03. tbl. 101. árg. 2015
Umræða og fréttir
Sumir í sumarbústað
Frestur til að sækja um vikudvöl í sumar í orlofshúsum Læknafélags Íslands rennur út 20. apríl. Bókunarvefur orlofssjóðs er inni á lis.is og þar eru allar frekari upplýsingar. Árið um kring er hægt að nýta þá orlofskosti sem í boði eru og bóka þá jafnharðan.
Þrennt nýtt er á döfinni fyrir sumarið:
Í fyrsta lagi hús í Svignaskarði sem orlofssjóður er að reisa og verður tekið í gagnið með vorinu. Það verður þá fjórða húsið sem sjóðurinn á uppi í Borgarfirði. Húsið er eins og nýju húsin í Brekkuskógi, bara ögn rýmra.
Í öðru lagi verður leigður nýr bústaður í Úlfsstaðaskógi á Héraði, 55 fm hús með góðu svefnlofti. Í miðju gamla Austurlandskjördæmi er allt til alls, hreindýr, fuglar, fiskar og meira að segja ormur í Lagarfljóti, og tekur enga stund að renna niður á firði í góð söfn, til dæmis stríðsminjasafn á Reyðarfirði.
Og í þriðja lagi leigir félagið tveggja hæða hús, Hjallaveg 16, á Suðureyri við Súgandafjörð. Húsið er í hjarta bæjarins og rúmar 12 manns í gistingu. Suðureyri er vistvænt þorp og þaðan er skammt í allar höfuðáttir: á fengsæl mið, í Galtarvita, í Melrakkasetur Íslands í Súðavík og í Simbahöllina á Þingeyri.