01. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Starfsmannastjórar teknir á beinið

Elsa B. Friðfinnsdóttir hjúkrunarfræðingur er mannauðsstjóri Sjúkrahúss Akureyrar

Hvað sinnir Sjúkrahús Akureyrar mörgum sjúklingum á ári?

Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk) sinnir árlega um 5800 inniliggjandi sjúklingum og um 4800 dagsjúklingum. Rúmlega 16.000 komur eru á slysa- og bráðamóttöku.

Hvert er þjónustusvæði sjúkrahússins? Hver er íbúafjöldi?

Þjónustusvæði sjúkrahússins nær frá Blönduósi og að Neskaupstað. Íbúafjöldi upptökusvæðisins er um 35.000 manns.

Hvað starfa margir á sjúkrahúsinu?

Starfsmenn sjúkrahússins eru um 580 í um 450 stöðugildum. Til gamans má geta þess að meðallífaldur starfsmanna var 47,4 ár í lok árs 2013. Konur eru 86% starfsmanna og karlar 14%. Starfsmannavelta árið 2013 var aðeins 5,4% þannig að hollusta við sjúkrahúsið er mikil.

Hver eru markmið og gildi sjúkrahússins? Til dæmis hvað varðar starfsumhverfi og einnig gagnvart sjúklingum?

Unnið er eftir gildunum þremur: Öryggi – samvinna – framsækni.

Í samræmi við framtíðarsýn sjúkrahússins er unnið að því að þjónusta við sjúklinga sé til fyrirmyndar, biðtími sé stuttur og sjúklingar ánægðir. Einnig að sjúklingar séu upplýstir og taki virkan þátt í ákvörðunum um eigin meðferð. Þá er unnið ötullega að því að sjúkrahúsið sé framsækinn og eftirsóknarverður vinnustaður þar sem umhverfi til rannsókna og þróunar er hvetjandi og öflugur vísindasjóður er til staðar.

Hver eru helstu verkefni sjúkrahússins?

Að veita sérhæfða sérfræðiþjónustu á Norður- og Austurlandi. SAk er kennslusjúkrahús fyrir nemendur í heilbrigðisfræðum. Þá sinnir sjúkrahúsið einnig læknisþjónustu við sjúkraflug.

Hvað starfa margir nemar á sjúkrahúsinu hverju sinni?

Um það bil 13-14 nemar eru hér í viku hverri á ársgrundvelli og er aukning á hverju ári. Eins og áður sagði eru þetta nemendur í flestum greinum heilbrigðisfræða.

Er þörf á enn fjölbreyttari heilbrigðisþjónustu?

Mikilvægast er að styrkja þá þjónustu sem þegar er til staðar en einnig að vera vakandi fyrir því að mæta þörfum samfélagsins. Þar má til dæmis nefna að koma á fót blóðskilun og að fjölga augnaðgerðum og aðgerðum vegna kvensjúkdóma.

Er vöntun á mannauði? Á hvaða sviðum helst?

Skortur á sérfræðilæknum er vaxandi vandamál. Þar má nefna almennar skurðlækningar, bæklunarskurðlækningar, barnalækningar, geðlækningar og almennar lyflækningar. Yfirstandandi  kjaradeilur lækna virðast einnig ætla að hafa áhrif á mönnun unglækna. Þá er farið að bera á skorti á sérhæfðum hjúkrunarfræðingum.

Hvað hefur stofnunin yfir mörgum sjúkrabílum að ráða og hvað óku þeir marga km árið 2013?

Engir sjúkrabílar eru á vegum sjúkrahússins. Slökkvilið Akureyrar rekur þjónustu sjúkraflutninga fyrir hönd Akureyrarbæjar.

Hvað tóku ljósmæður ykkar á móti mörgum börnum árið 2013?

Á SAk fæddust 409 börn í 404 fæðingum árið 2013. Líklegt er að fæðingar verði um 430 á árinu 2014.

Hversu mörg sjúkraflug eru farin frá sjúkrahúsinu?

Árið 2013 voru farin 475 sjúkraflug en það stefnir í að þau verði að minnsta kosti 100 fleiri árið 2014.           

Hver er framtíðarsýn Sjúkrahúss Akureyrar?

Framtíðarsýnin felst í því að Sjúkrahúsið á Akureyri er miðstöð sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu á Norður- og Austurlandi auk þess sem stefnt er að því að starfsemin hér verði alþjóðlega vottuð árið 2017.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica