06. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Skýrari kröfur um innihald og marklýsingar, segja þau Óskar Reykdalsson og Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir

Ný reglugerð um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi var birt þann 21. maí síðastliðinn og er þar að finna ýmsar veigamiklar breytingar frá fyrri reglugerð sem að mestu leyti hefur staðið óbreytt frá 1988.


„Þessar breytingar eru löngu tímabærar,“ segja þau Óskar Reykdalsson og Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir
um nýútkomna reglugerð um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækninga-
leyfi og sérfræðileyfi.

„Þessar breytingar eru löngu tímabærar,“ segja þau Óskar Reykdalsson og Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir en þau sátu í nefndinni sem heilbrigðisráðherra skipaði á fyrri hluta árs 2013 til að endurskoða gildandi reglugerð.

„Í kjölfar nýrra heilbrigðislaga sem Alþingi samþykkti 2013 hafa verið gefnar út nýjar reglugerðir um nær allar 33 heilbrigðisstéttirnar sem þar eru tilgreindar. Reglugerðin um lækningaleyfin var einna flóknust og því skiljanlegt að lengstan tíma hafi tekið að fullgera hana,“ segir Óskar sem var formaður nefndarinnar, skipaður af ráðherra. Þórdís Jóna var tilnefnd af framhaldsmenntunarráði Landspítala en auk þeirra voru í nefndinni Elínborg Bárðardóttir heimilislæknir, tilnefnd af Læknafélagi Íslands, Pálmi V. Jónsson öldrunarlæknir, tilnefndur af læknadeild heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, Sigurður Guðmundsson smitsjúkdómalæknir, tilnefndur af Embætti landlæknis, og Guðrún W. Jensdóttir lögfræðingur í velferðarráðuneytinu sem var starfsmaður nefndarinnar.

 

Skýr krafa um marklýsingar sérnáms

„Meginbreytingin hvað varðar skilyrði til veitingar sérfræðileyfa er að nú er gerð skýr krafa um innihald og framvindu sérnámsins í stað þess að áður var einungis krafist tíma á deild til að öðlast sérfræðingsréttindin,“ segir Þórdís Jóna. „Íslenskir læknar hafa þó nánast undantekningarlaust stundað sérnám sitt á mjög þekktum og viðurkenndum háskólasjúkrahúsum erlendis en krafan um skipulagt sérnám er í samræmi við kröfur landanna í kringum okkur og því tímabært að okkar kröfur væru færðar til samræmis við það. Þetta misræmi varð til þess að erlendir sérnámslæknar gátu sótt um sérfræðiviðurkenningu hér á Íslandi sem síðan var tekin gild í heimalandi þeirra þó kröfurnar þar væru aðrar um tímalengd sérnámsins og skipulag þess,“ segir Þórdís Jóna.

Í nýju reglugerðinni er lokað fyrir þennan möguleika þar sem í 7. grein hennar segir: Umsækjandi um sérfræðileyfi í sérgrein og undirsérgrein innan læknisfræði skal fyrst hafa hlotið sérfræðileyfi í því ríki þar sem sérnámið eða meirihluti sérnáms fór fram og þar sem sérnámi lauk.

„Einnig er gerð skýr krafa um að sérnámið fari fram á viðurkenndri heilbrigðisstofnun þar sem mats- og hæfisnefnd, skipuð af ráðherra samkvæmt tilnefningum Læknafélags Íslands, læknadeildar HÍ og Embættis landlæknis, metur hæfi heilbrigðisstofnunar til að öðlast viðurkenningu sem kennslustofnun fyrir starfsnám til lækningaleyfis og til að annast sérnám,“ segir Óskar  og segir þetta mikilvæga breytingu frá ákvæðum fyrri reglugerðar.

„Það verður síðan hlutverk þessarar nefndar að setja niður kröfur um innihald og marklýsingar sérnáms til að það teljist fullgilt og þetta á við bæði um sérnám sem stundað er erlendis og  hér heima þar sem boðið er uppá fyrrihluta sérnáms í nokkrum sérgreinum. Í einstaka tilvikum hafa læknar jafnvel alfarið stundað sérnámið hér heima og á það einkum við í heimilislækningum og geðlækningum,“ segir Þórdís Jóna.

Þau rifja upp að samkvæmt fyrri reglugerð hafi átt að starfa matsnefnd á svipuðum forsendum og nýja reglulgerðin tilgreinir en sú nefnd hafi lognast útaf fyrir mörgum árum og ekki verið endurvakin. „Ákvæði í reglugerð er því ekki trygging fyrir að hlutirnir séu framkvæmdir og því verður að fylgja þessu eftir og tryggja að nefndin starfi samkvæmt því sem kveðið er á um.“

Óskar bætir því við að breytingar á stöðugildum og rekstrarforsendum einstakra heilbrigðisstofnana geti valdið því að hæfi þeirra sem kennslustofnana þurfi að endurskoða. „Mats- og hæfisnefndin þarf því að fylgjast vel með og gæta að því að öllum skilyrðum sé fullnægt.“

Þórdís segir þetta einnig mikilvægt þegar sérnámslæknar hyggja á framhaldsnám erlendis eftir fyrrihluta sérnáms hér heima sem boðið er upp á í ýmsum greinum. „Okkar sérnám þarf að standast kröfur erlendra kennslusjúkrahúsa um marklýsingar til að námslæknarnir fái fyrrihlutanámið að fullu metið.“

Í reglugerðinni segir að í marklýsingu sérnáms skuli meðal annars kveðið á um inntöku í sérnám, innihald, fyrirkomulag og lengd sérnámsins og einstaka námshluta, gæðakröfur, handleiðslu og hæfismat.

 

Sérgreinar, undirsérgreinar og viðbótarsérgreinar

Í reglugerðinni eru tíundaðar nákvæmlega allar viðurkenndar sérgreinar í læknisfræði ásamt undirsérgreinum og segja þau Óskar og Þórdís Jóna að þessi listi hafi verið uppfærður til samræmis við þróun í sérgreinum og undirsérgreinum læknisfræðinnar á undanförnum árum.

„Nú er til dæmis hægt að fá viðurkenningu í hjartalækningum sem undirsérgrein við lyflækningar sem aðalsérgrein en einnig er hægt að fá hjartalækningar viðurkenndar sem aðalsérgrein og stunda síðan sérnám í einni af fjórum undirsérgreinum hjartalækninga,“ segir Þórdís.

Einnig er að finna nýjung er nefnist viðbótarsérgreinar en samkvæmt henni er heimilt að veita lækni sem hlotið hefur sérfræðileyfi í einni sérgrein viðbótarsérgrein í heilbrigðisstjórnun og/eða lýðheilsufræðum. Þá er einnig heimilt að veita lækni sem hlotið hefur sérfræðileyfi í heimilislækningum viðbótarsérgrein í öldrunarlækningum. Til að bregðast við hinni öru þróun sem á sér stað í nútímalæknisfræði er áréttað að ráðherra geti fellt undir reglugerðina nýjar sérgreinar og undirsérgreinar að fengnum tillögum landlæknis.

Um heildarnámstíma sérgreina segir í reglugerðinni að hann skuli vera að lágmarki fimm ár (60 starfsmánuðir) í aðalgrein og tvö ár (24 starfsmánuðir) í undirgrein. Á þessu eru vissar undantekningar gagnvart löndum þar sem námstími sérgreina er frábrugðinn en viðurkenndur af íslenskum heilbrigðisyfirvöldum og þess ríkis þar sem námið er stundað.

„Þá er ákvæðum um starfsnám til almenns lækningaleyfis (kandídatsár) breytt,“ segir Þórdís Jóna en um það er fjallað sérstaklega í viðtali við Ingu Sif Ólafsdóttur kennslustjóra kandídata á Landspítala.

Nýja reglugerðin er í heild sinni á slóðinni:
http://stjornartidindi.isÞetta vefsvæði byggir á Eplica