03. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Lögfræði 13. pistill. Að loknu verkfalli

Það fór svo að samningar milli samninganefndar ríkisins og lækna tókust ekki áður en ný lota verkfalla hófst hinn 5. janúar síðastliðinn. Læknafélag Íslands náði niðurstöðu í sínum kjaraviðræðum aðfaranótt 7. janúar síðastliðinn eftir tveggja daga verkfall. Réttum sólarhring síðar samdi Skurðlæknafélag Íslands svo boðuð verkföll þess hófust aldrei á nýju ári. Samhliða nýjum kjarasamningum við lækna undirrituðu LÍ og SKÍ yfirlýsingu með stjórnvöldum um framtíð heilbrigðiskerfisins. Í yfirlýsingunni er meðal annars lögð áhersla á að launakjör lækna, vinnuálag og vaktafyrirkomulag sé samkeppnisfært við nágrannalöndin að teknu tilliti til þeirrar sérstöðu sem íslenska heilbrigðiskerfið býr við. Eins og margoft kom fram í kjarabaráttunni á liðnu hausti höfðu launakjör lækna leitt til þess að almennir læknar fóru fyrr út til sérnáms, þeir snéru seinna til Íslands að loknu sérfræðinámi og sífellt fjölgaði í þeim hópi sem ekki snéri til baka. Þess er vænst að nýr kjarasamningur skapi mun betri möguleika en áður á því að læknar komi til starfa á ný hér á landi að sérfræðinámi loknu.

Kynning

LÍ kynnti nýgerðan kjarasamning á nokkrum fundum, fyrst 9. janúar á einum fjölmennasta fundi sem haldinn hefur verið í sögu félagsins. Á fimmta hundrað félagsmenn sóttu fundinn. Samningurinn var einnig kynntur á smærri fundum. Í Hlíðasmára var fundur mánudaginn 12. janúar og var sendur út á netinu. Þegar mest var fylgdust 155 með útsendingunni en auk þess voru liðlega 50 manns mættir á fundinn. Þá var efnt til fundar á Sjúkrahúsinu á Akureyri 13. janúar og á Heilbrigðisstofnun Austurlands á Egilsstöðum 14. janúar. Báðir fundirnir voru vel sóttir. Félag íslenskra heimilislækna stóð fyrir sérstökum kynningarfundi fyrir sína félagsmenn. Sama gerði Félag almennra lækna.

Kosning

Rafræn atkvæðagreiðsla um samning LÍ hófst mánudaginn 12. janúar og stóð hún til miðnættis föstudaginn 16. janúar. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar var afgerandi. Liðlega 80% þátttaka var í atkvæðagreiðslunni. Samtals 669, eða 91,1%, samþykktu kjarasamninginn, nei sögðu 49 (6,7%) og 16 (2,2%) skiluðu auðu. Hjá SKÍ varð niðurstaðan svipuð. Liðlega 92% þátttaka var í atkvæðagreiðslnni. Samtals 72, eða 85,71%, samþykktu kjarasamningin, nei sögðu 9 (10,71%) og 3 (3,57%) skiluðu auðu.

Margt í hinum nýja kjarasamningi er flókið. LÍ bauð því læknum að koma með launaseðla sína á Læknadaga sem haldnir voru 19.-23. janúar síðastliðinn. Starfsmenn félagsins fóru yfir launaseðla lækna og sögðu þeim hvernig þeir myndu raðast í nýja launatöflu. Fjölmargir læknar notfærðu sér þessa þjónustu og fór aðsóknin vaxandi eftir því sem leið á vikuna. LÍ stóð einnig fyrir málþingi um kjaramál á Læknadögum, líkt og það hefur gert síðustu tvö ár. Þar var nýr kjarasamningur ræddur á fjölmennum fundi.

Eins og fram hefur komið gildir nýr kjarasamningur frá 1. júní 2014. Fyrir lá því að leiðrétta þyrfti laun lækna sjö mánuði aftur í tímann. Þá tók ný og stærri launatafla gildi frá 1. janúar 2015. Við undirritun kjarasamningsins taldi samninganefnd ríkisins að ómögulegt yrði að leiðrétta launin og raða læknum í nýja launatöflu við launaútreikning 1. febrúar. Það tækist ekki fyrr en við launagreiðslu 1. mars. Síðar kom þó í ljós að þetta yrði mögulegt og fór svo að læknar fengu laun sín leiðrétt og greidd samkvæmt nýjum kjarasamningi hinn 1. febrúar síðastliðinn.

Leiðbeiningar hjá LÍ

LÍ tók því saman leiðbeiningar til lækna til að auðvelda þeim að skoða hvort allar launaleiðréttingar hefðu skilað sér á launaseðlinum. Einnig bauð LÍ félagsmönnum að fara yfir launaseðla til að skoða hvort réttilega hefði verið greitt. Stór hópur lækna hefur notfært sér þessa þjónustu. Skemmst er frá því að segja að vel hefur tekist til við framkvæmd hins nýja kjarasamnings og hefur hún að mestu verið hnökralaus. LÍ hefur þó fundið nokkur dæmi þess að læknum hafi ekki verið réttilega raðað í nýja launatöflu. LÍ hvetur félagsmenn, sem ekki eru vissir um hvort launum þeirra hafi réttilega verið breytt samkvæmt nýjum kjarasamningi að hafa samband við skrifstofu félagsins.

Næsti áfangi í nýjum kjarasamningi gengur í gildi 1. júní næstkomandi þegar allir læknar eiga að hækka um einn launaflokk. Á sama tíma tekur gildi þýtt kerfi viðbótarþátta sem gefur læknum möguleika á launaflokkahækkunum vegna viðbótarverkefna sem þeir taka að sér ofan á hefðbundnar daglegar vinnuskyldur. Stofnanir skulu ljúka sinni vinnu vegna þessa hinn 15. apríl næstkomandi og kynna fyrir samningsaðilum. Samninganefnd LÍ mun að sjálfsögðu fylgjast grannt með því hvernig tekst til með framkvæmd þessa sem og annarra áfanga kjarasamningsins.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica