11. tbl. 101. árg. 2015

Fræðigrein

Áhrif hreyfiíhlutunar á einkenni geðklofa, andlega líðan og líkamssamsetningu hjá ungu fólki

The effects of physical activity intervention on symptoms in schizophrenia, mental well-being and body composition in young adults

doi: 10.17992/lbl.2015.11.51

Ágrip

Inngangur: Einstaklingar með geðklofa eru líklegri til að tileinka sér óheilbrigðan lífsstíl og deyja fyrir aldur fram. Rannsóknir benda til þess að hreyfing hafi jákvæð áhrif á einstaklinga með geðklofa. Markmið þessarar rannsóknar var að meta áhrif íhlutunar á einkenni geðklofa hjá ungu fólki og skoða áhrif íhlutunarinnar á hreyfingu, þunglyndi, kvíða,  holdafar, blóðþrýsting og hvíldarpúls. Að auki var markmiðið að öðlast dýpri skilning á upplifun þátttakenda á íhlutuninni með einstaklingsviðtölum.

Efniviður og aðferðir: Sautján geðklofasjúklingar á geðdeild Landspítala á aldrinum 21-31 árs tóku þátt í 20 vikna íhlutunarrannsókn. Þátttakendur hreyfðu sig að lágmarki tvisvar í viku undir handleiðslu íþróttafræðinga og fengu fræðslu um heilbrigðan lífsstíl einu sinni í viku. Þátttakendur svöruðu jafnframt spurningalistum (PANSS, DASS, Rosenberg, CORE-OM, BHS, QOLS) fyrir og eftir íhlutun. Í upphafi og lok íhlutunar voru hæð, þyngd, blóðþrýstingur, mittisummál og hvíldarpúls mæld og líkamsþyngdarstuðull reiknaður. Tekin voru einstaklingsviðtöl við 6 þátttakendur og þeir spurðir um upplifun sína á íhlutuninni.

Niðurstöður: Á íhlutunartímabilinu dró marktækt úr neikvæðum og almennum einkennum geðklofa, þunglyndi, kvíða og streitu, og einnig jukust lífsgæði, hreyfing og virkni (p<0,05). Þar að auki lækkaði hvíldarpúls þátttakenda (p<0,05) en holdafarsmælingar og blóðþrýstingur héldust óbreytt í lok íhlutunartímabils.

Ályktun: Niðurstöður benda til þess að íhlutun sem þessi sé gagnleg fyrir unga einstaklinga með geðklofa. Þátttakendur hreyfðu sig meira, þeir þyngdust ekki og leið betur andlega að lokinni íhlutun. Regluleg hreyfing og leiðsögn um heilbrigðan lífsstíl gætu verið áhrifarík viðbót við meðferð einstaklinga með alvarlega geðsjúkdóma.

Inngangur

Geðklofasjúkdómur er einn af alvarlegustu geðsjúkdómum sem mannkynið berst við.1 Einkennum sjúkdómsins er skipt í tvo flokka; jákvæð einkenni (ranghugmyndir, ofskynjanir og truflun á hugsunum) og neikvæð einkenni (takmarkaðar tilfinningar, fátæklegt tal, minni samskipti við vini og fjölskyldu, framtaks-, aðgerðar-, og almennt áhugaleysi).2 Þunglyndi og kvíði eru jafnframt algengir fylgifiskar sjúkdómsins3 og lífsgæði þessara sjúklinga hafa verið metin minni en hjá almennu þýði.1

Rannsóknir hafa sýnt að geðklofasjúklingar deyja yngri en heilbrigðir einstaklingar og eru allt að tvisvar til þrisvar sinnum líklegri til að deyja úr lífsstílstengdum sjúkdómum.4 Þeir hreyfa sig minna, neyta óhollari fæðu, reykja meira og lifa almennt óheilsusamlegra lífi.5 Samkvæmt nýlegri íslenskri rannsókn er líkamsástand einstaklinga með geðklofa hér á landi slæmt og hætta  á hjarta- og æðasjúkdómum mikil.6 Ofþyngd og offita er algengt vandamál hjá geðklofasjúklingum, sérstaklega eftir tilkomu annarrar kynslóðar geðlyfja.7 Aukaverkanir geðrofslyfja geta valdið mikilli þyngdaraukningu sem vinnur gegn einstaklingnum, bæði hvað varðar einangrun, félagsleg samskipti og hreyfigetu.8

Rannsóknir hafa staðfest fjölþætt gildi hreyfingar fyrir heilsu fólks og vellíðan.9Vísbendingar eru um að hreyfing  geti dregið úr neikvæðum einkennum geðklofa þar sem samskipti verða betri, virkni eykst og jafnvægi kemst á tilfinningar. Þá eiga sjúklingar oft auðveldara með að hafa stjórn á jákvæðum einkennum, til dæmis ranghugmyndum, truflun á hugsunum og ofskynjunum þó að einkennin minnki ekki.10,11 Hreyfing er viðurkennt meðferðarúrræði fyrir mild til miðlungs alvarleg tilfelli þunglyndis og kvíða,12,13 og gæti einnig gagnast einstaklingum með geðklofa.14 Sýnt hefur verið fram á að reglubundin hreyfing getur minnkað líkur á lífsstílstengdum sjúkdómum hjá þessum hópi, auk þess að stuðla að sterkara stoðkerfi.9

Regluleg hreyfing getur vart komið í staðinn fyrir hefðbundna lyfjameðferð, en rannsóknir benda til þess að hreyfing geti verið hluti af meðferðinni.10 Mikilvægt er því að finna leiðir sem hvetja til heilsusamlegs lífsstíls og auka hreyfingu  þessa  hóps.

Markmið þessarar rannsóknar var að meta áhrif 20 vikna íhlutunar á einkenni geðklofa hjá ungu fólki. Einnig voru áhrif íhlutunar á þunglyndi, kvíða, hreyfingu, holdafar, blóðþrýsting og hvíldarpúls skoðuð. Að lokum var markmiðið að fá fram upplifun þátttakenda á íhlutuninni með einstaklingsviðtölum.

Efniviður og aðferðir

Þátttakendur

Þátttakendur voru skjólstæðingar endurhæfingardeildar á geðsviði Landspítala á aldrinum 21-31 árs (M=25,6) greindir með geðklofa, sem jafnframt var skilyrði fyrir þátttöku. Sautján sjúklingar, 12 karlar (70,5%) og 5 konur (29,5%) samþykktu að taka þátt í rannsókninni, en þrír luku ekki þátttöku vegna bráðrar versnunar. Flestir (88%) tóku geðrofslyf daglega. Allir skrifuðu undir upplýst samþykki og rannsóknin var samþykkt af Siðanefnd Landspítalans (1/2013) og Persónuvernd (S6084).

Spurningalistar og mælingar

Mælitækin sem notuð voru var greiningarviðtalið Positive and Negative Syndrome Scale (PANSS)15 sem metur jákvæð, neikvæð og almenn einkenni geðklofa en læknir deildarinnar og sálfræðingar sáu um að leggja mælitækið fyrir. Einnig voru lagðir fyrir spurningalistarnir Depression, Anxiety, Stress Scale (DASS)16 sem metur þunglyndi, kvíða og streitu og CORE – Outcome Measure (CORE-OM)17 sem metur virkni, líðan, vandamál og áhættuhegðun. Ekki voru notaðar niðurstöður úr hlutanum sem metur áhættuhegðun. Lífsgæði voru mæld með lífsgæðakvarðanum Quality of Life Scale (QOLS)18, sjálfstraust var mælt með Rosenberg-sjálfstraustskvarðanum (Rosenberg Self-Esteem Scale, RSES)19, vonleysi var mælt með vonleysiskvarðanum Becks Hopelessness Scale (BHS).20

Sjö þátttakendur voru beðnir um að koma í viðtöl í lok rannsóknar þar sem spurt var um upplifun og viðhorf til íhlutunarinnar. Notað var tilgangsúrtak (purposive sample)21 þar sem þátttakendur voru valdir með það í huga að rætt yrði við einstaklinga sem höfðu tekið þátt í mismunandi hreyfingu á tímabilinu. Allir 7 samþykktu að koma í viðtal en einn þátttakandi datt út vegna veikinda og þurfti að leggjast inn á aðra deild, þannig að í heildina urðu þeir 6. Tveir þeirra stunduðu göngu, tveir líkamsrækt og tveir bæði göngu og líkamsrækt.

Líkamsástandsmælingar voru framkvæmdar í upphafi og lok íhlutunar. Mæld var hæð, þyngd, blóðþrýstingur, hvíldarpúls og mittisummál og reiknaður líkamsþyngdarstuðull. Þyngdarmælingar voru gerðar með stafrænni vog, þátttakendur voru mældir með 100 g nákvæmni klæddir léttum fötum og sokkum. Hæðarmæling var gerð með veggfastri mælistiku. Staðið var þétt upp við vegginn og horft fram. Hæð var skráð með 0,5 cm nákvæmni. Líkamsþyngdarstuðull var reiknaður út frá þyngd og hæð þátttakenda (kg/m2). Blóðþrýstingur og hvíldarpúls voru mæld snemma dags með stafrænum blóðþrýstingsmæli af gerðinni AND UA-651. Þátttakandi fékk sér sæti og þegar hann var búinn að koma sér vel fyrir og sitja kyrr nokkurn tíma var armband af viðeigandi stærð fest þétt á vinstri upphandlegg. Mittisummál var mælt með málbandi þar sem grennst er á milli rifjabarðs og mjaðmakambs á meðan viðkomandi stóð jafnt í báðar fætur. Lesið var af með 0,1 cm nákvæmni.

Íhlutunin

Á íhlutunartímabilinu var lögð áhersla á reglulega hreyfingu, þar sem þátttakendur gátu valið um að stunda göngu, líkamsrækt eða hvort tveggja tvisvar til þrisvar sinnum í viku. Einnig voru haldnir fræðslufundir og veitt ráðgjöf um heilsusamlegt líferni. Fræðslan var haldin fyrstu 10 vikurnar sem rannsóknin stóð. Þátttakendum var skipt í tvo hópa og allir mættu í fræðslu einu sinni í viku sem stóð í 30-50 mínútur. Fræðslan var á fyrirlestrarformi og voru umræður í lok hvers tíma. Næringarfræðingur frá Landspítala sá um næringarfræðslu og íþróttafræðingar sáu um aðra fræðslu. Þátttakendur voru allir í venjubundinni einstaklingsmeðferð meðan á íhlutun stóð, en sú meðferð fól í sér lyfjameðferð, viðtöl við geðlækni og stuðningsfulltrúa. Þátttakendur fengu ekki sálfræðimeðferð á íhlutunartímabili en tóku þátt í virkni sem skipulögð var af stuðningsfulltrúum.  

Rannsakendur skráðu niður viðveru og hversu lengi (mínútur) þátttakendur hreyfðu sig. Miðað var við þá hreyfingu sem var á vegum rannsakenda. Hreyfingin sem þátttakendur stunduðu var eftirfarandi:

Líkamsrækt:

Þátttakendur fengu sérsniðna æfingaáætlun til þess að fara eftir í líkamsræktarstöð. Áætlunin innihélt styrktar- og þolþjálfun ásamt upphitun, niðurlagi og teygjum. Hver tími var ávallt undir leiðsögn íþróttafræðings. Í upphafi íhlutunar var byrjað rólega þar sem þátttakendur hreyfðu sig að meðaltali í 20 mínútur og var ákefð þjálfunar/æfinga aukin stigvaxandi eftir því sem leið á íhlutunartímabilið. Ákefð var metin út frá upplifun þátttakenda. Í lok íhlutunartímabils var miðað við að hver tími væri um það bil 60 mínútur. Áætluninni var breytt á 7 vikna fresti til þess að koma í veg fyrir stöðnun og leiða, þar sem æfingum, settafjölda og þyngdum var breytt. Þátttakendur voru hins vegar hvattir til þess að þyngja sjálfir ef þeir gátu auðveldlega ráðið við þá þyngd sem var á áætluninni. Ákefð á þoltækjum var aukin þegar þátttakendur upplifðu að þeir réðu vel við fyrra álag. Hver tími byrjaði á upphitun sem fór fram annaðhvort á hlaupabretti eða skíðavél, næst var farið í tækjasal þar sem var farið eftir styrktarprógrammi þar sem framkvæmdar voru æfingar fyrir alla stærstu vöðva líkamans, bæði með styrktartækjum  og með handlóðum. Í lokin var svo niðurlag þar sem var farið aftur á hlaupabretti eða skíðavél og teknar 5 mínútur mjög rólega. Eftir þetta voru gerðar teygjur fyrir alla vöðvahópa sem búið var að vinna með.

Ganga:

Boðið var upp á skipulagðar gönguferðir fjóra daga vikunnar undir stjórn íþróttafræðings. Farnar voru mismunandi gönguleiðir í hvert skipti og var hver ganga frá 20 mínútum og upp í 90 mínútur, en þátttakendur gátu gengið í styttri tíma ef þeir vildu, þó aldrei minna en 20 mínútur nema eitthvað sérstakt hefði komið upp á. Göngutími fór stigvaxandi eftir því sem leið á íhlutunartímabil en ákefðin var metin út frá upplifun þátttakenda.

Tölfræðiúrvinnsla

Þegar unnið var úr gögnum eftir íhlutunartímabil voru þær kröfur gerðar varðandi gönguþjálfunina að þátttakandi þurfti að hafa gengið að minnsta kosti 20 mínútur tvo daga í viku alla rannsóknina svo hægt væri að nýta niðurstöður við úrvinnslu gagna. Varðandi líkamsræktarþjálfunina þurfti þátttakandi að hafa mætt að minnsta kosti tvö skipti í viku og vera alla vega 20 mínútur í hvert skipti svo hægt væri að nýta niðurstöður við úrvinnslu gagna. Gerð var krafa um 80% mætingu á alla fræðslufyrirlestra.

Við úrvinnslu gagna var notað tölfræðiforritið SPSS 17.0 (Statistical Package for the Social Sciences). Við greiningu gagna var notað parað t-próf fyrir mælingar innan sama hóps, þar sem forsenda um normaldreifingu gagna var til staðar (Shapiro-Wilk´s).22 Meðaltöl og staðalfrávik voru reiknuð. Marktækni var miðuð við 5% marktektarmörk (p<0,05). Áhrifastærð var reiknuð með Cohen´s d á eftirfarandi hátt fyrir endurteknar mælingar: Áhrifastærð = Meðaltalsmunur/((staðalfráviki 1 + staðalfrávik 2)/2).23

Tekin voru sex einstaklingsviðtöl. Viðtölin voru hljóðrituð, tóku á bilinu 25 til 52 mínútur og voru opin og óstöðluð. Notast var við viðtalsherbergi sem kunnugt var þátttakendum. Við greiningu og úrvinnslu viðtala var unnið eftir skýru verklagi og rannsóknaraðferð Vancouver-skólans í fyrirbærafræði.21

Niðurstöður

Niðurstöður úr greiningarviðtalinu PANSS má sjá í töflu I. Þar kemur fram að þátttakendur skoruðu lægra hvað viðkemur neikvæðum einkennum t(10) = 2,68, p<0,05 og almennum geðrænum einkennum t(10) = 3,46, p<0,05  eftir 20 vikna íhlutun. Ekki varð breyting á jákvæðum einkennum. Í töflu I má sjá að hvíldarpúls þátttakenda lækkaði að meðaltali um 7 slög á mínútu t(13) = 5,06, p<0,05 yfir íhlutunartímabilið. Ekki urðu breytingar á þyngd, efri eða neðri mörkum blóðþrýstings, mittisummáli né líkamsþyngdarstuðli yfir rannsóknartímabilið.

Heildarniðurstöður úr kvörðum sem lagðir voru fyrir í upphafi og lok íhlutunar má sjá í töflu I. Það dró úr þunglyndi t(12) = 2,79, p<0,05 og kvíða t(12) = 2,34, p<0,05 og jákvæð breyting varð á þeim þremur hlutum CORE-OM-kvarðans sem notast var við, líðan t(13) = 2,46, p<0,05, vandamál t(13) = 3,02, p<0,05 og virkni t(13) = 3,95 p<0,05. Þar að auki jukust lífsgæði, t(13) = 4,40, p<0,05 eftir íhlutunina en engar breytingar urðu á sjálfstrausti (RSES), vonleysi (Becks) né streitu (DASS).

Hreyfing þátttakenda jókst eftir því sem leið á rannsóknina eins og sjá má á mynd 1. Í fyrstu vikunni hreyfði hver þátttakandi sig í að meðaltali 39 mínútur, eða um 14 mínútur þrisvar sinnum í viku. Í lok rannsóknar hreyfði hver þátttakandi sig að meðaltali 133 mínutur á viku eða um 44 mínútur þrisvar sinnum í viku.

Dæmi um svör sem komu fram í einstaklingsviðtölum má sjá í töflu II. Í viðtölunum lýstu þátttakendur betri stjórn á jákvæðum einkennum geðklofa eins og að hafa betri stjórn á hugsunum og að eiga auðveldara með að leiða hjá sér ofskynjanir. Þar kom fram að þátttakendur voru almennt mjög ánægðir með íhlutunina, þeim fannst gaman að hreyfa sig og fundu mikinn mun á sér bæði andlega og líkamlega. Hreyfingin hafði góð áhrif þar sem þátttakendum fannst auðveldara að umgangast annað fólk, að sjálftraust þeirra yxi og að drægi úr kvíða og þunglyndi.

Umræða

Niðurstöður sýna heilsufarslegan ávinning að lokinni 20 vikna íhlutun hjá sjúklingum með geðklofa. Breytingar til batnaðar urðu á neikvæðum einkennum geðklofa, þunglyndi, kvíða, streitu og lífsgæðum eftir íhlutun. Hreyfing þátttakenda jókst, hvíldarpúls lækkaði en ekki var marktækur munur á holdafari né blóðþrýstingi fyrir og eftir íhlutun. Niðurstöður úr einstaklingsviðtölum sýna að þátttakendur voru almennt ánægðir með íhlutunina, upplifðu meira sjálfstraust, minni kvíða- og þunglyndiseinkenni, svefn varð betri og þeir áttu auðveldara með félagsleg samskipti.

Hreyfing og einkenni geðklofa

Niðurstöður úr PANSS-greiningarviðtalinu sýna að jákvæð einkenni geðklofa hurfu ekki, en hluti þátttakenda lýsti því í einstaklingsviðtölum að auðveldara væri að hafa stjórn á einkennum á meðan þeir hreyfðu sig. Nefnt var að rof yrði á óþægilegum hugsunum og að gott væri að geta einbeitt sér að einhverju öðru eins og hreyfingunni. Þarna gátu þeir gleymt sér í smá stund. Þessar niðurstöður spegla erlendar rannsóknir sem framkvæmdar hafa verið á sjúklingum með geðklofa.10,24Niðurstöður Gorczynski og Faulkner10 benda til þess að jákvæð einkenni geðklofa hverfi ekki alfarið við hreyfingu en þau geti minnkað, þar kom fram að sjúklingum fannst auðveldara að hafa stjórn á erfiðum jákvæðum einkennum eins og ofskynjunum þegar þeir hreyfðu sig.10 Beebe og félagar24 útbjuggu 16 vikna gönguáætlun fyrir einstaklinga með geðklofa. Þátttakendum var skipt upp í tvo hópa þar sem íhlutunarhópur stundaði göngu en hinn hópurinn fékk hefðbundna meðferð. Hjá þátttakendum sem  fengu íhlutun mátti sjá að jákvæð einkenni geðklofa minnkuðu, þol jókst, líkamsþyngdarstuðull lækkaði og  einkenni geðklofa minnkuðu.

Í lok íhlutunartímabils þessarar rannsóknar minnkuðu neikvæð einkenni og almenn geðræn einkenni geðklofa hjá þátttakendum. Niðurstöðurnar eru í samræmi við erlendar rannsóknir10,14 sem sýna fram á að hreyfing getur dregið úr neikvæðum einkennum geðklofa. Einnig minnkuðu önnur einkenni eins og kvíði, þunglyndi og streita ásamt því að virkni varð meiri og lífsgæði jukust. Chamove og félagar25 lýsa því hvernig geðklofasjúklingar upplifðu minni kvíða,  þunglyndi og  streitu þá daga sem þeir stunduðu hreyfingu. Einnig bentu höfundar á að sjúklingarnir  bættu félagsfærni, voru jákvæðari og virtust hafa aukna áhugahvöt. 25 Pelham og Campagna26 rannsökuðu áhrif hreyfingar á andlega, líkamlega og félagslega þætti hjá einstaklingum með geðklofa. Niðurstöður þeirrar rannsóknarinnar gáfu til kynna að þunglyndis- og kvíðaeinkenni minnkuðu, almenn vellíðan varð meiri, svefn og úthald varð meira og  sjálfstraust  jókst. Niðurstöður úr einstaklingsviðtölum styðja fyrri rannsóknir þar sem þátttakendur tala um að þeir upplifi minni kvíða og þunglyndi þegar þeir hreyfa sig reglulega, ásamt því að þeir hafi aukinn drifkraft og meiri áhuga á að hreyfa sig. Þá lýstu þátttakendur betri stjórn á hugsunum og meiri hugarró ásamt því að svefn batnaði og aukið jafnvægi komst á milli svefns og vöku. Fram kom að þátttakendum leið almennt betur þrátt fyrir að niðurstöður úr Rosenberg-sjálfstraustskvarðanum og Becks-vonleysiskvarðanum sýndu ekki marktæka breytingu. 

Hreyfing á íhlutunartímabili

Í þessari rannsókn juku þátttakendur hreyfingu sína tæplega fjórfalt. Þetta var mikil aukning á 20 vikum en niðurstöður úr erlendum rannsóknum sýna að til þess að auka virkni getur verið að fræðsla, leiðsögn frá faglærðum leiðbeinanda og góð aðstaða skili sér í aukinni hreyfingu.10Rannsakendur veltu fyrir sér hvort  hvatning, aukin félagsleg samskipti, fræðsla um jákvæð áhrif hreyfingar, val um hóp- og einkatíma og að fá leiðsögní hvert skipti, hafi skilað þessari auknu hreyfingu. Samkvæmt Ussher og félögum27 telja sjúklingar með geðklofa og aðrar geðraskanir að ein aðalhindrunin fyrir því að stunda hreyfingu sé  að þeir kunni ekki að framkvæma æfingar rétt, viti ekki hvernig best sé að hreyfa sig og finnist erfitt að byrja á eigin vegum. Einnig töldu sjúklingarnir í þeirri rannsókn að einkenni sjúkdómsins valdi því að þá skorti drifkraft til að hreyfa sig. Mikilvægt var því að hreyfingin hafi verið skipulögð og sérsniðin að hverjum og einum sjúklingi ásamt því að vera undir handleiðslu fagaðila.27 Fram kom hjá þátttakendum í þessari rannsókn að þeim þótti ánægjulegt og gagnlegt að stunda hreyfingu, hvort sem var í líkamsrækt eða göngu. Einnig þótti þeim hvetjandi að fá félagsskap frá leiðbeinanda og/eða öðrum þátttakendum. Niðurstöður einstaklingsviðtala sýndu að hvatning og hrós frá leiðbeinendum og fjölskyldumeðlimum hafði mikil áhrif á áhuga þeirra á stunda reglubundna hreyfingu. Einnig kom fram í viðtölum að þátttakendum fannst gott að hafa alltaf æfingaáætlun til þess að fara eftir, vita nákvæmlega hvað þeir voru að fara að gera og skrá niður jafn óðum. Með þessu móti gátu þátttakendur sett sér markmið og fylgst með framförum sem virkaði hvetjandi. Erlendar rannsóknir á einstaklingum sem þjást af geðsjúkdómum hafa sýnt fram á að hreyfing í hóptímum gefi góða raun, þátttakendur séu ánægðari og minna brottfall.10,13,14

Líkamlegar mælingar   

Í viðtölum lýstu þátttakendur betri líkamlegri líðan, minni þreytu og auknu úthaldi. Einnig sýndu niðurstöður að hvíldarpúls þátttakenda lækkaði eftir íhlutun. Fyrri rannsóknir sem skoðað hafa áhrif hreyfingar á sjúklinga með geðklofa, hafa ekki sýnt mikinn árangur í breytingum á holdafari.7,28,29 Þær niðurstöður má þá helst rekja til þess að einstaklingar með geðklofa eru í flestum tilfellum á geðrofslyfjum sem geta valdið þyngdaraukningu og truflun á efnaskiptum.7,28 Íhlutanir vöruðu ekki nógu lengi og ef til vill höfðuðu þær ekki nógu vel til þessa hóps.29 Niðurstöður þessarar rannsóknar sýndu að engin breyting varð á flestum líkamlegum mælingum. Það er sérstaklega jákvæð niðurstaða fyrir einstaklinga sem taka geðrofslyf að engin þyngdaraukning átti sér stað á rannsóknartímabilinu.

Rannsóknir benda til að íhlutanir sem miða að því að auka fræðslu um góðar matarvenjur og aukna hreyfingu, sýni bestan árangur hvað varðar þyngdartap og bættan lífsstíl hjá einstaklingum með geðklofa.30

Í framhaldi af þessari rannsókn væri áhugavert að gera stærri íhlutunarrannsókn á þessum hópi einstaklinga. Ákjósanlegt væri að hafa úrtakið stærra, hafa samanburðarhóp og skoða hvernig mismunandi tegundir líkamsþjálfunar hafa áhrif á líkamlegt og andlegt heilsufar einstaklinga með alvarlega geðsjúkdóma. Einnig væri áhugavert að rannsaka hvaða þættir stuðla að óheilbrigðum lífsstíl þessara einstaklinga og skoða hvað einkennir þann lífsstíl. Þá væri líka mögulegt að nota samskonar íhlutun og í þessari rannsókn og auka vægi fræðslu um næringu og skráningu mataræðis. Þá væri fróðlegt að auka tímalengd íhlutunar ásamt því að kanna hvort að aukning hreyfingar haldi áfram eftir að rannsóknartímabili lýkur. Að lokum væri einnig áhugavert að skoða hvort munur sé á áhugahvöt sjúklinga varðandi hreyfingu, bæði almennt og eftir að meðferð með geðrofslyfjum hefst.

Styrkleikar og veikleikar

Fáar sambærilegar rannsóknir hafa verið gerðar hér á landi og erlendis. Þátttökuhlutfall var ásættanlegt miðað við fjölda sjúklinga á endurhæfingardeildinni þar sem rannsóknin fór fram. Brottfall var lítið og niðurstöður voru heilsufarslega jákvæðar fyrir þátttakendur. Hreyfingin var einstaklingsmiðuð og var bæði boðið upp á hóp- og einkaþjálfun. Einnig var íhlutunartímabilið nokkuð langt miðað við rannsóknir sem hafa verið framkvæmdar á þessum hóp.

Aðeins 17 einstaklingar samþykktu að taka þátt í rannsókninni og því var úrtakið frekar lítið, sem leiðir til skorts á afköstum í öllum greiningum gagnanna. Endurhæfingardeildin sinnti mjög fámennum skjólstæðingahópi á þeim tíma sem rannsóknin fór fram, sem gerði erfitt um vik að hafa samanburðarhóp og því erfitt að fullyrða hvort íhlutunin hafi skilað þeim árangri sem hér hefur verið greint frá. Eins höfðu rannsakendur ekki vitneskju um hreyfingarmynstur þátttakenda áður en íhlutun hófst, slíkar upplýsingar hefðu auðveldað rannsakendum að draga ályktanir af íhlutuninni. Einnig má nefna að ekki varð hjá því komist að gera lyfjabreytingar á íhlutunartímabilinu í einstaka tilfellum, sem gætu litað niðurstöður rannsóknarinnar. Allir þátttakendur í rannsókninni héldu einnig áfram í sinni hefðbundnu meðferð sem gæti á einhvern hátt litað niðurstöður. Það að sá aðili sem framkvæmdi rannsókn og íhlutun tók jafnframt einstaklingsviðtöl gæti mögulega hafa haft áhrif á svör þátttakenda.

Ályktun

Niðurstöður benda til þess að íhlutun sem þessi sé æskileg fyrir unga einstaklinga með geðklofa. Þátttakendur hreyfðu sig meira, þeir þyngdust ekki og leið betur andlega að lokinni íhlutun. Regluleg hreyfing og leiðsögn um heilbrigðan lífsstíl virðast vera áhrifarík viðbót við meðferð einstaklinga með alvarlega geðsjúkdóma.

Þakkir

Rannsóknin var styrkt af vísindasjóði Landspítalans. Rannsakendur  standa í þakkarskuld við alla þá sem tóku þátt í rannsókninni og starfsfólk á geðsviði Landspítalans sem gaf sér tíma og þolinmæði í þágu verkefnisins. Eins fá eigendur World Class þakkir fyrir að leyfa þátttakendum að æfa án endurgjalds meðan á rannsókn stóð.

Heimildir

1. Mcgrath J, Saha S, Chant D, Welham J. Schizophrenia: a concise overview of incidence, prevalence, and mortality. Epidemiol Rev 2008; 30: 67-76.
http://dx.doi.org/10.1093/epirev/mxn001
PMid:18480098
 
2. World Health Organization. The ICD-10 classification of mental and behavioural disorders: clinical descriptions and diagnostic guidelines. (2. útgáfa). Genf 2007.
 
3. Hausmann A, Fleischhacker WW. Differential diagnosis of depressed mood in patients with schizophrenia: a diagnostic algorithm based on a review. Acta Psychiatr Scand 2002; 106: 83-96.
http://dx.doi.org/10.1034/j.1600-0447.2002.02120.x
PMid:12121205

 
4. Nordentoft M, Wahlbeck K, Hallgren J, Westman J, Osby U, Alinaghizadeh H et al. Excess mortality, causes of death and life expectancy in 270,770 patients with recent onset of mental disorders in Denmark, Finland and Sweden. PloS One 2013; 8: e55176.
http://dx.doi.org/10.1371/journal.pone.0055176
PMid:23372832 PMCid:PMC3555866

 
5. Roick C, Fritz-Wieacker A, Matschinger H, Heider D, Schindler J, Riedel-Heller S, et al. Health habits of patients with schizophrenia. Soc Psychiatry Psychiatr Epidemiol 2007; 42: 268-76.
http://dx.doi.org/10.1007/s00127-007-0164-5
PMid:17370043

 
6. Sveinsson Ó, Þorleifsson K, Aspelund T, Kolbeinsson H. Rannsókn á áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma hjá geðklofasjúklingum á geðsviði Landspítala. Læknablaðið 2012; 98: 399-402.
PMid:22947605

 
7. McIntyre RS, McCann SM, Kennedy SH. Antipsychotic metabolic effects: weight gain, diabetes mellitus, and lipid abnormalities. Can J Psychiat 2001; 46: 273-81.
PMid:11320682

 
8. Daumit GL, Dickerson FB, Wang PN, Dalcin A, Jerome GJ, Anderso CAM et al. A behavioral weight-loss intervention in persons with serious mental illness. N Engl J Med 2013; 368: 1594-602.
http://dx.doi.org/10.1056/NEJMoa1214530
PMid:23517118 PMCid:PMC3743095

 
9. Warburton D, Charlesworth S, Ivey A, Nettlefold L, Bredin S. A systematic review of the evidence for Canada's physical activity guidelines for adults. IJBNPA 2010; 7: 1 -220.
http://dx.doi.org/10.1186/1479-5868-7-39

 
10. Gorczynski P, Faulkner G. Exercise therapy for schizophrenia. Schizophr Bull 2010; 36: 665-6.
http://dx.doi.org/10.1093/schbul/sbq049
PMid:20484521 PMCid:PMC2894605

 
11. Pelham T, Campagna P, Ritvo P, Birnie W.The effects of exercise therapy on clients in a psychiatric rehabilitation program. Psychosoc Rehabil J 1993; 16: 75-84.
http://dx.doi.org/10.1037/h0095650

 
12. Tkachuk GA, Martin GL. Exercise therapy for patients with psychiatric disorders: research and clinical implications. Prof Psychol Res Pr 1999; 30: 275-82.
http://dx.doi.org/10.1037/0735-7028.30.3.275

 
13. Asmundson GJG, Fetzner M., DeBoer LB, Powers MB, Otto MW, Smits JAJ. Let's get physical: a contemporary review of the anxiolytic effects of exercise for anxiety and its disorders. Depress Anxiety; 30: 362-73.
http://dx.doi.org/10.1002/da.22043
PMid:23300122

 
14. Faulkner G, Gorczynski P, Arbour-Nicitopoulos K. Exercise as an adjunct treatment for schizophenia. Routledge handbook of physical activity and mental health. Ekkekakis, Panteleimon 2013a; 541.
 
15. Kay SR, Fiszbein A, Opler LA. The positive and negative syndrome scale (PANSS) for schizophrenia. Schizophr Bull 1987; 13: 261-76.
http://dx.doi.org/10.1093/schbul/13.2.261
PMid:3616518

 
16. Lovibond PF. The structure of negative emotional states: comparison of the depression anxiety stress scales (DASS) with the Beck sepression and anxiety inventories. Behav Res Ther 1995; 33: 335-43.
http://dx.doi.org/10.1016/0005-7967(94)00075-U

 
17. Evans C, Connell J, Barkham M, Margison F, McGrath G, Mellor-Clark J et al. Towards a standardised brief outcome measure: psychometric properties and utility of the CORE—OM. Br J Psychiatry 2002; 180: 51-60.
http://dx.doi.org/10.1192/bjp.180.1.51
PMid:11772852

 
18. Flanagan J. A research approach to improving our quality of life. Am J Commun Psychol 1978; 33: 138-47.
http://dx.doi.org/10.1037/0003-066X.33.2.138

 
19. Rosenberg M. Society and the adolescent self-image. Princeton University Press, Princeton NJ 1965.
 
20. Beck ATW, Lester D, Trexler L. The measurement of pessimism: The hopelessness scale. J Consult Clin 1974; 42: 861-5.
http://dx.doi.org/10.1037/h0037562

 
21. Halldórsdóttir S. Vancouver-skólinn í fyrirbærafræði. Í Sigríður Halldórsdóttir og Kristján Kristjánsson, ritstj. Handbók í aðferðafræði og rannsóknum í heilbrigðisvísindum. Háskólinn á Akureyri, Akureyri 2003: 249-66.
 
22. Shapiro SS, Wilk MB. An analysis of variance tests for normality (complete samples). Biometrica 1965; 52: 591-611.
http://dx.doi.org/10.1093/biomet/52.3-4.591
http://dx.doi.org/10.2307/2333709

 
23. Lakens D. Calculating and reporting effect sizes to facilitate cumulative science: a practical primer for t-tests and ANOVAs. Front Psychol 2013; 4: 863.
http://dx.doi.org/10.3389/fpsyg.2013.00863
PMid:24324449 PMCid:PMC3840331

 
24. Beebe L, Tian L, Goodwin A, Allen S, Kuldau J. Effects of exercise on mental and physical health parameters of persons with schizophrenia. Issues Ment Health Nurs 2005; 26: 661-76.
http://dx.doi.org/10.1080/01612840590959551
PMid:16020076

 
25. Chamove AS. Positive short-term effects of activity on behaviour in chronic schizophrenic patients. Brot J Clin Psychol 1986; 25: 125-33
http://dx.doi.org/10.1111/j.2044-8260.1986.tb00681.x

 
26. Pelham T, Campagna P. Benefits of exercise in psychiatric rehabilitation of persons with schizophrenia. Can J Reh 1991; 4: 159-68.
 
27. Ussher M, Doshi R, Sampuran A, West R. Cardiovascular risk factors in patients with schizophrenia receiving continuous medical care. Community Ment Health J 2011; 47: 688-93.
http://dx.doi.org/10.1007/s10597-011-9376-y
PMid:21240554

 
28. De Hert M, Detraux J, Van Winkel R, Yu W Correll CU. Metabolic and cardiovascular adverse effects associated with antipsychotic drugs. Nat Rev Endocrino 2011; 8: 114-26.
http://dx.doi.org/10.1038/nrendo.2011.156
PMid:22009159

 
29. Daley AJ. Exercise therapy and mental health in clinical populations: Is exercise therapy a worthwhile intervention? Adv Psychiatr Treat 2002; 8: 262-70.
http://dx.doi.org/10.1192/apt.8.4.262

 
30. Faulkner G, Duncan M, Hahn M, Remington G, Cohn T. Behavioural interventions for reducing weight gain in schizophrenia. Cochrane Library 2013b; 24: 1.
http://dx.doi.org/10.1002/14651858.cd010781Þetta vefsvæði byggir á Eplica