01. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Frá öldungadeild LÍ. Afmælishátíð Læknafélags Reykjavíkur 1929. Páll Ásmundsson

Jón Sigurðsson svæfingalæknir sendi öldungasíðunni þessar skemmtilegu myndir en þær eru úr fórum afa hans, Jóns Kristjánssonar læknis (1881-1937).

Læknafélag Reykjavíkur var stofnað 18. október 1909. Eftirtaldir 9 læknar voru stofnendur: Guðmundur Björnsson, Guðmundur Hannesson, Guðmundur Magnússon, Jón Rósenkranz, Júlíus Halldórsson, Matthías Einarsson, Sigurður Magnússon, Sæmundur Bjarnhéðinsson og Þórður Thoroddsen. Fyrsti formaður félagsins var Guðmundur Magnússon 1909-1911 og einnig 1915-16.

Haustið 1929 var efnt til samsætis í tilefni af 20 ára afmæli félagsins. Fjölrituð var vegleg dagskrá fyrir samsætið. Í henni var að finna matseðil á frönsku og lagaskrá tónleika er gestir nutu. Síðast en ekki síst voru í skránni skopmyndir af 11 læknum. Af þeim voru 8 formenn, þar af þrír stofnendur félagsins. Auk formanna voru myndir af þremur stofnendum. Ekki eru myndir af þremur látnum stofnendum: Guðmundi Magnússyni, Jóni Rósenkranz og Júlíusi Halldórssyni (allir látnir 1924) og af Andrési Fjeldsted formanni 1918-19 sem lést 1923. Nöfn Guðmundar Björnssonar landlæknis á forsíðu, Sigurðar Magnússonar og Þórðar Thoroddsen eru „upplýstar ágiskanir“.

Myndirnar teiknaði hinn vinsæli skopteiknari Tryggvi Magnússon sem þekktastur var fyrir myndir sínar í Speglinum. Hin kunna „kínverska“ undirskrift hans er á myndunum.

Myndunum fylgja vísur eða máltæki. Ekki sést hver orti vísurnar. Mynd og vísa á forsíðu tengist sennilega umdeildri ráðningu Sigvalda Kaldalóns í Keflavíkurhérað um þessar mundir.  Þetta vefsvæði byggir á Eplica