12. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Er tími frekjuhundsins liðinn? Hildur Svavarsdóttir

Þessa spurningu glímdu ráðstefnugestir við á ráðstefnu um þjónandi forystu sem haldin var á Bifröst í septembermánuði síðastliðnum. Spurningin er um margt forvitnileg að mínu viti og þeir sem hafa áhuga geta með aðstoð leitarvélarinnar Google kynnt sér niðurstöður úr samtölum hópa á ráðstefnunni. Nú gætu lesendur einnig hugsað með sér hvers vegna í ósköpunum ég er að velta þessari spurningu upp hér á síðum Læknablaðsins. Ég held að hugsunin um foringjann sem er aleinn og ískalt á toppnum á valdapíramídanum sé ekki í samræmi við kröfur nútímans um stjórnarhætti í heilbrigðisþjónustu. Hugsunin um alræðisvald yfir peðunum sem eiga að afkasta sem flestu á færibandinu eins og í dósaverksmiðju gengur ekki upp í þjónustu við misveika einstaklinga sem eiga kannski allt sitt og sinna undir því að vel takist til. Frústreraður og útpíndur starfsmaður á ekki mikið eftir til að gefa af sér, hann er búinn með súrefnið sitt og á ekkert aflögu. Hann reynir bara að hlaupa eins hratt og hann getur og ef hann hrasar, er það þá honum að kenna eða stjórnandanum sem lætur færibandið ganga svo hratt að starfsmaðurinn hefur ekki undan? Stjórnandinn á toppnum er ekki sá sem veit allt best um hvað þarf og hvað er rétt við aðstæðurnar sem skapast á gólfinu. Þetta á alveg sérstaklega við í samskiptum við veikt fólk. Vissulega eigum við öll margt sameiginlegt en hver og einn skjólstæðingur er sérstakur og aðstæður hans eru einstakar. Það þekkir enginn betur en sá sem sinnir viðkomandi mest. Þegar leitað er til okkar í heilbrigðisþjónustunni er ekki verið að kaupa fjöldaframleiddan dósamat úr lúgusjoppu. Skjólstæðingurinn er að leita til fagmanns með áralangt nám að baki og iðulega áratugareynslu og jafnvel áralanga þekkingu á nákvæmlega þessum einstaklingi, fjölskyldu hans og aðstæðum eins og oft er í heilsugæslunni. Stjórnendur í heilbrigðisþjónustu verða að gera sér grein fyrir þessu og átta sig á því að það er ekki hægt að skipta fólki út eins og tannhjóli í vél. Þeir verða að skilja að auður „fyrirtækisins“ felst í þekkingu og reynslu fagmannsins sem „viðskiptavinurinn“ leitar til með sín mál. Það er starfsfólkið, fagmennirnir á gólfinu, sem eru sérfræðingarnir og hinir sönnu stjórnendur og leiðtogar. Hlutverk þess sem formlega kallast stjórnandinn er því einungis að skapa aðstæður og umhverfi fyrir fagmennina til að sinna störfum sínum sem best og þá gerast kraftaverkin sem við verðum sem betur fer svo oft vitni að í daglegu amstri okkar.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica