03. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Félag áhugamanna um sögu læknisfræðinnar 50 ára

Félag áhugamanna um sögu læknisfræðinnar var stofnað þann 18. desember 1964. Fyrsti fundurinn var haldinn í 1. kennslustofu Háskóla Íslands. Undirbúningsnefnd, sem hafði starfað að stofnun félagsins, sendi út fundarboð sem Jón Steffensen prófessor undirritaði. Fram kemur í fundargerðarbók að Læknafélag Reykjavíkur hafði frumkvæði að stofnun félagsins.

Á fundinum var Gunnlaugur Snædal skipaður fundarstjóri og Ólafur Bjarnason fundarritari. 

Jón Steffensen flutti ávarp og fór yfir tilgang og hlutverk félagsins. Hann hafði um nokkurt skeið starfað í ritstjórn tímaritsins Medicinhistorisk Årbok og Jón taldi að Ísland ætti að taka þátt í þeirri útgáfu. Þá ræddi hann um mikilvægi ýmissa heimildarita um sögu læknisfræðinnar á Íslandi og varðveislu íslenskra handrita um læknisfræðileg efni. Loks fjallaði Jón um varðveislu lækningaminja og var tíðrætt um Nesstofu í því sambandi. 

Á fundinum voru lög félagsins samþykkt en tillaga að þeim hafði verið send út með fundarboði. 

Í fyrstu stjórn félagsins voru kosnir Jón Steffensen læknir formaður, Ólafur Bjarnason læknir ritari, Birgir Einarsson apótekari gjaldkeri, og endurskoðendur Páll V.G. Kolka fyrrum héraðslæknir og Sverrir Magnússon apótekari. 

Félagið hefur æ síðan starfað af miklum krafti undir forystu Jón Steffensens, Gunnlaugs Snædals, Halldórs Baldurssonar og Atla Þórs Ólasonar auk núverandi formanns. Helsta baráttumál félagsins hefur allt frá stofnun þess verið að koma upp Lækningaminjasafni úti á Nesi. Sá draumur virtist vera að verða að veruleika en steytti á skeri og framkvæmdir stöðvuðust nokkuð skyndilega fyrir tveimur til þremur árum síðan. Húsið stendur síðan tómt og tæplega fokhelt, munúðarlaust og umkomulaust úti á Seltjarnarnesi. Það er ennþá stefnumál okkar að húsið verði notað í samræmi við fyrri áætlanir og samninga.

Félagið stóð á nýafstöðnum Læknadögum fyrir veglegri afmælisdagskrá þar sem rætt var um heilsufar og Skaftárelda 1783.

Vonandi tekst íslenskum læknum að halda áfram starfi FÁSL. Nauðsynlegt er að vera meðvitaður um söguna til að geta skilið nútímann.  


 

Stofnendur félagsins:

Jón Steffensen, Ólafur Bjarnason, Gunnlaugur Snædal, Theódór Skúlason,  Karl Sig. Jónasson, Halldór Hansen eldri, Kristján Eldjárn, Magnús Már Lárusson, Jakob Benediktsson, Þórarinn Guðnason, Ernst Daníelsson, Árni Guðmundsson, Sigurður E. Þorvaldsson,
Eggert Ó. Jóhannsson, Þórarinn Sveinsson, Birgir Einarsson, Tómas Á. Jónasson, Þórður Þórðarson, Jón Þorsteinsson, Baldur Johnsen, Bergsveinn Ólafsson, Páll Kolka, Pétur H.J. Jakobsson, Guðmundur Björnsson, Magnús Ólafsson, Stefán Bogason, Gísli Fr. Petersen, Óskar Þórðarson, Jón R. Árnason, Guðjón S. Jóhannesson, Eggert Steinþórsson, Stefán Ólafsson, Magnús Þorsteinsson, Gunnar Guðmundsson, Víkingur H. Arnórsson, Sigurður Samúelsson, Ólafur Jóhannsson, Ófeigur J. Ófeigsson, Stefán P. Björnsson, María Hallgrímsdóttir, Örn Bjarnason, Bjarni Bjarnason, Niels Dungal, Bjarni Kornráðsson, Einar Ólafur Sveinsson, Sverrir Magnússon, Jón Sigtryggsson, Snorri Hallgrímsson. Þetta vefsvæði byggir á Eplica