11. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Ræddu leiðir til að lækna frumkomna gallskorpulifur

Í lok júlí í sumar mættu allir helstu sérfræðingar heimsins í lifrarsjúkdómnum PBC, Primary Biliary Cirrhosis, til fundar í Norræna húsinu, alls um 25 manns.


Á myndinni má sjá skipuleggjendur fundarins frá vinstri: Sigurður Ólafsson, David Adams (Bretlandi),
Eric Gershwin (Bandaríkjunum), Ulrich Beuers (Hollandi) og Einar S. Björnsson.

„Íslenska heiti PBC er frumkomin gallskorpulifur og er sjúkdómurinn ekki algengur, hér á Íslandi er nýgengið 2-3 tilfelli fyrir hverja 100.000 íbúa á ári. Sjúkdómurinn leggst frekar á konur en karla og er talinn vera sjálfsofnæmissjúkdómur sem leggst aðallega á litla gallganga innan lifrarinnar og veldur bólgu, eyðingu á gallgöngunum og getur leitt til skorpulifrar. PBC hefur verið nokkuð algeng ástæða lifrarígræðslu, sérstaklega á Norðurlöndunum. Það er ekki vitað nákvæmlega hvað veldur sjúkdómnum og við honum er ekki til lækning en um margra ára skeið hefur verið beitt ákveðnum lyfjum sem í mörgum tilfellum ná að halda sjúkdómnum í skefjum,“ segir Sigurður Ólafsson sérfræðingur í lifrarsjúkdómum á Landspítalanum.

Sigurður segir mjög mörgum spurningum enn ósvarað um PBC, bæði um orsakir hans en ekki síður hvar best er að bera niður varðandi rannsóknir á nýjum lyfjum og meðferðarmöguleikum. „Fundurinn hafði yfirskriftina „Finding Cure for PBC“ og þrátt fyrir að svör við þeirri fyrirsögn fengjust ekki á fundinum þá er mikið gagn að svona fundi og það kemur í ljós á næstu árum þegar þátttakendur hafa unnið úr þeim hugmyndum sem þarna komu fram og átt aukið samstarf sín á milli í kjölfar fundarins. Aðalhvatamaðurinn að þessum fundi, Eric Gershwin, yfirlæknir gigtlækninga og ónæmisfræði við háskólasjúkrahús Kaliforníuháskóla í Davis, er á meðal fremstu vísindamanna heimsins í rannsóknum á orsökum sjúkdómsins, einkum ónæmisfræðilegum þáttum en það er einmitt á því sviði sem augu manna beinast helst að rannsóknum á PBC.“Þetta vefsvæði byggir á Eplica