conís, Raftákns og Verkhönnunar. Eins og áður hefur komið fram verður sjúkrahótelið á fjórum hæðum auk kjallara, 4258 fermetrar, með 75 herbergjum og stendur næst Barónsstíg, á milli kvennadeildar og K-byggingar. Verktakinn er LNS Saga og Verkís verkfræðistofa hefur eftirlit með framkvæmdum fyrir hönd Nýja Landspítalans. Stefnt er að því að sjúkrahótelið verði tilbúið á næsta ári, 2017. Þetta vefsvæði byggir á Eplica