06. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Verkfallið hefur víðtæk áhrif. Rætt við fimm yfirlækna sérgreina á Landspítala

Verkfall háskólamenntaðra starfsmanna á heilbrigðisstofnunum hefur nú staðið hátt í tvo mánuði án þess að hilli undir lausn við samningaborðið. Þær stéttir sem eru í verkfalli eru geislafræðingar, lífeindafræðingar, ljósmæður og náttúrufræðingar en störf þeirra snerta nær alla starfsemi spítalans á einn eða annan hátt.


Læknablaðið leitaði til fimm yfirlækna sérgreina á Landspítala og bað þá að lýsa áhrifum verkfallsins á þeirra deildir og sérsvið.

Þegar þetta er skrifað, 26. maí, eru allar líkur á að verkfall hjúkrunarfræðinga hefjist á miðnætti þann 27. og þarf enginn að velkjast í vafa um áhrif þess á heilbrigðiskerfið til viðbótar við nýlega afstaðin og  yfirstandandi verkföll heilbrigðisstarfsfólks.

Í forstjórapistli sínum föstudaginn 22. maí sagði Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans:

„Í dag eru 45 dagar frá því verkfall BHM hófst á Landspítala. Áhrifin eru afar alvarleg; 54.500 blóðtökum hefur verið frestað og blóðsýni hafa skemmst vegna biðar, 6.100 myndgreiningarrannsóknum hefur verið frestað, 370 skurðaðgerðum, 1.700 komum á dag- og göngudeildir, auk þess sem áhrif á fæðingarþjónustu og á starfsemi blóðbanka eru mikil. Með þrotlausri baráttu starfsfólks og góðu samstarfi við þau stéttarfélög sem eru í verkfalli höfum við leitað allra leiða til að tryggja öryggi sjúklinga og koma í veg fyrir að fólk bíði varanlegt tjón. Hvort það hafi tekist er ekki ljóst. Ljóst er hins vegar að mjög langan tíma mun taka að glíma við afleiðingar þessara verkfalla, bæði félaga BHM sem og verkfalls læknafélaganna sem varla hafði verið byrjað að vinda ofan af þegar verkföll BHM hófust. Heilbrigðiskerfið er þegar keyrt að mörkum og því ekki ljóst hvernig við tökumst á við það krefjandi verkefni þegar þessum verkfallsaðgerðum linnir. 

Að óbreyttu mun verkfall Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga hefjast næsta miðvikudag, 27. maí. Mun þá skapast fordæmalaust ástand í íslensku heilbrigðiskerfi. Fyrir því eru ýmsar ástæður. Í fyrsta lagi er við að eiga uppsafnaðan vanda fyrri verkfalla vetrarins. Í öðru lagi stendur verkfall fjögurra aðildarfélaga BHM enn með allri þeirri truflun á starfsemi sem þau hafa í för með sér. Í þriðja lagi þá eru hjúkrunarfræðingar fjölmennasta stétt spítalans, þriðjungur allra starfsmanna Landspítala. Hjúkrun sjúkra er grundvallarþáttur í starfsemi hvers sjúkrahúss og ótímabundið verkfallið skellur af fullum þunga á sjúkrahúsinu og opinberri heilbrigðisþjónustu allri frá fyrsta degi. Því mun strax frá upphafi verða gífurleg röskun á starfsemi, þrátt fyrir að undanþágulistar muni koma til móts við þörf fyrir bráðaþjónustu.”

Maríanna Garðarsdóttir röntgenlæknir og formaður Félags Íslenskra röntgenlækna

Helstu áhrif verkfallsins á sérgrein mína eru þau að myndgreiningarrannsóknir sem þarf að framkvæma tefjast eða eru ekki framkvæmdar. Myndast hafa langir biðlistar á Landspítalanum þar sem ég starfa og óeðlilegar tafir hafa orðið, jafnvel á þjónustu við inniliggjandi sjúklinga. Geislafræðingar eru nauðsynlegir til að framkvæma rannsóknirnar sem við lesum úr en þegar rannsóknirnar eru ekki framkvæmdar getum við ekki veitt þá þjónustu sem við læknar teljum nauðsynlega. Við styðjum auðvitað geislafræðinga og aðra í kjarabaráttu þeirra en það er framkvæmd verkfallsins sem hefur reynst okkur afar erfið og setur skorður sem við getum illa sætt okkur við. Það er erfitt að geta ekki sinnt þeim sjúklingum sem þurfa á myndgreiningarrannsóknum að halda til greiningar, meðferðar og eftirlits og óttumst við að áhrif verkfallsins á sjúklinga muni koma fram í langan tíma eftir að því lýkur.

Þóra Steingrímsdóttir prófessor og yfirlæknir kvenna- og barnasviðs

Á kvennadeildinni og í allri mæðravernd og á öllum fæðingadeildum á landinu erum við heft af ljósmæðraverkfalli, þar sem 70% fæðinga landsins eiga sér stað. Verkfall ljósmæðra hefur fyrst og fremst áhrif, þrjá daga í viku, en allt annað gerir okkur lífið líka erfiðara, lífeindafræðingar í verkfalli fyrir hádegi, geislafræðingar allan daginn og í dag varð mér ljóst að tölfræðiráðgjafi (náttúrufræðingur, BHM) sem við leituðum til í samstarfi um vísindavinnu hefur verið í verkfalli í 6 vikur og vísindavinna verður víst seint talin bráðatilvik eða nauðsynleg heilbrigðisþjónusta, svo þar hlaðast mörg verkefni upp og verða jafnvel vanrækt.

Við þurfum að fresta skurðaðgerðum, keisaraskurðum og framköllun fæðinga, en á endanum verða flestar þessar aðgerðir nauðsynlegar og bráðar og eru gerðar undir þeim formerkjum. 

Verst er þó að jafnvel þótt verkfallsaðgerðirnar séu íþyngjandi fyrir okkur og sjúklinga og skjólstæðinga er þetta varla nógu beitt eða árangursríkt. Við styðjum samstarfsstéttir okkar heilshugar og svíður að sjá baráttu þeirra hálfmáttlausa.

Alma D. Möller læknir og framkvæmdastjóri aðgerðasviðs

Undir aðgerðasvið Landspítala heyra Blóðbanki, dauðhreinsun, gjörgæsludeildir, skurðstofur, speglunardeild og svæfingadeild. Það starfsfólk sviðsins sem er í verkfalli eru náttúrufræðingar og líffræðingar í Blóðbanka, auk nokkurra ljósmæðra sem starfa á skurðstofum og gjörgæsludeildum. Áhrif verkfallsins eru mest í Blóðbankanum og á skurðstofum með afleiddum áhrifum á aðrar einingar. Þannig hefur þurft að fresta um 370 skurðaðgerðum en þar er um að ræða aðgerðir sem ekki eru mjög bráðar og sem ekki er hægt að framkæma þar eð aðkoma Blóðbanka eða rannsóknadeilda er nauðsynleg. Hins vegar hafa allar aðgerðir sem ekki þola bið verið gerðar og eins minni aðgerðir sem ekki þurfa áðurnefnda þjónustu. Samdráttur á skurðstofum hefur leitt til samsvarandi samdráttar í þjónustu Blóðbankans en þar hefur þess einnig verið gætt að sinna öllum bráðum tilvikum. Leitast hefur verið við að halda uppi ásættanlegum birgðum af blóðhlutum fyrir landið allt en hvað það varðar hefur staðan nokkrum sinnum orðið óásættanleg og hafa þá fengist undanþágur til að auka blóðhlutabirgðir. Sú þjónusta Blóðbanka sem ekki hefur verið hægt að veita eru vefjaflokkanir og sérstakar rannsóknir sem ekki styðja bráðahlutverk bankans. Dregið hefur verið saman í mótefnagreiningum fyrir mæðraeftirlit en tilvikum sem ekki þola bið verið sinnt. Fengist hafa undanþágur til að sinna stofnfrumumeðferðum.

Gunnar Bjarni Ragnarsson yfirlæknir lyflækninga krabbameina

Áhrifin eru margþætt. Verkfall geislafræðinga  vegur hvað þyngst, sjúklingar bíða oft lengur eftir geislameðferð og myndgreiningarrannsóknir tefjast. Myndgreiningarrannsóknir eru mikilvægar í greiningu krabbameina, til að meta svörun við meðferð og í eftirliti með krabbameinssjúklingum. Það hefur að mestu leyti tekist að tryggja að krabbameinslyfjameðferð rofni ekki en það hefur þó gerst, sem er mjög alvarlegt, og eftirlit hefur truflast verulega. Verkfallið hefur líka haft þau áhrif að ýmsar blóðrannsóknir og sérrannssóknir á vefjasýnum eru ekki gerðar eða það tekur lengri tíma. Þetta veldur verulegri röskun á meðferð og eftirliti krabbameinssjúklinga. Á legudeild, þar sem veikustu sjúklingarnir liggja, hafa orðið tafir á blóð- og myndgreiningarrannsóknum  sem truflar starfsemina mikið. Þetta veldur líka auknu álagi á starfsfólk og er tímafrekt á allan hátt, þeim tíma væri betur varið í að sinna sjúklingum.

Verkfall hjúkrunarfræðinga mun valda enn meiri röskun á starfsemi deildanna og þetta veldur sjúklingunum miklum kvíða. Erfitt er að meta núna hvort einhver hafi skaðast af verkfallsaðgerðum. Það getur komið í ljós seinna, en hættan er raunveruleg að einhver hafi skaðast, muni skaðast eða jafnvel deyja.

Hverjum svo sem um er að kenna, er ég forviða, hneykslaður og leiður að samfélagið skuli leyfa það að hér sé rekin algerlega ófullkomin heilbrigðisþjónusta á annan mánuð. Ég hafði talið að heilbrigðiskerfið væri það mikilvægt, eiginlega heilagt, að ekki væri hægt að sætta sig við ástand eins og nú hefur skapast.

Davíð O. Arnar yfirlæknir hjartalækninga á Landspítala

Verkfall  BHM hefur haft mjög slæm áhrif víða á Landspítalanum, ekki síst á hjartadeildinni. Blóðrannsóknir og myndgreiningarrannsóknir hafa í mörgum tilfellum tafist hjá inniliggjandi sjúklingum, sem hefur valdið töfum á greiningu og meðferð, sem og á útskriftum í vissum tilvikum. Þá hefur verkfallið haft mjög slæm áhrif á möguleika okkar til að kalla inn einstaklinga af biðlistum fyrir ýmsar rannsóknir. Afar lítið er til að mynda kallað inn af biðlista fyrir hjartaþræðingar og önnur inngrip, eins og brennsluaðgerðir og gangráðsísetningar. Verkfallið hefur því hægt verulega á starfseminni hjá okkur. Rétt er þó að taka fram að reynt er að forgangsraða veikustu sjúklingunum af biðlistanum og bráðasjúklingum er sinnt tafarlaust.

Yfirvofandi verkfall hjúkrunarfræðinga er mikið áhyggjuefni. Það er ljóst að það mun valda verulegri viðbótarröskun á starfseminni á hjartadeild, meðal annars á móttöku bráðasjúklinga og enn frekari truflun á hjartaþræðingastofu og legudeild hjartdeildar. Það gæti hreinlega skapast algert ófremdarástand í þjónustunni við hjartasjúklinga ef svo fer sem horfir.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica