03. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. „Vér mótmælum allir!" Tinna H. Arnardóttir

Svo hljóðuðu orðin er mælt voru á þjóðfundi sem danska ríkisstjórnin boðaði til í Reykjavík þann 9. ágúst árið 1851. Stjórnin hafði lagt fram frumvarp um nýja stjórnskipun þar sem réttur Íslendinga virtist vera nær enginn og lítið tillit tekið til óska þeirra. Hinir íslensku fulltrúar lögðu fram annað frumvarp og er konungsfulltrúa líkaði það ekki leysti hann fundinn upp í nafni konungs. Er fundi var slitið mótmælti Jón Sigurðsson lögleysu fulltrúa Danakonungs en flestir fundarmenn risu úr sætum og mæltu nálega einum rómi: ,,Vér mótmælum allir!“

Þessum sögufrægu orðum skaut upp í kollinn á mér þegar kjarabarátta lækna var nýafstaðin, einkum vegna þeirrar algjöru og órofnu samstöðu sem myndaðist. Slík samstaða verður að teljast einstök þegar um ræðir eins stóran og misleitan hóp fagmanna í eins afdrifaríkum aðgerðum og verkfall er. Sérstaklega í ljósi þess að í fyrsta sinn í Íslandssögunni kaus læknastéttin að nýta þann takmarkaða verkfallsrétt sem verið hefur til staðar í hartnær 30 ár. Margir læknar hafa verið með öllu andvígir hugmyndinni um verkfall, enda bryti það í bága við svarinn eið um að skjólstæðingurinn kæmi ofar öllu. Hins vegar risu menn úr sætum nú og mótmæltu flestir einum rómi. Samstaðan var jafnvel enn viðameiri. Stærstur hluti landsmanna stóð með læknastéttinni sem kom læknum og líklega ráðamönnum nokkuð í opna skjöldu. Hvað olli þessu?

Líklega er svarið margþætt. Ef til vill var þolinmæði lækna þrotin eða fólki blöskraði aðgerðar- og áhugaleysi stjórnvalda til samningsgerðar. Var óánægjan með kjörin kannski aðaldrifkrafturinn? Læknar hafa verið seinþreyttir til vandræða og þrátt fyrir mikla óánægju með kjör í gegnum tíðina hefur ekki áður komið til greina að fara í verkfall. Kjör lækna á Íslandi hafa aldrei verið upp á marga fiska ef marka má skrif lækna síðustu ár, áratugi og árhundruð, svo svarið er eflaust ekki svo einfalt. Líklega vógu staðreyndirnar um spekileka og manneklu víða þungt. Voru það raunverulega áhyggjur lækna af framtíð heilbrigðiskerfisins sem gerðu útslagið? Vel vandaður undirbúningur átti eflaust sinn þátt í samstöðunni, bæði fyrir kröfugerðina og útfærslu verkfallsins, en öryggi skjólstæðinga þótti lítt ógnað. Vönduð umfjöllun í fjölmiðlum gegndi í mínum huga tvímælalaust veigamiklu hlutverki í fenginni samstöðu meðal læknastéttarinnar sem og í stuðningi almennings en upplýsingaflæði um spekileka og ástand heilbrigðiskerfisins skilaði sér í trú manna að hér yrði að spyrna við fótum áður en illa færi. Fólk sá verkfall lækna sem ábyrgðarfyllri kost en ófullnægjandi samningar og þannig hafi jafnvel þeir sem gátu áður ekki hugsað sér að fara í verkfall, kosið með verkfallsaðgerðunum. Fulltrúar okkar komu í hvívetna fram af aðdáunarverðri fagmennsku og yfirvegun, án þess þó að draga úr alvarleika ástandsins. Greinaskrif og umfjöllun í fjölmiðlum var almennt vönduð, upplýsandi og fagmannleg og þetta skilaði sér ótvírætt í þeim meðbyr sem læknar fundu fyrir af hálfu þjóðarinnar. Þjóðfélagið virtist vel upplýst um ástand heilbrigðismála og mannekluvandamál og vera meðvitað um launamál lækna og þá yfirvinnutíma sem lágu að baki heildartölum. Upphrópanir í fjölmiðlum um prósentutölur virtust ekki ná tilætluðum árangri og þótti mönnum ljóst að þar væri verið að reyna að slá ryki í augu fólks. Raddir sem bölvuðu verkfalli lækna voru fáheyrðar. Þvert á móti virtist fólk sýna aðgerðunum fullan skilning en hváði yfir aðgerðarleysi stjórnvalda. Samstaðan var einstök, ekki aðeins meðal lækna heldur meðal þjóðarinnar allrar. Að lokum er hugsanlegt að tiltölulega nýtilkominn samfélagsmiðill á vefnum hafi haft sitt að segja þar sem lokaður hópur lækna nær og fjær gat fylgst með framvindu og lagt til málanna.

Hvað sem olli hélst samstaðan órofin þar til samningar voru undirritaðir og læknar hafa nú sýnt ráðamönnum þjóðarinnar að þeir geta staðið saman og myndað sterka heild. Stjórnvöld urðu þess áskynja að vilji þjóðarinnar væri að heilbrigðismál yrðu sett í forgang og að koma þyrfti til móts við kröfur lækna. Stuðningur almennings vóg þungt í þrýstingi á stjórnvöld og hugsanlega varð vendipunktur í samningaviðræðum þegar stjórnvöld áttuðu sig á því að bæði væri samstaða lækna sterk og vilji þjóðarinnar skýr.

Stórt skref hefur verið tekið í kjarabaráttu lækna sem vonandi markar fyrsta skrefið í átt að viðreisn heilbrigðiskerfisins. Verkefnin eru enn mörg og aðkallandi og því er mikilvægt að við sofnum ekki á verðinum. Viðhöldum þéttri samstöðu og höldum áfram að vera sýnileg í fjölmiðlum á faglegan og uppbyggilegan hátt. Barátta okkar hefur skilað auknum fjármunum í heilbrigðiskerfið og yfirlýsing um uppbyggingu heilbrigðiskerfisins hefur verið undirrituð.

Ef svo fer sem horfir getur undirrituð vel hugsað sér að flytja aftur heim að sérnámi loknu, og er það í fyrsta sinn.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica