01. tbl. 102. árg. 2016
Umræða og fréttir
Minningar og minjar frá Fáskrúðsfjarðarlæknishéraði
Nýlega var undirritaður að gramsa í gömlum pappírum og rakst þá á handskrifaða ræðu aftan á gulnuðum reikningsblöðum. Ræðan var flutt við vígslu heilsugæslu á Fáskrúðsfirði í febrúar 1983. Mér kom í hug að ef til vill ætti ræðan erindi í Læknablaðið, vitandi um almennan áhuga kollega á að varðveita söguna. Auk þess var nýlega ágæt umfjöllun um Franska spítalann í Læknablaðinu, en saga lækninga í Fáskrúðsfjarðarhéraði er um margt óvenjuleg og þar hafa skipst á skin og skúrir.
Fyrst nokkur orð um aðdragandann: Ég var læknir á Fáskrúðsfirði árin 1982-1983. Heilsugæslustarfið heillaði og taldi ég mig sæmilega undir starfið búinn, nýkominn með lækningaleyfi og hafði starfað við heilsugæslu á Suðurnesjum, Patreksfirði, Hafnarfirði og Skövde í Svíþjóð. Margt eftirminnilegt átti sér stað í starfinu en það er stjórnunarlegi þátturinn og þau átök sem framundan voru sem hér eru í brennidepli. Á þessum árum var ekki búið að stofna Heilbrigðisstofun Austurlands og réði læknir staðarins því málum heilsugæslunnar að flestu leyti.
Mynd af Georg Georgssyni héraðslækni í sínu vopnabúri á Fáskrúðsfirði í byrjun síðustu aldar.
Ljósmyndari óþekktur. Myndir úr eigu Alberts Eiríkssonar.
Fyrir utan útibúið á Stöðvarfirði var ástandið í héraðinu vægast sagt slæmt, læknisbústaður og heilsugæsla í niðurníðslu. Heilsugæslan var enn í gamla læknisbústaðnum sem er frá 1905. Mér líkaði ástandið illa og byrjaði strax að reyna að bæta úr. Var mér misjafnlega tekið með þá málaleitan. Fáskrúðsfjörður var talsvert pólitískur bær og mikil óánægja sumra sveitarstjórnarmanna í garð læknastéttarinnar, ástand læknisbústaðarins var sagt lélegri umgengni lækna að kenna og var hann almennt talinn í alveg nógu góðu ástandi fyrir þá. Auk þess var töluverð reiði út af viðskiptum tengdum apótekinu, sem heyrði þá enn undir lækninn. Fáskrúðsfjörður hafði búið við þá sérstöðu að hafa einungis haft tvo lækna frá upphafi, í rúmlega 70 ár, fyrst Georg Georgsson og síðar Harald Sigurðsson, frá 1940 fram yfir 1970. Hann mun hafa komið frá námi sem flóttamaður með Petsamó-skipinu fræga í upphafi seinni heimsstyrjaldarinnar og orðið eftir á Fáskrúðsfirði og starfað þar alla sína læknistíð. Þessi blómatími lifði í hugum bæjarbúa og var mikil óánægja með hvað læknar höfðu stoppað stutt árin áður en ég kom. Ástandið var svo slæmt að þegar ég hóf störf 1. apríl 1982 var ég fjórði læknirinn það árið auk þess sem héraðið var í raun læknislaust allan mars, en var sinnt frá Djúpavogi. Einn góður kollegi hafði nýlega misst það út úr sér að hann væri bara þarna á vertíð, sem var eins og að kasta olíu á eldinn.
Læknishjónin á skipsfjöl við kajann á Fáskrúðsfirði í kringum árið 1910, þau Georg Georgsson
og Karen Wathne kona hans sem lést fyrir aldur fram, aðeins 27 ára. Í baksýn er læknisbústaðurinn
og til hægri er Franski spítalinn sem nýlega var gerður upp og hýsir nú Fosshótel.
Fyrir bæjarstjórnarkosningar vorið 1982 brá ég á það ráð að ljósmynda ástandið innandyra með Polaroid-vél sem framkallaði myndir jafnóðum. Gekk ég síðan um kosningaskrifstofur allra flokka og sýndi myndirnar og spurði, gjarnan hátt yfir alla viðstadda, hvað þeir ætluðu að gera í málefnum læknisbústaðarins. Brá mörgum þegar þeir sáu myndirnar, héldu að ástandið væri miklu betra en myndirnar sýndu. Þetta hafði áhrif og nokkru seinna var gengið í að bæta ástandið og var ég vel sáttur að því loknu.
Þegar leið á haustið 1982 fór ég að forvitnast um hvenær nýja heilsugæslan yrði tilbúin og var mér tjáð að áætluð verklok væru í febrúar árið eftir. Þegar ég spurðist fyrir um hvernig tækjakosturinn yrði, komst ég að því að það vissi enginn neitt um það mál. Eftir talsverða eftirgrennslan kom í ljós að engin áætlun var til og ekkert á fjárlögum það árið ætlað í stöðina. Útlit var fyrir að flutt yrði í tómt húsið. Það kom því í minn hlut að leysa málið. Mætti ég skilningi í heilbrigðisráðuneytinu og tókst að fá aukafjáveitingu um haustið upp á 170.000 og síðan 600.000 á fjárlögum 1983.
Jafnframt fór ég suður og sat í tæpa viku á Innkaupastofnun ríkisins með ágætum starfsmanni þeirra. Þar fórum við yfir alls kyns bæklinga og völdum lækningatæki, ruslafötur og allt þar á milli. Allt miðað við að gjörnýta fjárveitingarnar til að bæta aðstöðuna. (Ef ég man rétt var blóðþrýstingsmælir eina lækningatækið, fyrir utan röntgentækið, sem fluttist yfir í nýju stöðina úr þeirri gömlu).
Þegar vígsluræðan var flutt voru allflestir bæjarbúar viðstaddir og því kjörið tækifæri til að reifa mál Franska spítalans, sem mér var ákaflega hugleikið. Og viti menn, 30 árum seinna er búið að endurreisa spítalann á Búðum með meiri glæsibrag en nokkur hafði þorað að vona. Og læknisbústaðnum gamla er vel viðhaldið.
Mórallinn er: Maður skyldi aldrei vanmeta góðar hugmyndir, hversu ólíklegt sem það er að þær verði að veruleika. Ég get ekki neitað því að ég hafði alls enga trú á að hugmyndinni yrði tekið af alvöru.
Vígsluræða nýrrar heilsugæslustöðvar á Fáskrúðsfirði, í febrúar 1983
Ágætu gestir
Í dag er stór stund fyrir Fáskrúðsfirðinga og ekki síst lækni staðarins. Það er merkur áfangi, sem náðst hefur í heilsugæslumálum staðarins við opnun þessa húss, sem er sérstaklega hannað fyrir heilsugæslu. Þetta er þó ekki fyrsta húsnæðið sem byggt er hér til slíks brúks. Á Fáskrúðsfirði var reist fyrsta sjúkrahúsið á Austfjörðum og eitt af fyrstu sjúkrahúsum landsins. Það var byggt af Frökkum 1897. Það var rekið af nunnum í 3 mánuði á sumrin og hafði 6 rúm. Læknir kemur þó ekki við það sjúkrahús fyrr en árið 1900 er Georg Georgsson er ráðinn til starfa í nýstofnað læknishéraðið, en hér hafði ekki verið læknir fyrr. Ljóst er að hér hefði læknir ekki sest að á þeim tíma ef Frakkar hefðu ekki unnið að þeim málum. Etv. hefðu Búðir aldrei orðið læknissetur ef Frakkar hefðu valið sér annan stað? Frakkar byggja síðan stóran 20-26 rúma spítala sem tekur formlega til starfa 1. júní 1905 og starfar allt árið fyrst um sinn. Þar voru 3 fimm manna stofur, 1 einangrunarherbergi, skurðstofa með fullkomnum tækjum, língeymsla, íbúðir starfsfólks og bókasafn. Starfsemi þess lýkur að mestu í upphafi fyrra stríðs.
Nokkru eftir 1905 byggðu Frakkar síðan stóran læknisbústað, sem heilsugæslan nú flytur úr. Þegar Frakkar hverfa héðan kaupir Georg læknir sjúkrahúsið og læknisbústaðinn, sem líklega hefur orðið honum ofviða því Landsbankinn eignast hvoru tveggja að lokum. 1935 kaupa sveitarfélögin læknisbústaðinn og 1939 lætur Fáskrúðsfjarðarhreppur flytja franska spítalann út í Hafnarnes þar sem hann er endurbyggður að mestu eins, en þó var lofthæð lækkuð um 50cm. Í Hafnarnesi heyr nú þetta glæsilega hús sitt dauðastríð, sem er langt, enda húsið vel byggt í upphafi. Þarna fúna í friði merkustu minjar héraðsins.
Læknisbústaðurinn var einnig heilsugæslustöð og var svo alveg fram á öskudaginn 16. febrúar 1983, líklega 78 ár. Ég held að það sé örugglega Íslandsmet. En eins og upphafið var glæsilegt voru endalokin dapurleg. Heilsugæslan var orðin illa starfhæf vegna lítils viðhalds og tækjaskorts. Í upphafi var þessi staður lang best búinn allra smærri staða landsins og undir lokin örugglega verst búna aðstaðan á öllu landinu.
En nú er komin betri tíð með blóm í haga. Erfitt er að telja upp þau atriði sem nú breytast til batnaðar í þessu nýja húsi, svo mörg eru þau. Sem dæmi má nefna betri lýsingu. Í gamla húsinu var varla lesbirta eftir að dimma tók. Röntgenaðstaðan er nú á jarðhæð, en það var oft erfið ákvörðun hvort senda ætti sjúkling á Norðfjörð í myndatöku, eða reyna að drösla honum með kvölum upp brattan stigann. Nýr sími með 3 línum bætir alla síma tíma auk þess öryggis að auðveldara sé að ná sambandi í neyðartilvikum. Fjárveiting til tækjakaupa var 600 þúsund á þessu ári auk 170 þúsund króna aukafjárveitingar sl. haust. Þessi fjárveiting nægir til að gerbreyta aðstöðunni, þótt hún dugi ekki fyllilega.
Ég vil nota tækifærið og þakka Krabbameinsfélagi Austurlands höfðinglega gjöf, sem er endaþarmsspeglasett, speglar til að athuga legvökva hjá barnshafandi konum, sem gefur upplýsingar um líðan fósturs. Höfuðspegill til skoðunar á hálsi og eyrnasmásjá til nákvæmari eyrnaskoðunar. Þessu fylgir ljósgjafi, sem nota má við öll tækin.
Einnig vil ég þakka Kvenfélaginu Kolfreyju, sem gaf leyfi til tækjakaupa fyrir a.m.k. 20 þúsund og hefur þegar verið pantaður blóðsykurmælir, sem notaður er til greiningar og eftirlits með sykursýki. Einnig fósturhjartsláttarmagnari, sem auðveldar eftirlit með hjartslætti fósturs og er öryggisatriði, t.d. við heimafæðingar. Í pöntun er ný læknistaska fyrir vitjanir, en sú gamla er orðin slitin, auk þess of lítil. Enn er þó ekki fullnýtt framlag þeirra.
Ég vil þakka Slysavarnardeildinni Hafdísi, sem hefur samþykkt að gefa raka- og súrefnistjald fyrir börn í öndunarerfiðleikum.
Það verður vissulega stökkbreyting á þessu ári í tækjum og aðstöðu hér á Fáskrúðsfirði. En eins og þessi byrjun er glæsileg vona ég að þessum málum verði vel fylgt eftir þannig að ekki komi annað hnignunartímabil á eftir. Það skyggir nokkuð á í dag að nú verði Læknishúsið gamla, sem var eitt veglegasta hús Austurlands, látið grotna niður.
Ég vil nota tækifærið og skora á hlutaðeigandi yfirvöld að bjarga bæði Læknishúsinu og Franska spítalanum, ef það er þá ekki orðið of seint. Alla vega þyrfti að kanna það mál til hlítar. Ástand þessara húsa er niðurlæging fyrir byggðarlögin, meðan flestir aðrir landsmenn eru vaknaðir til vitundar um nauðsyn þess að varðveita gamlar minjar.
Að lokum. Þetta er stór stund og ég vona að þjónustan batni eins og til var ætlast.
Takk fyrir!