10. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Voru lækningaplöntur ræktaðar á Íslandi á miðöldum?

Norski grasafræðingurinn Per Arvid Åsen svaraði spurningunni í fyrirsögninni játandi í fyrirlestrum á vegum Urtagarðsins í Nesi og á Norrænni ráðstefnu um sögu læknisfræðinnar í ágúst síðastliðnum. Per Arvid er sérfróður um sögu klausturjurta og hefur rannsakað minjar um 31 klaustur í Noregi og gaf nýlega út bók um niðurstöðurnar. Á síðari árum hefur hann tekið þátt í rannsóknum sem Steinunn J. Kristjánsdóttir fornleifafræðingur hefur staðið fyrir á minjum um íslensk klaustur, meðal annars með uppgreftri á Skriðuklaustri og könnun á fleiri klausturstæðum. Þann 13. ágúst síðastliðinn var opnuð sýning í Urtagarðinum í Nesi á 25 plöntutegundum sem fundist hafa merki um í klausturrannsóknum og gætu hafa verið ræktaðar hér á miðöldum (mynd 1).


Mynd 1. Urtagarðurinn við Nesstofu á Seltjarnarnesi.

Á Íslandi eru til heimildir um stofnun 13-14 klaustra, það elsta (Bær í Borgarfirði) frá fyrri hluta 11. aldar, fyrir stofnun Skálholtsstóls. Sum þeirra, eins og Þingeyraklaustur, voru starfrækt í meira en 400 ár, allt til siðaskipta um miðja 16. öld. Lítið er til skráð um það sem þar fór fram. Úr fornleifarannsóknum í Viðey og með uppgreftri Skriðuklausturs hefur þó komið nokkur vitneskja. Af rannsóknum á Skriðuklaustri er dregin sú ályktun að íslensk klaustur, sem mörg voru undir reglu heilags Ágústínusar, hafi verið skipulögð og starfrækt með sama hætti og fjölmörg slík klaustur í Evrópu sem meiri heimildir eru um. Stóð Skriðuklaustur þó einungis í 60 ár. Meðal annars er ljóst að þar var sjúkum líknað og ræktaður klausturgarður þar sem matjurtir og lækningajurtir uxu.

Fyrirlestrar Per Arvid Åsen fjölluðu um þær plöntur sem merki hafa fundist um hér á landi í grennd við hin ýmsu klausturstæði. Í Urtagarðinum í Nesi eru þær til sýnis eins og lifandi minjar þessa tíma og sögu ræktunar á Íslandi. Þá má geta þess að við uppgröft í Viðey fannst á sínum tíma lítil stytta af heilagri Dóróþeu sem er verndardýrlingur garðyrkjumanna og uppskeru. Garðyrkja hefur því verið samofin klausturhaldi.

Klaustrin sem talið er að hafi verið starfrækt hér á landi eru sýnd á mynd 2.


      Mynd 2. Klaustur á Íslandi á miðöldum. Mynd: Steinunn J. Kristjánsdóttir.

Rannsóknir á frjókornum og fræjum úr borkjarnasýnum sem tekin hafa verið við þessi klaustur og í uppgreftri við tvö þeirra, svo og athuganir á núverandi gróðurfari umhverfis þau, leiða í ljós merki um margar þekktar tegundir úr klausturgörðum erlendis, meðal annars nýlegum rannsóknum Per Arvid Åsen í Noregi. Margar þeirra teljast reyndar til íslensku flórunnar í dag en sumar gætu hafa komið til landsins sem nytjaplöntur til matar eða lækninga, hvort sem er með landnámsmönnum eða á klausturtímanum. Meðal vel þekktra og nokkuð útbreiddra plantna í dag eru ætihvönn, vallhumall, kornsúra, mjaðurt, holurt (reiðingsgras), maðra (gulmaðra eða hvítmaðra) tágamura (gæsamura), einir, villilín, græðisúra, kúmen og Spánarkerfill sem nú breiðist hratt út eins og ætihvönnin. Ýmsar þessar tegundir hafa þó án efa verið til í landinu fyrir landnám. Minna þekktar garðategundir eru ljóstvítönn, blóðkollur, mjaðarlyng, malurt, garðabrúða og hagabrúða, brenninetla og hin sérkennilega hjólkróna. Flestar þeirra eru án efa innfluttar af mönnum. Einnig má telja hér með villilauk sem vex útbreiddur á Bæ í Borgafirði og hefur breiðst nokkuð út með garðrækt. Villilaukurinn var snemma á tímum mikilvæg krydd- og lækningajurt og hefur líklega  borist hingað með mönnum snemma á öldum. Fræ af káltegund fannst á Skriðuklaustri og gæti hafa verið ræktað nokkuð víða.


Mynd 3. Einær desurtin vex vel við Saurbæ í Eyjafirði.

En sjaldgæfastar teljast þefjurtin (mynd 3) sem fannst fyrst við lok 19. aldar og vex á fáeinum stöðum við Eyjafjörð í grennd við meint klausturstæði (mynd 4), svo og klóajurtin sem sést hefur öðru hvoru frá 1929 í grennd við klausturstæðið á Þingeyrum. Báðar þessar síðasttöldu jurtir hafa án efa flust til landsins með mönnum þótt ekki sé sannað hvernig. Þær eru einærar og háðar því að skilyrði myndist til að spíra, vaxa og bera fræ. Fræin virðast þó geta lifað langan aldur í jörð áður en þau spíra þegar tækifæri gefast, til dæmis við jarðrask. Óvæntasti fundurinn er þó eitt fræ af evrópska villieplinu sem fannst við uppgröftinn á Skriðuklaustri. Villieplið er vel þekkt matar- og heilsujurt frá fornu fari og þá talið til konungsgersema og lög sett um eign þeirra. Fannst meðal annars heil karfa full af villieplum við uppgröftinn á Ásubergsskipinu í Noregi í byrjun síðustu aldar en skipið er talið frá byrjun 9. aldar. Eplin voru nesti ætluð þeim konum af drottningakyni sem ferðast áttu með skipinu til undirheima. Villiepli voru einnig ræktuð í norskum klaustrum,  meðal annars á eyjunni Tautra í Þrándheimsfirði sem er einn nyrsti vaxtarstaður villieplisins í Evrópu. Eitt tré ættað þaðan er nú hluti af sýningunni í Urtagarðinum í Nesi – ásamt öðrum þeim jurtum sem ofan eru taldar. Ýmislegt bendir til þess að samgangur hafi verið milli íslenskra klaustra og norskra sem lágu undir erkibiskupsstólinn í Niðarósi við Þrándheimsfjörð  – til dæmis hafi íslenskar jurtir borist til Noregs.


Mynd 4. Desurtin úr Saurbæ komin í Urtagarðinn í Nesi.

Um áhrifamátt lækningajurta og uppskriftir að lyfjum og notkun þeirra á miðöldum er ekki mikið skrifað og ef til vill erfitt að henda reiður á vegna þess að hugmyndir manna um starfsemi líkamans og líffæranna voru þá gjörólíkar því sem nú er. Reyndar eru margar þessara plantna teknar með í fyrstu opinberu lyfjaskrá Danakonungs, Pharmacopoeia Danica frá árinu 1772, sem fyrsta lyfjafræðingi Íslands, Birni Jónssyni, bar að hafa til hliðsjónar.

Í meðfylgjandi töflu á næstu síðu er dregið saman það helsta sem vitað er um þær 25 klausturjurtir sem koma hér við sögu, um meintar nytjar þeirra á klausturtímanum og hvar merki um þær hafa fundist. Þetta vefsvæði byggir á Eplica