04. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Áfengissölu í matvöruverslanir, NEI TAKK! Þorbjörn Jónsson

Á þessum vetri hefur verið til umfjöllunar á Alþingi „Frumvarp til laga um breytingu  á lögum um verslun með áfengi og tóbak, lögum um aukatekjur ríkissjóðs, áfengislögum og lögum um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum (smásala áfengis)“ sem Vilhjálmur Árnason og meðflutningsmenn lögðu fram snemma hausts 2014. Titill frumvarpsins er langur og flókinn en megininnihaldið er tiltölulega einfalt. Að fella úr gildi einkaleyfi Áfengis-og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) til smásölu á áfengi og færa hana þess í stað til smásöluverslana (matvöruverslana), með ákveðnum takmörkunum þó. Lagafrumvörp í þessa veru hafa oft á undanförnum árum verið lögð fyrir Alþingi en aldrei náð fram að ganga. Á því kann að verða breyting á þessu vori.

Ýmsar ástæður hafa verið færðar fram sem kallað gætu á breytt fyrirkomulag áfengissölu. Tvær ástæður heyrast tíðast nefndar: a) hátt verð á áfengi og b) slök þjónusta, meðal annars að opnunartími sé of stuttur og að langt sé á milli útsölustaða. Það er staðreynd að hátt verð á áfengi hérlendis stafar ekki af  hárri smásöluálagningu ÁTVR heldur af almennri skattlagningu ríkisins og það mun ekki breytast við það að gefa smásölu áfengis frjálsa. Er léleg þjónusta ÁTVR (Vínbúðanna) röksemd fyrir breyttu fyrirkomulagi? Nei, tæpast. Í landinu öllu eru nú 49 áfengisútsölur (einn ústölustaður á 6000 íbúa), 12 eru á höfuðborgarsvæðinu en 37 á landsbyggðinni. Þetta má því telja þéttriðið net útsölustaða. Ekki er heldur hægt að halda því fram með réttu að þjónusta við viðskiptavini sé léleg. Áfengisbúðir víða um land eru opnar á laugardögum og á virkum dögum eru þær opnar fram á kvöld. Starfsfólk miðlar af þekkingu upplýsingum um ólíkar áfengistegundir til viðskiptavina, sé eftir því leitað. Og þótt greinarhöfundur minnist þess tíma þegar forsjárhyggja „stóra bróður“ var slík að útsölustöðum væri lokað fyrirvaralaust fyrir verslunarmannahelgi, 17. júní og aðra hátíðisdaga til að sporna við ótæpilegri drykkju landans er sá tími löngu liðinn.

Röksemdir gegn rýmkun á áfengissölulöggjöfinni vega að mínu viti mun þyngra en þær sem kallað gætu á breytingar. Það er á flestra vitorði að sé áfengis neytt í óhóflegu magni í langan tíma getur það haft skaðleg áhrif. Best þekkt eru líklega áhrifin á lifrarstarfsemi (fitulifur, skorpulifur og lifrarbólga), en líka má tína til skaða á vélinda, brisi, á heila- og taugastarfsemi, hjarta- og æðakerfi auk neikvæðra áhrifa á fósturþroska. Þar á ofan koma síðan margvísleg geðræn og félagsleg áhrif sem geta orðið svo mikil að líf fólks og fjölskyldna þeirra hreinlega leggst í rúst. Til að  sporna við þessu eru víða um lönd í gildi ákveðnar takmarkanir á sölu áfengis, þótt með mismunandi hætti séu landa á milli. Hér á landi er slíkt gert með aldurstakmörkunum, verðstýringu og einkasölu ÁTVR á áfengi. Á Norðurlöndunum er fyrirkomulag áfengissölu með mismunandi hætti. Í Danmörku er sala áfengis leyfð í matvöruverslunum, í Noregi er einungis heimilt að selja léttan bjór í matvörubúðum, en Svíar hafa Systembolaget sem eru ríkisreknar áfengiseinkasölur með líku sniði og við höfum hér á landi.

Embætti landlæknis,1Félag lýðheilsufræðinga, Barnaverndarstofa, Félag áfengis- og vímuefnaráðgjafa, Umboðsmaður barna og margir fleiri leggjast gegn þeim breytingum á áfengissölulöggjöfinni sem lagðar hafa verið til. Meginröksemdin er auðvitað að rýmkaðar reglur auki sýnileika áfengis og aðgengileika og það muni auka neyslu og þann skaða sem af drykkju hlýst. Landlæknir hefur nýlega birt samantekt á sænskri greiningu þar sem spáð var fyrir um það hverjar afleiðingarnar yrðu ef einkasala sænska ríkisins á áfengi yrði afnumin.2Niðurstaðan var afdráttarlaust sú að áfengistengdum dauðsföllum (slysum, sjálfsmorðum, morðum og svo framvegis) myndi fjölga og veikindafjarvistir vegna áfengisneyslu ykust sömuleiðis.  

Hver skyldi afstaða almennings hér á landi vera til breytinga á sölufyrirkomulagi áfengis? Fréttablaðið lagði fyrir skömmu könnun þessa efnis fyrir 800 manna úrtak. „Nei“ svöruðu 55% þegar spurt var „Finnst þér að heimila eigi sölu á bjór og léttvíni í matvöruverslunum?“3Þetta er afgerandi niðurstaða og styður alls ekki það að nauðsynlegt sé að breyta áfengissölu á þann hátt sem Vilhjálmur Árnasonar alþingismaður leggur til. Meirihluti almennings telur núverandi fyrirkomulag á áfengissölu vera fullnægjandi.

Fyrirkomulag áfengissölu hér á landi er í öllum aðalatriðum gott – og almenningur virðist ekki hafa neinn sérstakan áhuga á breyta því. Skaðinn sem kann að hljótast af ótímabærum breytingum og auknu aðgengi kann hins vegar að verða umtalsverður. Það eru því engin skynsamleg rök sem mæla með því að breyta núna fyrirkomulagi sem gefist hefur vel og almenn sátt er um.

 

Heimildir

  1. Embætti landlæknis. Umsögn um 17. mál, frumvarp til laga um verslun með áfengi og tóbak o.fl. (smásala áfengis). http://www.althingi.is/altext/erindi/144/144-411.pdf - mars 2015
  2. Embætti landlæknis. Spá um áhrif þess að einkasala ríkisins væri afnumin í Svíþjóð: If Retail Alcohol Sales in Sweden were Privatized, what would be the Potential Consequences?  http://www.althingi.is/altext/erindi/144/144-696.pdf - mars 2015.
  3. Visir.is, 16. mars 2015. Meirihluti landsmanna andvígur bjór og léttvíni í matvöruverslunum. http://www.visir.is/meirihluti-landsmanna-andvigur-bjor-og-lettvini-i-matvoruverslunum/article/2015703169999 - mars 2015.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica