11. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Hákarl og brennivín í Bjarnarhöfn, - af aðalfundi LÍ



Hildibrandur Bjarnason bóndi og safnstjóri hákarlasafnsins í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi tók glaðbeittur á móti fundarmönnum aðalfundar LÍ sem haldinn var í Stykkishólmi 1.-2. október síðastliðinn. Hildibrandur og hans fólk hefur komið upp myndarlegri aðstöðu í stórum skála til að taka á móti ferðamönnum sem vilja fræðast um hákarlaveiðar við Íslandsstrendur fyrr og nú og verkun hákarlsins er skýrð í máli og myndum, og útlistuð öll þau not sem forfeður okkar höfðu af skepnunni. Hildibrandur fór á kostum í frásögnum sínum af hákarlaveiðum og sagði það lítinn hákarl sem ekki næði einu tonni að þyngd, hákarlaveiðar væru þó með öllu aflagðar við Ísland og hann fengi sitt hráefni af grænlenskum togurum þar sem hákarlinn kæmi sem meðafli með öðrum fiski. Sýnikennsla Hildibrands hvernig konur gætu notað skráppjötlu sem áhrifaríka vörn gegn fjölþreifnum karlmönnum vakti ómælda kátínu þó ólíklegt sé að þar megi finna viðskiptatækifæri á nútímavísu. Gestum var boðið upp á bæði skyr- og glerhákarl, harðfisk og hákarlalýsi fyrir þá sem það vildu og einnig selspik og svo var öllu skolað niður með staupi af íslensku brennivíni (í boði Læknafélagsins). Hildibrandur sagði hákarlalýsi mun betra viðbit með harðfiski en smér en tókst þó ekki að sannfæra neinn viðstaddan um ágæti hugmyndarinnar. Eftir skemmtilega viðdvöl var svo haldið til baka þar sem beið framreiddur nútímakvöldverður á Hótel Stykkishólmi.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica