02. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

„Ekkert fordæmi fyrir verkfalli íslenskra lækna“ - segir Sólveig Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Læknafélags Íslands

Á skrifstofu Læknafélags Íslands var unnið mikið starf samhliða samningaviðræðum og ekki síst mæddi verulega á starfsfólki skrifstofunnar þegar verkfall blasti við og meðan á því stóð. Framkvæmdastjórinn, Sólveig Jóhannsdóttir, segir að hlutverk félagsins hafi verið að halda utanum þetta viðamikla verkefni sem verkfall lækna á öllum ríkisspítölum og heilsugæslustöðvum landsins hafi verið. 


„Verkfall verður auðvitað að hafa áhrif, það verður að bíta, en það má ekki valda skaða eða
draga úr öryggi sjúklinga,“ segir Sólveig Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri LÍ.

„Læknafélagið hefur aldrei farið í verkfall áður og við vissum í rauninni ekki hvernig til myndi takast. Við vissum þó að læknar væru tilbúnir til að ganga svo langt sem raunin var en það var alls ekki sjálfsagt. Það kom til dæmis alls ekki til greina við kjarasamningagerðina 2011 af hálfu lækna að fara í verkfall. Í þessu felst algjör stefnubreyting og sýnir að þolinmæði lækna var á þrotum.“

Í aðdraganda verkfallsins var stofnaður aðgerðahópur innan Læknafélagsins sem átti að gera tillögur og áætlun um hvernig læknar gætu þrýst á um kröfur sínar og þar á meðal farið í verkfall. „Spurningin var þá hvernig ætti að skipuleggja verkfallið því allsherjarverkfall lækna kom ekki til greina. Við horfðum til finnsku læknasamtakanna sem fóru í verkfall á 10. áratugnum og við höfðum heyrt af þeirra baráttu á fundum með norrænu samninganefndunum. Það sem okkur leist vel á í þeirra aðgerðum var að í stað þess að leggja niður störf á ákveðnum sjúkrahúsum, fóru ákveðnir hópar lækna í verkfall. Útfærslan var síðan unnin af okkur hér á skrifstofunni í samstarfi við aðgerðahópinn.“

Aðspurð um hvort fyrri lota verkfallsins, sem hófst í lok október og lauk í desember með tveggja daga verkföllum og hléum á milli, og seinni lotan, sem hófst 5. janúar en stóð aðeins í tvo daga þar sem skrifað var undir samninginn 7. janúar, hefðu verið skipulagðar samhliða, segir Sólveig svo alls ekki vera. 

„Það datt held ég engum í hug að við þyrftum að fara út í aðra og harðari lotu verkfalls á þeim tíma. Sem betur fór samdist áður en lengra var haldið inn í aðra lotuna. En verkfall lækna er eðli málsins samkvæmt mjög viðkvæmt. Verkfall verður auðvitað að hafa áhrif, það verður að bíta, en það má ekki valda skaða eða draga úr öryggi sjúklinga.“

Miðstöð verkfallsins var í húsakynnum Læknafélagsins í Hlíðasmára og Sólveig segir að ákveðinn hópur fólks hafi mætt til verkfallsvörslu og sinnt henni af mikilli prýði. „Verkfallsvarslan var í rauninni meira formsatriði en annað og það urðu engir árekstrar og mjög lítill ágreiningur um túlkun. Maður hefði kannski viljað sjá fleiri mæta hér í Hlíðasmárann til verkfallsvörslunnar en þetta gekk allt saman ágætlega.“

Sólveig segir almenningsálitið hafa unnið með læknum í þessari baráttu og fjölmiðlar hafi átt stóran þátt í að undirbúa þann jarðveg með ítarlegri umfjöllun um slæmt ástand heilbrigðiskerfisins. „Almenningur hafði áhyggjur af ástandinu og vildi að læknar næðu ásættanlegum samningi til að að kerfið liðaðist ekki í sundur. Það kom kannski stjórnvöldum á óvart hversu víðtækur þessi stuðningur var og tilraunir til að rjúfa hann fóru útum þúfur. Það var svo ánægjulegt að ríkisstjórnin skyldi óska eftir því að læknafélögin sameinuðust með henni í yfirlýsingu um endurreisn heilbrigðiskerfisins þegar samningar höfðu náðst. Vonandi markar það nýtt upphaf.“Þetta vefsvæði byggir á Eplica