02. tbl. 102. árg. 2016

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Læknafélag Íslands leggst gegn sölu áfengis í matvöruverslunum. Þorbjörn Jónsson

Nú í vetur verður aftur til umfjöllunar á Alþingi „Frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak, lögum um aukatekjur ríkissjóðs, áfengislögum og lögum um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum (smásala áfengis)“. Vilhjálmur Árnason og fleiri þingmenn lögðu frumvarpið fram síðastliðið haust en sambærilegt frumvarp hlaut ekki samþykki þingsins árið 2014. Titillinn er langur en innihaldið er einfalt. Að fella úr gildi einkaleyfi Áfengis-og tóbaksverslunar ríkisins til smásölu á áfengi en færa hana þess í stað til smásöluverslana, meðal annars matvöruverslana, með ákveðnum takmörkunum þó. Lagafrumvörp á svipuðum nótum hafa oft áður verið lögð fyrir Alþingi en aldrei hafa þau náð fram að ganga. Sem betur fer myndu margir segja.

Sá sem þetta ritar hefur áður fjallað um þessi mál á vettvangi Læknablaðsins og lýst þeirri skoðun sinni að breytingar á fyrirkomulagi áfengisverslunar á Íslandi væru ótímabærar, óskynsamlegar og með öllu óþarfar. Síðan hefur aðalfundur Læknafélags Íslands haldinn í Stykkishólmi í október 2015 fjallað um breytingar á áfengissölu og samþykkti fundurinn eftirfarandi ályktun:

„Aðalfundur Læknafélags Íslands, haldinn í Stykkishólmi 1. og 2. október 2015, leggst eindregið gegn auknu aðgengi að áfengi með sölu þess í matvöruverslunum.

Skilaboð aðalfundarins voru einföld og ótvíræð: aukið aðgengi að áfengi er ekki það sem íslenskt samfélag þarfnast. Þetta er álit læknasamtakanna. En hver er afstaða almennings til áfengissölu? Fréttablaðið gerði í mars 2015 skoðanakönnun, og þegar spurt var „Finnst þér að heimila eigi sölu á bjór og léttvíni í matvöruverslunum?”svöruðu 55% spurningunni neitandi. Meirihluti almennings telur því núverandi fyrirkomulag á áfengissölu vera fullnægjandi.

Ýmis rök hafa verið færð fram fyrir breytingum. Tvennt ber langoftast á góma: 1) hátt verð á áfengi, og 2) ófullnægjandi þjónusta, meðal annars vegna þess að opnunartími áfengisbúða sé of stuttur og of langt á milli útsölustaða. Um fyrri liðinn, hátt verð áfengis, þarf varla að fjölyrða, það er staðreynd að verð á áfengi er fremur hátt hérlendis og það er ekki fyrirséð að það breytist með nýju sölufyrirkomulagi. Getur léleg þjónusta vínbúða verið röksemd fyrir breytingum? Nei. Á Íslandi eru núna um 50 áfengisútsölur, eða einn útsölustaður á hverja 6000 íbúa. Með öðrum orðum þétt net sölustaða. Ekki er heldur með sanngirni hægt að halda því fram að þjónustan sé léleg. Áfengisbúðir eru víða opnar fram á kvöld á virkum dögum og á laugardögum eru þær líka opnar.

Röksemdir gegn breyttu áfengissölufyrirkomulagi vega ávallt mun þyngra en þær sem eru með breytingum. Það vita flestir að óhófleg áfengisneysla í langan tíma hefur skaðleg áhrif á heilsu manna. Skaðleg áhrif á lifrina, svo sem fitulifur og skorpulifur eru best þekkt, en líka ber að nefna til skaða á vélinda, brisi, á heila- og taugastarfsemi, hjarta- og æðakerfi auk neikvæðra áhrifa á fósturþroska. Geðræn og félagsleg áhrif koma þessu til viðbótar og geta orðið svo mikil að líf neytenda og fjölskyldna þeirra leggst gersamlega í rúst. Til að sporna við þessu öllu eru víða um lönd takmarkanir á sölu áfengis, þótt með mismunandi hætti séu. Hér á landi er slíkt gert með einkasölu á áfengi, aldurstakmarki og verðstýringu. Á Norðurlöndunum er fyrirkomulag áfengissölu með ólíkum hætti. Í Danmörku er sala áfengis leyfð í matvöruverslunum, í Noregi er heimilt að selja léttan bjór í matvörubúðum, en Svíar hafa Systembolaget sem eru ríkisreknar áfengiseinkasölur með líku sniði og við höfum hér á landi.

Þegar lagafrumvarp um rýmri sölu áfengis var lagt fram árið 2014 lögðust fjöldamargar stofnanir og félagasamtök gegn frumvarpinu í umsögnum sínum. Meðal annarra Embætti landlæknis, Umboðsmaður barna, Barnaverndarstofa, Læknafélag Íslands, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félag lýðheilsufræðinga og Félagsráðgjafafélag Íslands. Meginröksemdin var og er auðvitað sú að rýmri reglur auki aðgengi og sýnileika áfengis og þær stuðli þannig að aukinni neyslu og þar með meiri skaða.

Læknafélag Íslands leggst eindregið gegn því að fyrirkomulagi á sölu áfengis verði breytt.Þetta vefsvæði byggir á Eplica