02. tbl. 102. árg. 2016

Umræða og fréttir

Frá öldungadeild LÍ. Héraðslæknir í einn dag. Tryggvi Ásmundsson

Það var á útmánuðum árið 1973. Ólafur Ólafsson var nýlega orðinn landlæknir og það var sem oft áður læknaskortur á Vestfjörðum. Ólafur vildi bæta úr þessu með því að skjótast þangað sjálfur dag og dag og taka með sér unga lækna.

Eitt sinn síðla kvölds hringir Ólafur í mig og segir: „Þú kemur með mér vestur í fyrramálið og sérð um Flateyri í einn dag.“ Ég taldi á þessu öll tormerki. Ég þyrfti að mæta í vinnu á Vífilsstöðum og auk þess kynni ég ekkert í lækningum nema það sem snerti lungun. „Ég hlusta ekki á þetta,“ sagði Ólafur. „Ég er búinn að tala við Hrafnkel og hann er dauðfeginn að losna við þig þótt ekki sé nema í einn dag. Þú verður mættur út á flugvöll klukkan 9 í fyrramálið.“ Og lagði á!


Þingeyrarflugvöllur við Dýrafjörð, þar sem forðum bjó Gísli Súrsson. Ljósmynd: Mats Wibe Lund.


Ég átti góðan æskuvin sem var flugstjóri hjá Loftleiðum. Hann hafði sagt mér að sá sem hætti sér í flug til Vestfjarða væri klárlega galinn. Þar væri alls staðar ólendandi. Nefndi hann sérstaklega Þingeyri. Lifðu menn af lendinguna væri líklegt að endalokin yrðu í flugtakinu. Það háttaði svo til að tekið væri á loft í beinni stefnu á hátt fjall og yrði að taka 90 gráðu beygju strax í flugtaki til að forðast  það. Allir flugmenn vissu hvað svoleiðis gæti kostað!

Ég sá líka fyrir mér stóra biðstofu, fulla af kornabörnum í fylgd áhyggjufullra mæðra sem hefðu beðið þess í marga mánuði að finna lækni! Og ömmurnar! Ég mundi hvað Skúli Thoroddsen hafði sagt við mömmuna sem heimtaði að vita hvað væri að barninu hennar. „Maður veit aldrei hvað er að þessum börnum!“ Þetta var auðvitað blákaldur sannleikur, en féll samt ekki í góðan jarðveg.

Mér varð því ekki svefnsamt um nóttina, en mætti samt á tilsettum tíma morguninn eftir. Fyrsti áfangastaður var Þingeyri. Vinur minn hafði alveg hitt naglann á höfuðið þegar hann lýsti aðstæðum þar. Ég var því ennþá skjálfandi á beinunum þegar lent var á Flateyri.

Þar tóku á móti mér tvær hjúkrunarkonur, Sigurveig Georgsdóttir, prestfrú í Holti og Sigrún Gerða Gísladóttir, eiginkona Einars Odds Kristjánssonar, aðaldrifkraftsins í þorpinu. Þær fóru með mig beint á heilsugæslustöðina og það kom mér þægilega á óvart að biðstofan var tóm. Ég var settur í stól héraðslæknis og þær komu með bunka af alls kyns skjölum og vottorðum sem aðeins vantaði undirskrift héraðslæknis. Ég sá fljótt að allt var það skrifað af mikilli nákvæmni og samviskusemi og því fljótgert að afgreiða. Þá voru komnir fáeinir sjúklingar á biðstofuna og það gekk fljótt og vel að leysa vandamál þeirra. Engin ungabörn og engar ömmur! Næst vildu þær stöllur að ég liti á fáeina sjúklinga með langvinna lungnasjúkdóma, sem þær töldu betra að ég vitjaði en þeir kæmu á stöðina. Ég gerði ekki annað en staðfesta að meðferðin væri í góðu lagi.

Rétt fyrir klukkan þrjú var vinnudeginum lokið og mér boðið í góðgerðir á prestsetrið. Þar sat ég í góðu yfirlæti með þeim heiðurshjónum sr. Lárusi Þ. Guðmundssyni og Sigurveigu og beið eftir flugvélinni. Margt bar á góma. Meðal annars sögðu þau mér að þar gætu veðrabrigði orðið skyndileg og ekki fátítt að plássið lokaðist af í svo sem tvær vikur sakir ófærðar. Þau sáu líklega skelfingarsvipinn á mér og tóku fram að þeim fyndist ólíklegt að veðrið spilltist næstu 2-3 tímana.

Flugvélin kom á tilsettum tíma og það var orðið dimmt á Þingeyri, þótt aðstæður þar væru mér í fersku minni. Heimflugið var tíðindalaust, nema það var eitthvert ólag á ljósunum í mælaborði vélarinnar. Oftar en ekki var slökkt á þeim, en þá brá flugmaðurinn vasaljósi á loft til að sjá á mælana. Var þessu greinilega vanur og hafði engin orð um. Ég man að ég var hálffúll út í Ólaf að hafa ekki haft með sér smá brjóstbirtu til að hressa okkur í heimfluginu.

Rifjaðist nú upp fyrir mér sagan af Bernharði Stefánssyni alþingisforseta. Hann var að leggja upp í flug til Akureyrar og Hrefna kona hans lagði til að þau breyttu nú vana sínum og færu þurrbrjósta. Yfir Sauðárkróki losnaði hluti úr hreyfli og lenti á vélinni með miklum dynk. Þá mælti Bernharð: „Nú förumst við kona, og ég ófullur. Og það er þér að kenna!“

Þessi leiðangur kenndi mér að tvær reyndar og klárar hjúkrunarkonur geta vel séð um heilbrigðisþjónustu í héraði eins og á Flateyri. Þar var greinilega allt í góðu lagi og fólk sem ég hitti upplifði ekki mikinn læknaskort. Eftir situr minningin um skemmtilegan dag og ánægjuleg kynni. Þetta vefsvæði byggir á Eplica