03. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Verðlaun á þingi Félags íslenskra lyflækna

Á XXI. þingi Félags íslenskra lyflækna sem fram fór í Reykjavík 21.-22. nóvember í haust voru að venju veitt verðlaun fyrir framúrskarandi vísindarannsókn ungs læknis og læknanema úr Verðlaunasjóði í læknisfræði sem læknarnir Árni Kristinsson og Þórður Harðarson stofnuðu. Hlutskörpust ungra lækna varð Berglind María Jóhannsdóttir, deildarlæknir við lyflækningasvið Landspítala og doktorsnemi við læknadeild Háskóla Íslands, er hlaut verðlaunin fyrir rannsókn sína á áhrifum æðakölkunar og blóðfitu á langvinnan nýrnasjúkdóm, sem hún vann undir handleiðslu Hrefnu Guðmundsdóttur nýrnalæknis. Úr röðum læknanema varð Elín Edda Sigurðardóttir, læknanemi á 5. ári, fyrir valinu fyrir rannsókn sína á áhrifum greiningar og eftirfylgni góðkynja einstofna mótefnahækkunar á lifun sjúklinga með mergæxli, sem hún vann undir leiðsögn Sigurðar Yngva Kristinssonar prófessors.


Berglind María Jóhannsdóttir læknir og Elín Edda Sigurðardóttir læknanemi með viðurkenningarskjöl
sín. Með þeim á myndinni eru Runólfur Pálsson, formaður Félags íslenskra lyflækna, Rafn Benediktsson,
formaður vísinda- og dómnefndar þingsins, og læknarnir Árni Kristinsson og Þórður Harðarson.
Mynd: ljósmyndari Landspítala, Þorkell Þorkelsson.
 Þetta vefsvæði byggir á Eplica