12. tbl. 101. árg. 2015

Ritstjórnargrein

Fjárfesting í heilbrigðistækni

Helga Valfells Framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins

doi: 10.17992/lbl.2015.12.53

Í þessu tölublaði er grein um rannsóknir fyrirtækisins Kerecis sem var stofnað af teymi lækna og efnafræðinga sem höfðu bæði fagþekkingu og þor til að hugsa út fyrir kassann. Í dag er Kerecis fyrirtæki sem umbreytir fiskroði í lækningavöru. Vara Kerecis hefur fengið CE-merkingu og FDA-leyfi. Fyrirtækið hefur náð alþjóðlegri fótfestu frá Íslandi og er vara þess nú seld í Bandaríkjunum, Evrópu og Miðausturlöndum.  

Fyrirtækið var stofnað utan um betri lausnir til að græða sár. Stærsti sigur félagsins er vissulega sá að Kerecis hjálpar sjúklingum víða um heim en hefur í leiðinni skapað störf, búið til gjaldeyristekjur og fjárfestar, eins og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, hafa fengið ávöxtun á sitt fé.

Kerecis er lýsandi dæmi um hvers vegna þjóðfélög eiga að hvetja til fjárfestingar í nýsköpun. Fjárfesting í nýsköpun eykur hagvöxt, skapar vel launuð og spennandi störf og byggir upp útflutning. Auk þess skilar fjárfesting í nýsköpun framförum í tækni og vísindum.    

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins var stofnaður árið 1997 til að fjárfesta í íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum sem ætla sér að vaxa hratt á alþjóðamarkaði. Nýsköpunarsjóður er áhættufjárfestir. Þegar fjárfest er í fyrirtæki einsog Kerecis veit enginn fyrirfram hvort vöruþróun tekst og hvort það sé til markaður sem er tilbúinn að kaupa vöruna. Þekking teymisins sem stofnar fyrirtækið og góðar áætlanir hjálpa til við að stýra áhættunni og ávinningurinn verður mikill þegar vel tekst til.  

Margur heldur að fjárfestingartækifærin á Íslandi felist aðallega í fyrirtækjum tengdum orku eða sjávarútvegi, og vissulega eru góð fjárfestingartækifæri innan þessara greina, en reynsla Nýsköpunarsjóðs er sú að tækifærin eru engu færri þegar kemur að heilbrigðistækni. Það er margt í íslensku umhverfi sem hefur gert það að verkum að hér verða til mörg efnileg heilbrigðistæknifyrirtæki. Menntun, mannauður, vaxandi markaður og starfandi fyrirmyndir eru allt þættir sem þurfa að vera til staðar í uppbyggilegu nýsköpunarumhverfi.  

Þegar horft er til heilbrigðisgeirans virðast allir þessir þættir vera fyrir hendi. Íslenskir læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk er með góða grunnmenntun og yfirleitt með alþjóðlega framhaldsmenntun, þannig að skilningur á mörkuðum fyrir utan Ísland er mikill. Hér á landi er starfandi kynslóð heilbrigðis- og líftæknifyrirtækja sem hefur vísað veginn og sýnt hvernig hægt er að byggja upp alþjóðleg fyrirtæki frá Íslandi. Fyrirtæki eins og Össur, Íslensk erfðagreining og Actavis hafa verið mjög örlát að deila reynslu með þeim fyrirtækjum sem feta í fótspor þeirra. Þessi fyrirmyndarfyrirtæki hafa auk þess þjálfað mikið af hæfu starfsfólki sem stofnar, fjárfestir í eða vinnur hjá nýrri kynslóð heilbrigðistæknifyrirtækja.  

Alþjóðamarkaður fyrir heilbrigðistækni er í gífurlegum vexti. Heimurinn er í miðri tæknibyltingu og tækifærin í heilbrigðistækni fara sívaxandi. Það er mikill þrýstingur á heilbrigðiskerfi heimsins að gera meira fyrir minni pening. Nýjar tæknilausnir eru lykillinn að aukningu lífsgæða á hagkvæman hátt. Við hjá Nýsköpunarsjóði sjáum fjöldann allan af íslenskum heilbrigðisfyrirtækjum sem eru þátttakendur í þessari tæknibyltingu. Sem dæmi um það sem er að gerast í íslenskri heilbrigðistækni mætti nefna þrjú fyrirtæki sem eru að hefja sinn vaxtarferil.  

Mint Solutions er fyrirtæki sem stofnað var af lækni, tölvunarfræðingi og viðskiptafræðingi sem voru samtímis við nám í MIT-háskólanum í Bandaríkjunum. Mint Solutions er með vöru sem nýtir hugbúnað og tölvusjón til að auka öryggi í lyfjagjöf á sjúkrahúsum. Fyrirtækið er nú með rekstur á Íslandi og í Hollandi og selur einkaleyfisvarðar vörur til hollenskra sjúkrahúsa.  

Oxymap er fyrirtæki sem selur rannsóknartæki til mælinga á súrefnismettun í sjónhimnu augans. Vörur Oxymap eru seldar til rannsóknarstofnana um heim allan og fjöldinn allur af ritrýndum greinum styðja við rannsóknir Oxymap.   

Að lokum má benda á fyrirtækið MentisCura sem sérhæfir sig í notkun heilarita til greiningar á miðtaugakerfissjúkdómum eins og Alzheimerssjúkdómi og athyglisbresti með ofvirkni hjá börnum (ADHD). Aðferðir félagsins miða að því að greina sjúkdóma fyrr en áður og af meira öryggi, fyrir minna fé.  

Fyrirtækin sem nefnd eru í þessum pistli eiga það sameiginlegt að íslenskir læknar voru lykilmenn við stofnun þeirra. Þessi félög eru þó aðeins brot af þeim heilbrigðistæknifyrirtækjum sem eru að spretta upp í okkar nánasta umhverfi. Við hjá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins fylgjumst spennt með framþróun heilbrigðistæknigeirans á Íslandi. Það er einlæg von okkar að íslenskir læknar haldi áfram að hugsa út fyrir kassann og haldi áfram að þróa byltingarkenndar hugmyndir að nýjum heilbrigðistæknilausnum.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica