09. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Embætti landlæknis 10. pistill. Notagildi lyfjagagnagrunns

Lyfjagagnagrunnur Embættis landlæknis var gerður að umfjöllunarefni í pistli okkar í maíhefti Læknablaðsins. Hér er áfram fjallað um þennan lyfjagagnagrunn og notagildi hans. Tilkoma þessa nýja lyfjagagnagrunns eru talsvert mikil tíðindi og er jafnvel hægt að tala um byltingu í möguleikum lækna til að kalla fram rauntímaupplýsingar um lyfjasögu sjúklings. Fæstir gera sér sennilega grein fyrir hvernig staðan hefur verið en hingað til hafa læknar þurft að hringja í apótek til að athuga hvað sjúklingur ætti af lyfjum í rafrænu gáttinni. Læknar hafa ekki heldur haft nema takmarkaðar upplýsingar um ávísanir á skjólstæðinga sína frá læknum á öðrum starfsstöðvum. Til viðbótar býður þetta nýja tæki upp á möguleika fyrir lækna að fella niður lyfseðla, endurnýja lyfseðla og stofna nýja rafræna lyfseðla. Þá er ekki síður mikilvægt að opnað hefur verið fyrir aðgang almennings að þessum grunni, sem getur þá haft yfirsýn um sín eigin lyfjamál.

Þessa upplýsingaveitu þarf að nota

Eins og lýst var í síðasta pistli hafa allir læknar og tannlæknar sjálfkrafa aðgang, þó mest þrjú ár aftur í tímann. Þeir þurfa einungis að fara á vefsíðuna lyfsedlar.landlaeknir.is/ og tengja sig með rafrænum skilríkjum eða nota aðgang að lyfjagagnagrunninum í gegnum sjúkraskrárkerfin. Þegar tilefni gefast ættu læknar einnig að hvetja sjúklinga sína til að nota þessa upplýsingaveitu með þeim aðgangi sem allir hafa að eigin lyfjasögu á heilsuvera.is/

Embætti landlæknis mun á næstu mánuðum og misserum kynna lyfjagagnagrunninn nánar og hvetja alla lækna til að temja sér að nota hann. Rúmlega 300 læknar eru nú þegar orðnir virkir notendur grunnsins við dagleg störf og við teljum einsýnt að langflestir muni gera það áður en langt um líður. Enda er það svo að notkun þessara upplýsinga er til hagsbóta fyrir sjúklinga með því að hún stuðlar að skynsamlegri lyfjanotkun og vinnur gegn læknarápi, fjöllyfjanotkun, ofnotkun og misnotkun lyfja.

Sérstaklega mikilvægt er að læknar sem starfa einir á stofu eða starfa á fleiri en einni starfsstöð noti grunninn; það getur bætt yfirsýn þeirra verulega. Einnig ættu tannlæknar að nota þetta tæki enda eru þeir að vissu marki útsettir fyrir læknarápi.

Dæmi 1 – svefnlyf og róandi lyf

Svefnlyf og róandi lyf eru meira notuð á Íslandi en þekkist í nálægum löndum og hefur svo verið lengi. Svefnlyf eru notuð í stærri skömmtum og í lengri tíma en æskilegt getur talist. Aukaverkanir af þessu eru margar og má nefna sljóleika, rugl, umferðaróhöpp, skert lífsgæði og beinbrot sem dæmi. Læknaráp er algengt með þessi lyf og læknar vita oft ekki af ávísunum hvers annars, fjöllyfjanotkun er vandamál og stakir lyfseðlar til viðbótar við vélskömmtun eru ekki óalgengir. Notkun upplýsinga úr lyfjagagnagrunni getur komið í veg fyrir flest þessara vandamála og þannig bætt líf og heilsu sjúklinganna.

Dæmi 2 – sterk verkjalyf

Samkvæmt upplýsingum frá Nomesco fyrir árið 2013 (tölur fyrir 2014 eru ekki enn aðgengilegar) er notkun sterkra verkjalyfja orðin hæst á Íslandi af öllum Norðurlöndunum. Til að meðferð erfiðra verkja sé í sem bestum farvegi er nauðsynlegt að þeir sem ávísa lyfjunum hafi góða yfirsýn yfir notkun allra lyfja og lyfjagagnagrunnurinn gerir það tiltölulega einfalt. Talsvert er um að verkjalyf séu misnotuð og margir ánetjast þeim. Einnig er stundað læknaráp við útvegun lyfja í þessum flokki. Flest þeirra dauðsfalla sem rakin eru til lyfjaeitrana eru tilkomin vegna sterkra verkjalyfja sem undirstrikar hversu vandmeðfarin þau eru. Við bráðameðferð lyfjaeitrana skiptir einnig höfuðmáli að meðhöndlandi læknir hafi allar upplýsingar um lyfjaávísanir í rauntíma.

Framtíðin

Þau kerfi sem hér er fjallað um eru ekki fullkomin og þurfa tíma til að þróast og slípast. Hluti af þessari þróun er að notendur láti frá sér heyra, sendi embættinu ábendingar um galla eða villur í kerfinu eða komi á framfæri tillögum um endurbætur. Allar slíkar ábendingar eru vel þegnar. Grunnurinn er í mótun og er magn upplýsinga sem í hann berst alltaf að aukast.

Fyrir nokkrum árum fundust villur í lyfjagagnagrunni landlæknis. Þrátt fyrir  þær hefur grunnurinn dugað ágætlega við venjubundið eftirlit á vegum Embættis landlæknis síðan 2006 þegar farið var að nota hann til þeirra hluta. Þessar villur hafa verið lagaðar og stöðugt er unnið að því að tryggja gæði þeirra upplýsinga sem grunnurinn geymir.

Niðurlag

Á vef Embættis landlæknis eru nánari leiðbeiningar um notkun kerfisins:
landlaeknir.is/gaedi-og-eftirlit/lyfjamal/



Þetta vefsvæði byggir á Eplica