03. tbl. 102. árg. 2016

Ritstjórnargrein

Zíkaveira - nýlegur vágestur í mönnum

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir‚ Embætti landlæknis

doi: 10.17992/lbl.2016.03.67

Smitsjúkdómar hafa löngum þótt hin mesta heilbrigðisvá og hafa í aldanna rás valdið miklum usla bæði hér á landi og erlendis. Sem dæmi má nefna að talið er að um 40% íbúa Evrópu hafi látist af völdum svarta dauða á árunum 541-542 og um helmingur á árunum 1346-1350. Á Íslandi er talið að allt að 75% landsmanna hafi dáið úr svarta dauða á fyrri hluta 15. aldar og rúmlega fjórðungur þjóðarinnar úr bólusótt á árunum 1707-1708. Með auknu hreinlæti, betra næringarástandi og tilkomu sýklalyfja og bóluefna var hægt að kveða þessa sjúkdóma niður að mestu og var svo komið á seinni hluta síðustu aldar að talið var að smitsjúkdómar væru ekki lengur meiriháttar ógn við heilsu manna. Á 7. áratug síðustu aldar lýsti landlæknir Bandaríkjanna, William H. Stewart, því yfir að búið væri að sigrast á þeirri hættu sem samfélaginu stafaði af smitsjúkdómum og taldi tímabært að snúa sér að mikilvægari ógnum sem stöfuðu af langvinnum sjúkdómum. Þessi spá hefur hins vegar ekki ræst eins dæmi af faröldrum ýmissa sýkinga sýna, eins og til dæmis HIV sem leitt hefur rúmlega 30 milljónir einstaklinga til dauða á síðustu 55 árum.

Á seinni árum hafa hins vegar nýir og áður óþekktir sýklar skotið upp kollinum og valdið alvarlegum faröldrum í heiminum, eins og SARS (severe acute respiratory syndrome), MERS-CoV (Middle East respiratory syndrome coronavirus) og Ebola. Allar þessar veirur eiga það sameiginlegt að hafa smitast upphaflega frá dýrum í menn en síðan á milli manna.

Síðasti nýi veirufaraldurinn sem skotið hefur upp kollinum á síðustu einu til tveimur árum, einkum í Mið- og Suður-Ameríku, er af völdum Zíkaveiru. Zíkaveira telst til svokallaðra flaviveira og berst á milli manna með ákveðinni tegund moskítóflugu, Aedes aegypti. Veiran fannst fyrst í öpum í Úganda á árinu 1947 og var fyrst greind í mönnum 1952 í nokkrum löndum Afríku. Í fyrstu olli Zíkaveiran litlum faröldrum í Suðaustur-Asíu (einkum Tælandi) og Afríku en á síðustu árum hafa fréttir af faröldrum af hennar völdum einkum borist frá Mið- og Suður-Ameríku, eyjum Karabíska hafsins og Frönsku Pólýnesíu. Frá því snemma árs 2015 hefur Zíkaveiran hins vegar einkum greinst í Brasilíu og nálægum löndum en ekki eru neinar vísbendingar um smit í Evrópu.

Um 80% einstaklinga sem sýkjast af Zíkaveiru eru einkennalausir. Algengustu einkennin eru hins vegar hiti, útbrot, lið- og vöðvaverkir og tárubólga. Sjaldgæfar en alvarlegar afleiðingar sýkingarinnar virðast hins vegar geta verið heilkenni bráðrar fjöltaugabólgu (Guillain-Barré syndrome) og vansköpun á heila hjá fóstrum, sem leitt getur til höfuðsmæðar (microcephaly).    

Tengsl höfuðsmæðar við sýkingu af völdum Zíkaveiru var fyrst lýst í Brasilíu á seinni hluta árs 2015 og er talið að um fimmtánföld aukning sé á þessum vanskapnaði á ýmsum svæðum landsins. Þó ekki hafi verið sýnt óyggjandi fram á orsakasamband á milli Zíkaveiru og höfuð-smæðar, eru faraldsfræðileg tengsl svo sterk að líklegt er að um orsakasamband sé að ræða.

Helsta smitleið Zíkaveiru, er eins og áður hefur komið fram, með móskítóflugum en í þremur tilfellum er talið að veiran hafi smitast með kynmökum enda finnst veiran í sæði í allt að 3-4 vikur eftir sýkingu. Einnig hefur Zíkaveira fundist í blóði einkennalausra einstaklinga og því talið að hún geti hugsanlega smitast með blóðgjöf þó ekki hafi verið sýnt fram á slíkt. Engin lyfjameðferð er í boði gegn veirunni og ekkert bóluefni tiltækt.

Er hætta á útbreiðslu Zíkaveiru á Íslandi? Litlar sem engar líkur eru á að Zíkaveira nái útbreiðslu hér á landi þar sem hún smitast nánast eingöngu milli manna með moskítóflugum og þær finnast ekki hér á landi. Hins vegar geta einstaklingar sem verið hafa á ferðalagi á svæðum þar sem Zíkaveira er útbreidd smitast þar og síðan greinst hér landi.

Sóttvarnalæknir hefur hvatt alla sem ferðast á svæðum Mið- og Suður-Ameríku þar sem Zíkaveira er útbreidd að nota viðeigandi varnir gegn moskítóflugum en auk þess eru barnshafandi konur hvattar til ferðast ekki til þessara svæða að nauðsynjalausu (sjá leiðbeiningar sóttvarnalæknis á landlaeknir.is). Þar sem veiran hefur fundist í sæði í allt að fjórar vikur eftir sýkingu eru karlmenn hvattir til nota smokka í allt að fjórar vikur eftir heimkomu, burtséð frá því hvort þeir hafi veikst eða ekki. Í leiðbeiningum sóttvarnalæknis má einnig finna ráðleggingar um eftirlit og rannsóknir á þunguðum konum sem ferðast hafa í Mið- og Suður-Ameríku en ekki er ástæða til að rannsaka aðra einstaklinga.

En erum við að horfa á nýja tíma smitsjúkdóma? Fyllsta ástæða er til að ætla að svo geti verið. Með nánari samskiptum manna við dýr á afskekktum svæðum, breytingu á loftslagi og meiri ferðalögum fólks megum við búast við að sjá nýjar og óþekktar sýkingar hjá mönnum. Sýkingar sem áður voru einungis taldar valda sýkingum hjá dýrum.Þetta vefsvæði byggir á Eplica