02. tbl. 101. árg. 2015
Umræða og fréttir
Úr penna stjórnarmanna LÍ. Divide et impera. Hildur Svavarsdóttir
Að deila og drottna (latína: divide et impera) er ákveðin stjórnunaraðferð og hernaðarlist þar sem reynt er að kljúfa fólk í mismunandi hópa og hindra að hugsanlegir andstæðingar þínir geti tengst saman og myndað stærri heild og þar með staðið sterkari saman. Þessi aðferð hefur verið óspart notuð af hernaðarsnillingum og pólitíkusum í gegnum tíðina, meðal annars af ekki ómerkari mönnum en Napóleoni og Sesari segir sagan. Þegar „best“ tekst til nægir að halla sér aftur á bak oghorfa á andstæðingana berast á banaspjót innbyrðis, stundum bókstaflega.
Þessi stjórnkænska á enn við og þarf ekki að rekja langt aftur í tímann til að sjá að þetta hefur einnig brunnið á okkur læknum. Sérstaklega þegar launakjör og önnur hagsmunamál eru í deiglunni. Hefur það oft komið viðsemjendum vel að geta att saman mismunandi sérgreinum og hópum lækna. Má þar nefna sjálfstætt starfandi læknum gegn þeim sem starfa hjá hinu opinbera, unglæknum gegn sérfræðingum og svo framvegis. Aðstæður þessara hópa geta vissulega verið afar misjafnar og hagsmunirnir virst ólíkir svo það er kannski ekki óeðlilegt að stundum verði árekstrar. Það verður því að teljast mikill sigur og fagnaðarefni fyrir stéttina að í kjaradeilunni undanfarið hafa læknar staðið saman og fylkt sér að baki samninganefndinni og stjórn Læknafélagsins. Reyndar vil ég segja forsvarsmönnum lækna í deilunni það til hróss að sérstaklega vel hefur verið vandað til alls undirbúnings og gott samstarf haft við grasrótina, meðal annars með skoðanakönnunum um óskir og forgangsröðun, auk kynningarfunda.
Auðvitað er aldrei hægt að uppfylla allar óskir ogvissulega eru atriði sem ræða þarf betur en vonandi leysast þau í framtíðinni. Þetta eru þó að mínu mati minniháttar hnökrar og það sem virðist standa upp úr í huga allra er samheldnin og samstaðan sem náðist. Ég finn einnig á kollegunum að bæði ánægja og vellíðan, auk ákveðins faglegs stolts, fylgir því að hafa náð svona mikilli samstöðu á erfiðum tímum.
Ég tel afar mikilvægt að við læknar höldum áfram að standa saman um þau mál sem brenna á okkur og skjólstæðingum okkar. Auðvitað verða alltaf skiptar skoðanir en þær má ræða málefnalega og komast að samkomulagi sem gengur upp. Við munum öll standa sterkari eftir og það mun ekki einungis koma læknastéttinni til góða heldur einnig þeim sem til okkar sækja. Þjónustan verður betri og faglegri og samfélagið í heild hagnast á því. Næg verkefni eru framundan ogmjög margt sem þarf að bæta til að byggja upp heilbrigðiskerfið. Vonandi tekst að snúa við þeirri óheillaþróun sem orðið hefur síðastliðin ár. Auðvitað er það fyrst og fremst á ábyrgð stjórnvalda að sjá til þess að landsmenn fái viðunandi heilbrigðisþjónustu en við læknar höfum aldrei skorast undan okkar ábyrgð og alltaf sinnt okkar hlutverki af fagmennsku, vandvirkni og alúð. Þar skiptir samstaða okkar lækna miklu máli. Rödd okkar er sterk ef við tölum einum rómi, vonandi nægilega sterk til þess að á sé hlustað og við náum eyrum stjórnvalda í þágu heilbrigðiskerfisins og landsmanna.