03. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Sérgrein. Röntgenlæknar eftirsóttur starfskraftur

Félag íslenskra röntgenlækna var stofnað 6. október árið 1957 og telur nú um 40 meðlimi en röntgenlæknar starfandi erlendis eru ekki allir félagar. Hlutverk félagsins er fyrst og fremst að vera fagfélag og vettvangur félagsmanna til skoðanaskipta og þróunar fagsins. Félagið er þátttakandi í erlendu samstarfi, einkum á vettvangi Evrópusamtaka röntgenlækna og Norræna röntgenlæknafélagsins og er það samstarf okkur mjög mikilvægt.

Félagsmenn starfa víða, á Landspítala og á Sjúkrahúsinu á Akureyri, í Röntgen Domus Medica - læknisfræðilegri myndgreiningu og hjá Íslenskri myndgreiningu í Orkuhúsinu. Einnig starfa röntgenlæknar hjá Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands. Nokkur fjöldi félagsmanna er búsettur erlendis og starfar þar og einnig starfa nokkrir félagsmenn að hluta til hér á landi og að hluta til erlendis eða við fjargreiningu fyrir myndgreiningardeildir sem staðsettar eru í öðrum löndum.

Viðfangsefni félagsmanna eru margvísleg, þar ber auðvitað hæst úrlestur röntgenmynda og tölvusneiðmyndarannsókna ásamt segulómrannsóknum og túlkun ísótóparannsókna. Röntgenlæknar framkvæma ómskoðanir, ástungur til sýnatöku og jafnvel meðferðir og læknisaðgerðir, svo sem æðarannsóknir og víkkun þrengsla í æðakerfi og innæðafóðringu og einnig meðferð góðkynja og  illkynja æxla með hita eða lyfjum. Einnig sinna félagsmenn fjarmyndgreiningu innanlands þannig að stór hluti landsmanna nýtur myndgreiningarþjónustu þótt ekki séu röntgenlæknar staðsettir nema á stærri stöðum. Röntgenlæknar fara frá Landspítala austur á Selfoss og upp á Akranes hluta úr viku til að framkvæma ómskoðanir en úrlestur fer fram alla daga vikunnar. Myndgreiningu er sinnt að vissu marki af öðrum læknum en sérfræðingum í myndgreiningu og hafa þeir hlotið viðeigandi þjálfun í sérnámi sínu eða eftir að því lauk. Má þar meðal annars nefna fósturómskoðanir, rannsóknir á þvagfærum og meltingarfærum og myndatöku á kransæðum og víkkun á þrengslum í kransæðum.

Með aukinni notkun tölvutækninnar hefur starfsvettvangur röntgenlækna breyst. Röntgenlæknar eru eftirsóttur starfskraftur víða um lönd og er auðvelt að haga starfsaðstæðum eftir óskum hvers og eins, hvort sem hugurinn stendur til starfa á myndgreiningardeildum sjúkrahúsa eða á einkareknum myndgreiningardeildum hérlendis eða erlendis. Ekki er lengur nauðsynlegt að starfa í sama landi og myndgreiningarrannsóknir eru framkvæmdar, heldur er hægðarleikur að sinna fjarmyndgreiningu sitjandi heima á Fróni. Ferðalög eru einnig auðveldari og eru atvinnumöguleikar óþrjótandi, einkum á Norðurlöndum, og vel hægt að vinna hlutastarf í öðrum löndum samhliða vinnu hér eða jafnvel eingöngu. Tækifæri til endurmenntunar og símenntunar eru einnig góð og eru Íslendingar aufúsugestir í þessari sérgrein líkt og öðrum á bestu stöðum í löndunum í kringum okkur, hvort sem er í framhaldsnámi eða til viðbótarþjálfunar.

Félagsmenn sinna kennslu læknanema í Háskóla Íslands og einnig þjálfun læknanema í klínísku námi og deildarlækna í sérnámi, bæði við Landspítalann og í Röntgen Domus Medica. Eins og í öðrum fámennum stéttum eru kennslustöður fáar en til skamms tíma hafði fræðigreinin yfir að ráða prófessorsstöðu við læknadeild Háskóla Íslands. Sú staða var auglýst fyrir nokkrum árum en ráðning gekk ekki eftir, sem er bagalegt fyrir framþróun kennslugreinarinnar þar sem kennsla og rannsóknir hafa setið á hakanum vegna manneklu. Gera þarf bragarbót á og hefja fagið til þeirrar sjálfsögðu virðingar sem það nýtur í öðrum löndum.

Hlutverk röntgenlækna í greiningu og meðferð sjúkdóma ásamt eftirliti er mikilvægt. Sumar myndgreiningarrannsóknir eru túlkaðar að hluta af læknum sem hafa kallað eftir myndunum en þegar kemur að greiningu flókinna sjúkdóma og samþættingu upplýsinga og klínískra einkenna er mikilvægt að röntgenlæknir komi að vandanum. Myndgreiningarrannsóknum fjölgar ár frá ári og eru nú orðnar mikilvægari grunnur fyrir sjúkdómsgreiningu en fyrir fáum árum síðan. Nýjar aðferðir til myndgreiningar og sjúkdómsgreiningar koma stöðugt fram og verður engan veginn séð fyrir endann á þeirri þróun. Því þurfa félagsmenn ekki að óttast skort á viðfangsefnum og getur hver og einn helgað sig þeim áhugasviðum innan fagsins sem hann eða hún kýs, því verkefnin eru og verða næg. Sem röntgenlæknar erum við ekki nægilega sýnileg en við þurfum að taka virkari þátt í ákvarðanatöku og meðferð sjúklinga og vera gjarnan sýnilegri út á við og hafa þannig áhrif á stefnumótun, til dæmis með því að þrýsta á um tækjakaup og endurnýjun tækja og hvetja til þess að ný tækni í myndgreiningu verði tekin upp hér á landi.

Norræna félagið heldur norrænt þing annað hvert ár. Nú er nokkuð um liðið síðan þing var haldið síðast hér á landi, en það var árið 2002. Norrænt þing var haldið í Bergen 2013 og verður næst í Malmö í september. Árið 2017 er svo komið að Íslandi. Þingið verður haldið í Hörpu dagna 29. júní til 1. júlí og búist er við um 500 þátttakendum. Þótt norrænu þingin séu ekki stór eru þau mikilvægur vettvangur til samskipta innan fagsins og gefa tækifæri til heimsókna til hinna Norðurlandanna. Síðasta þing þótti vel heppnað og hafa áhugasamir gestir nú þegar miklar væntingar, enda sívaxandi áhugi á Íslandi og á því að sækja landið heim.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica