02. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

„Stórt skref til bættra kjara íslenskra lækna“ - segir Þorbjörn Jónsson formaður Læknafélags Íslands

„Þetta er fyrsta skrefið í því verkefni að bæta kjör íslenskra lækna til lengri tíma,“ segir Þorbjörn Jónsson formaður LÍ um kjarasamninginn sem nú liggur fyrir milli Læknafélags Íslands og ríkisins. 

„Kjör lækna voru orðin með þeim hætti að ekki var raunhæft að reikna með að þau yrðu lagfærð í einu skrefi. En þessi samningur er stórt og mikilvægt skref.“


„Samstaðan skilaði okkur þessum árangri og ætti því að vera gott veganesti til framtíðarinnar
því við munum þurfa að sækja frekari kjarabætur á næstu árum til að rétta hlut íslenskra lækna
að fullu,” segir Þorbjörn Jónsson formaður LÍ.

Stóra spurningin sem liggur í loftinu að loknum þessum samningi er hvort hann verður til þess annars vegar að halda læknum við störf á Íslandi og hins vegar hvort hann muni laða íslenska lækna erlendis til starfa hér heima?

„Mér finnst líklegt að hann verði til þess að halda læknum í vinnu hér á landi en hitt er erfiðara að spá í og tíminn verður hreinlega að skera úr um það. Ég hef þó trú á því að þessi bættu kjör muni toga einhverja lækna heim fljótlega.“

Meturðu það þannig að ekki hafi verið hægt að ná lengra í þessari lotu?

„Já, við mátum það svo að ekki yrði komist mikið lengra að svo stöddu. Við vorum komin að þeim punkti að þurfa að meta hvort væri skynsamlegra að halda áfram aðgerðum með þeim afleðingum sem það hefði óhjákvæmilega haft í för með sér eða ganga frá samningi.“

Árangurinn af kjaradeilu lækna við ríkið má meta á ýmsa vegu. Þorbjörn segir samstöðu læknastéttarinnar hafa komið sér nokkuð á óvart.

„Þarna sýndu læknar ótvírætt að þeir geta staðið saman óháð því hvar þeir standa innan stéttarinnar því læknar skiptast í ólíka hópa eftir aldri, sérgreinum og tekjum. Hagsmunir þeirra fara alls ekki alltaf saman.Læknar eru einnig upp til hópa í eðli sínu einstaklingshyggjumenn og því ekki á vísan að róa þegar kalla á eftir samstöðu. Að sumu leyti getur þetta þvælst fyrir í félagsmálunum þegar allir halda fast við sína skoðun og eru sannfærðir um réttmæti hennar. Það kom því þægilega á óvart hversu algjör og órofin samstaðan var og þetta er líklega einsdæmi í sögu Læknafélagsins. Samstaðan skilaði okkur þessum árangri og ætti því að vera gott vegarnesti til framtíðarinnar því við munum þurfa að sækja frekari kjarabætur á næstu árum til að rétta hlut íslenskra lækna að fullu.“

Almenningur var einnig á bandi lækna í þessari baráttu sem kom kannski líka á óvart þar sem læknar hafa verið taldir hátekjuhópur í þjóðfélaginu og því takmörkuð samúð með kaupkröfum þeirra.

„Eflaust kom þar margt til en við gerðum okkur far um að vera hófstillt í allri framgöngu og lýstum ekki yfir verkfalli fyrr en í lok október eftir að hafa staðið í árangurslausum samningaviðræðum í 9 mánuði. Ég held að fólk hafi skilið sanngirni kröfu okkar að þessar samningaviðræður yrðu kláraðar. Almenningur skynjaði einnig að við gættum þess að verkfallsaðgerðir ógnuðu ekki öryggi sjúklinga og að við gengjum þar líka fram af hófsemi og ábyrgð. Verkfallsloturnar voru með hléum á milli ogþað gekk greiðlega að sækja um og fá undanþágur. En það stefndi vissulega í harðari aðgerðir núna eftir áramótin.“

Í umræðunni um kjaramál lækna og ástand íslenska heilbrigðiskerfisins í aðdraganda verkfallsins var gert talsvert mikið úr þeim kostum sem íslenskum læknum bjóðast erlendis. Gagnvart almenningi var dæminu nánast stillt þannig upp að ekki væri eingöngu verið að semja um launakjör læknanna heldur væri beinlínis verið að semja um framtíð íslenska heilbrigðiskerfisins. Ertu sammála þessu?

„Þetta var aldrei beinlínis orðað svona af okkar hálfu enda hefði mátt túlka það sem hótun. En óbreytt ástand hefði skapað veruleg vandræði í heilbrigðiskerfinu og margir læknar hafa sagt upp störfum á undanförnum mánuðum og misserum, margir hafa dregið úr vinnu sinni hérlendis og stunda vinnu á Norðurlöndunum og fjöldi íslenskra sérfræðilækna hefur ekki hug á að flytjast heim við óbreyttar aðstæður. Þetta var baraveruleikinn sem við blasti og enn er ekki bitið úr nálinni með þó binda megi vonir við að á næstu mánuðum verði viðsnúningur. Ég held að almenningur hafi ekki skynjað þetta sem hótun af okkar hálfu heldur lýsingu á ástandi sem við vildum mjög gjarnan breyta.“

Þið gættuð mikils hófs í öllum opinberum málflutningi og nefnduð aldrei prósentutölur í fjölmiðlum þó gengið væri eftir því. Andstæðingurinn, ríkisvaldið, lét hins vegar hafa ýmislegt eftir sér í þeim efnum.

„Já, við töldum einstaka liði kröfugerðarinnar ekki eiga erindi við neinn nema viðsemjendur okkar en það var ekki alveg sama viðhorf uppi hjá þeim. Í ákveðnum tilfellum var ekki hægt að túlka yfirlýsingar stjórnvalda í fjölmiðlum um kröfur okkar á annan hátt en þar væri markvisst verið að reyna að snúa almenningsálitinu gegn okkur. Það tókst ekki, enda var það meðvitað hjá okkur að svara slíku aldrei á vettvangi fjölmiðla. Við fórum hins vegar ekki í neinar grafgötur með það að við værum að fara fram á verulegar kjarabætur.“

Þið réðuð ykkur þekktan almannatengil, Gunnar Stein Pálsson, sem ráðlagði ykkur hvernig baráttan skyldi kynnt í fjölmiðlum. Telurðu það hafa hjálpað?

„Alveg tvímælalaust. Við Gunnar Steinn vorum reyndar sammála um hvernig tekið skyldi á þessu svo samstarf okkar var mjög gott. Hann ráðlagði okkur að taka ekki undir ögranir stjórnvalda í fjölmiðlum og leyfa slíkum upphrópunum að deyja út fremur en svara þeim. Enda hefði slíkt kallað á enn frekari viðbrögð og þar með væru viðræðurnar lentar á vettvangi fjölmiðlanna í stað þess að fara fram við samningaborðið, þar sem þær eiga heima. Það voru reyndar ekki allir í okkar röðum sammála þessari nálgun og vildu að við svöruðum fyrir okkur. Ég tel þó að þetta hafi reynst okkur farsælt.“Þetta vefsvæði byggir á Eplica