01. tbl. 101. árg. 2015

Umræða og fréttir

Minnisvafi og falskar játningar

Fá eða engin sakamál hafa fengið viðlíka athygli meðal þjóðarinnar og Guðmundar- og Geirfinnsmálin. Rannsókn þeirra stóð í nokkur ár, en Guðmundur Einarsson hvarf í janúar 1974 og og Geirfinnur Einarsson í nóvember sama ár. Lokaniðurstaða fékkst með dómi Hæstaréttar árið 1980 er sex manns voru sakfelld. Fyrir morð á Guðmundi Einarssyni hlutu dóm Sævar Marinó Ciesielski, Kristján Viðar Viðarsson, Tryggvi Rúnar Leifsson og Albert Klahn Skaftason. Fyrir morð á Geirfinni Einarssyni hlutu dóm Sævar, Kristján Viðar, Guðjón Skarphéðinsson og Erla Bolladóttir. Strax meðan á rannsóknunum stóð og allar götur síðan hefur verið rætt um að margt hafi misfarist, saklausir einstaklingar drógust inn í þær, og allt frá dómsniðurstöðu hefur sá grunur leynst með þjóðinni að saklaust fólk hafi verið dæmt.


Lögreglumennirnir virðast ekki hafa gert sér neina grein fyrir því hvað það er sem ræður því
að einangrunarfangar játa eða neita sök og þarna voru gerð grundvallarmistök," segir prófessor
Jón Friðrik Sigurðsson um rannsókn Guðmundar- og Geirfinnsmálanna.

Þetta varð til þess að árið 2011 tók þáverandi innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, þá ákvörðun að skipa starfshóp er fara skyldi yfir málin í heild sinni en sérstaklega þá þætti er snertu rannsókn málanna og framkvæmd þeirra á sínum tíma. Starfshópnum var jafnframt falið að taka til athugunar þau gögn sem komið hafa fram á síðustu árum. Starfshópinn skipuðu Arndís Soffía Sigurðardóttir, lögfræðingur og lögreglumaður, formaður hópsins. Haraldur Steinþórsson lögfræðingur og Jón Friðrik Sigurðsson prófessor. Með starfshópnum starfaði Gísli H. Guðjónsson prófessor og Valgerður María Sigurðardóttir lögfræðingur hjá innanríkisráðuneytinu.

Skýrsla starfshópsins, sem er mjög ítarleg uppá tæpar 500 blaðsíður, hefur legið fyrir frá því mars 2013 og kemur á óvart hversu litla umræðu hún hefur vakið, en viðmælandi Læknablaðsins, prófessor Jón Friðrik Sigurðsson, segir frekar lítið hafa verið fjallað um skýrsluna opinberlega. „Einhverjir lýstu ánægju með hana en gagnrýnisraddir hafa ekki komið fram,“ segir hann.

Mun umfangsmeira en búist var við

Að sögn Jóns Friðriks var upphaflega gert ráð fyrir að verkefnið yrði nokkurra mánaða vinna fyrir starfshópinn, en það kom fljótt í ljós að gögnin voru ekki aðgengileg og mikil vinna fór í að afla upplýsinga um hvar þau væri að finna, fá leyfi til að skoða þau, safna þeim saman og greina. „Allir brugðust á endanum mjög vel við og við fengum aðgang að öllum skjölum sem við óskuðum eftir, en það tók langan tíma og þetta var mikið magn af gögnum. Við þurftum að leita víða og sumt fannst ekki, eins og til dæmis minnispunktar lögreglumanna sem yfirheyrðu sakborningana á sínum tíma. Lögregluskýrslur voru ekki alltaf skrifaðar eftir hverja yfirheyrslu, heldur að loknum yfirheyrslum, jafnvel eftir nokkra daga, en við göngum útfrá því að minnispunktar hafi verið skrifaðir. Á þessum tíma voru hljóðbönd ekki notuð við yfirheyrslur. Meðal gagna í málunum voru geðheilbrigðisskýrslur sem gerðar voru af geðlæknum um fimm sakborninganna á meðan þeir voru vistaðir í gæsluvarðhaldi. Þær komu að góðu gagni við mat á sálrænu ástandi sakborninganna og áreiðanleika framburðar þeirra.”

Jón Friðrik leggur áherslu á að í öllum gögnum málsins sé tilfinnanlegur skortur á yfirheyrsluskýrslum, „Við vitum af öðrum gögnum að yfirheyrslur stóðu oft klukkutímum saman, stundum á nóttunni og stundum var farið með þau út úr húsi til að skoða einhverja staði sem sakborningar höfðu nefnt. Skýrslur um margar þessara yfirheyrslna og vettvangsferða finnast hvergi og engir minnispunktar heldur. Við höfum hins vegar engar vísbendingar um að reynt hafi verið að eyða gögnum af ásettu ráði. Þetta er kannski fremur til marks um hversu illa var staðið að rannsókninni og svo kannski í framhaldinu hversu skjalavörslu var ábótavant. Okkur var vísað fram og til baka í leit að gögnum og stundum vissi enginn hvar tiltekin gögn voru geymd. Skráningu gagna nokkra áratugi aftur í tímann er verulega áfátt svo ekki sé meira sagt. Jafnvel gögn í svo þekktu máli voru ekki skráð nema að hluta og þess vegna var vinna okkar miklu tímafrekari en við áætluðum í upphafi því það fór langur tími í safna gögnunum og skrá þau.”

En það voru ekki bara skjalleg gögn sem starfshópurinn notaði, „Við ræddum við alla sakborningana sem eru á lífi og einnig við nokkra rannsakendur málsins. Það kom okkur að sumu leyti á óvart að flestir rannsakendanna voru tilbúnir að ræða við okkur því við höfðum engar heimildir til að boða þá í viðtöl. Allir komu af fúsum og frjálsum vilja. Sumir þeirra höfðu ennþá mjög ákveðnar skoðanir á rannsókn málanna og lokaniðurstöðu og sumir þeirra greinilega mjög ósammála niðurstöðu okkar eins og hún liggur nú fyrir. Þeir voru sumir ennþá sannfærðir um þessir einstaklingar hefðu verið sekir og að ekkert benti til annars. Við ræddum einnig við fyrrum fangaverði Síðumúlafangelsisins þar sem sakborningarnir voru hafðir í einangrun mánuðum saman.“

Allir þeir rannsakendur og fangaverðir er komu til viðtals við starfshópinn gáfu mikilvægar upplýsingar og sumir þeirra staðfestu margt af því sem kom fram í gögnum málanna. Jón Friðrik nefnir sem dæmi staðfestingu á ýmsu sem Sævar skrifaði um einangrunarvistina í Síðumúlafangelsinu er hann var vistaður í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg árið 1977. „Sumt af því sem hann skrifaði er mjög reyfarakennt og ekki í samræmi við hugmyndir okkar um fangavist í íslenskum fangelsum. Með því að bera saman dagbækur fangelsisins og minnispunkta Sævars áttuðum við okkur á því að þetta voru trúverðugar lýsingar sem voru síðan staðfestar í ákveðnum atriðum af fangavörðum. Það eru því miklar líkur á því að Sævar hafi sagt satt og rétt frá. Athuganir starfshópsins staðfestu því sumar af lýsingum Sævars og sem dæmi má nefna lýsti Sævar því að um tíma hefði ljós verið látið loga stöðugt, allan sólarhringinn, í fangaklefanum í Síðumúla. Einn af fangavörðunum staðfesti í viðtali við okkur að þetta væri rétt, hann hefði verið beðinn um að taka slökkvarann í klefanum úr sambandi.”

Aðspurður um að sakborningar hafi verið beittir líkamlegu ofbeldi sagði Jón Friðrik, „Við vitum ekki til þess að lögreglumennirnir hafi beitt sakborningana ofbeldi. Harðræðisskýrslan svokallaða lýsir hins vegar ofbeldi einstaka fangavarða gagnvart sakborningum en þó verður að halda því til haga að samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar er einungis viðurkennt eitt slíkt tilfelli þar sem yfirfangavörður Síðumúlafangelsisins sló Sævar utanundir við yfirheyrslur. Það kemur líka fram af lestri fangelsisdagbókanna að fangaverðir Síðumúlafangelsisins, og þá sérstaklega yfirfangavörðurinn, voru beinlínis þátttakendur í rannsókn málanna, en dagbækur Síðumúlafangelsisins eru mjög góð heimild um hvernig staðið var að rannsókninni. Slíkt væri talið mjög alvarlegt brot á verkaskiptingu lögreglumanna og fangavarða í dag.“

Minnisvafaheilkennið og falskar játningar

Eins og kunnugt er skrifuðu tveir sakborninganna, Guðjón Skarphéðinsson og Tryggvi Rúnar Leifsson, dagbækur í einangrunarvistinni í Síðumúlafangelsinu, sem Jón Friðrik segir að hafi komið að góðum notum við rannsókn starfshópsins. „Sannleiksgildi þeirra er hægt að staðfesta með samanburði við dagbækur fangelsins. Þeir skrifuðu gjarnan í dagbækurnar hver heimsótti þá í klefann, lögreglumenn, prestar, lögfræðingar og hvað var að gerast í rannsókn málanna. Þetta er hægt að staðfesta með samanburði og er nánast undantekningarlaust rétt. Það er því varla hægt að draga í efa að dagbækurnar voru skrifaðar á þessum tíma en ekki eftir á. Það var mjög fróðlegt að skoða dagbók Guðjóns, en af henni höfðum við hvað mest gagn varðandi niðurstöðu okkar, því hann lýsir því einstaklega vel hvernig hann sannfærir sjálfan sig smám saman um að hann hafi framið glæp sem hann man ekkert eftir að hafa framið. Í upphafi furðaði hann sig á því hvers vegna hann dróst inn í þetta mál en smátt og smátt, eftir því sem leið á einangrunina og yfirheyrslunum fjölgaði, velti hann því fyrir sér hvers vegna hann mundi ekkert eftir því að hafa framið glæpinn. Við tökum mjög skýra og afdráttarlausa afstöðu til játningar Guðjóns og teljum hana ótvírætt falska. Við höfum hins vegar ekki alveg jafn skýra mynd af hugarástandi og afstöðu hinna sakborninganna. Við getum rökstutt að játningar þeirra hafi verið óáreiðanlegar en göngum skrefinu lengra varðandi játningu Guðjóns.”

Um játningarnar almennt segir Jón Friðrik: „Strangt til tekið er varla hægt að kalla þetta játningar. Sakborningarnir samþykktu tilgátur lögreglumannanna og reyndu að fylla út í eyður sem þeir stilltu upp. Þau voru leidd áfram af mönnum sem töldu engan vafa leika á sekt þeirra og langvarandi einangrun olli því að þau misstu tengsl við raunveruleikann, vantreystu minni sínu og féllust smátt og smátt á að hafa tekið þátt í atburðarás sem þau höfðu engar minningar um. Það verður líka að hafa í huga að þessir krakkar voru sum hver í töluverðri vímuefnaneyslu og voru því tilbúnari en ella til að vantreysta minni sínu. Það eru sterkar vísbendingar um að fimm sakborninganna vantreystu minni sínu við yfirheyrslurnar og er þetta eitt meginatriði sálfræðilegu niðurstöðu skýrslunnar, hvernig sumir sakborningarnir í málinu sannfærðust smátt og smátt um að hafa framið glæp sem þeir mundu ekkert eftir að hafa framið. Þetta er ástand sem Gísli Guðjónsson og fyrrum samstarfsmaður hans, geðlæknirinn Jim MacKeith, lýstu árið 1981 og nefnist minnisvafaheilkennið (memory distrust syndrome). Minnisvafaheilkenni er ástand þar sem fólk fer að vantreysta verulega eigin minni. Þetta hefur þær afleiðingar að það veldur mikilli hættu á að það reiði sig á ytri áreiti og það sem er gefið í skyn, til dæmis við yfirheyrslur. Þetta getur komið til þegar lögregla grefur undan minningum sakborningsins svo sem um hvar hann var niðurkominn þegar hinn saknæmi atburður átti sér stað og sakborningurinn kemst á þá skoðun að hann hafi hugsanlega gerst brotlegur án þess að muna eftir því.”

Jón Friðrik segir að Sævar hafi verið sá eini sem þetta átti ekki við um, en engar vísbendingar eru um að minnisvafi hafi hrjáð hann. Hann virtist ekki bera traust til lögreglumannanna og sýndi mikla mótstöðu við yfirheyrslurnar og hélt fram sakleysi sínu allt til dauðadags, en hann lést af slysförum 14. júlí 2011.

Rörsýn og tengsl rannsakenda og sakborninga

Fram kemur í skýrslunni að sumir rannsakenda málsins höfðu persónuleg tengsl við sakborningana, eða eins og Jón Friðrik segir: „Tengsl lögreglumannanna sem rannsökuðu málið við sakborninga voru í sumum tilfellum mjög persónuleg og náin og til þess fallin að ýta undir sannfæringu þeirra um sekt. Það á sérstaklega við um þau Guðjón og Erlu. Guðjón lýsir því hvernig lögreglumaðurinn sem hafði mest samskipti við hann hafi vingast við hann með því að færa honum blöð og ræða við hann um áhugamál eins og skák en þess á milli yfirheyrt hann, og smátt og smátt sannfært hann um sekt. Lögreglumennirnir virðast ekki hafa gert sér grein fyrir því hvaða áhrif þetta gat haft á sakborningana eða almennt hvað það er sem ræður því að einangrunarfangar játa eða neita sök. Þarna voru gerð grundvallarmistök. Mönnum til málsbóta má segja að á þessum tíma hafi hreinlega ekki verið vitað betur og svo er nokkuð ljóst af gögnum málanna að rannsakendur málsins voru algjörlega sannfærðir um sekt sakborninganna og því var einungis spurning um að fá fram játningar þeirra. Þetta er í rauninni rauði þráðurinn þegar málið er skoðað frá upphafi til enda,“ segir Jón Friðrik.

„Þessi rörsýn rannsakendanna er nokkuð sérstök þar sem líkin fundust ekki og enginn brotavettvangur var til staðar. Þetta skýrir síðan margt í rannsókn málsins og hvernig hún var unnin. Sakborningarnir voru missaga frá upphafi og af því hefði mátt draga vissar ályktanir, en rannsakendur töldu það benda eindregið til þess að þau væru að reyna að villa um fyrir þeim. Hvernig það gat gerst að einstaklingar sem voru hafðir í einangrun gætu talað sig saman um að rugla lögregluna í ríminu er spurning sem virðist ekki hafa hvarflað að rannsakendum. Aldrei virðist hafa verið spurt hvort gæti verið önnur ástæða fyrir því að sakborningum bar aldrei saman. Þetta er hin gegnumgangandi rörsýn sem einkennir alla rannsóknina. Sakborningarnir vísuðu aldrei á líkin, sennilega vegna þess að þau höfðu ekki hugmynd um hvar þau voru niðurkomin en sumir lögreglumennirnir voru sannfærðir um að þau vissu mætavel hvar þau væru. Einn lögreglumaður sem við ræddum við sagði líkin vera á botni Þingvallavatns og ástæðan fyrir því að þau hefðu ekki vísað á staðinn væri sú að þar væru svo mörg önnur lík sem þau hefðu komið fyrir.“

Það er einnig einsdæmi í réttarsögunni hvað sakborningar voru hafðir lengi í einangrun. „Í tilfellum Sævars og Kristjáns Viðars náði þetta rúmlega einu og hálfu ári. Kristján Viðar var vistaður í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg í 133 daga vegna sjálfsvígstilraunar og þar var hann í opnum klefa andspænis öðrum opnum klefa þar sem sátu lögreglumenn allan sólarhringinn. Þeim var bannað að hafa samskipti við hann.”

Áfellisdómur um rannsóknina

Í skýrslu starfshópsins kemur fram að margt við rannsóknir málanna dró úr áreiðanleika framburðar sakborninganna, svo sem lengd einangrunarvistar og tíðar og langar yfirheyrslur og óformleg samskipti rannsakenda og sakborninga, fjöldi vettvangsferða og samprófana, takmörkuð aðstoð sem sakborningarnir fengu frá lögmönnum, ótti þeirra við að gæsluvarðhaldið yrði framlengt ef lögreglumennirnir væru ekki sáttir við framburð þeirra.

Jón Friðrik segir að fella megi dóm um rannsóknirnar og yfirheyrslurnar, byggðan á skýrslum rannsakenda, færslum í dagbókum Síðumúlafangelsisins, dagbókum tveggja sakborninganna, viðtölum við þá sem á lífi eru og fleiri gögnum. „Yfirheyrslurnar hafi verið þvingandi og beinst að því að knýja fram játningar. Í tilfelli Erlu var hún nýlega búin að eignast barn þegar hún var sett í einangrun og framburður hennar skýrist að verulegu leyti af örvæntingarfullri þörf hennar til að losna úr einangruninni og vera hjá barninu sínu. Það kemur hins vegar hvergi fram að rannsakendur hafi haft skilning á þessu. Framburður hennar hafði hins vegar afgerandi áhrif á framgang málanna beggja.“

Í niðurstöðum sínum bendir starfshópurinn á þrjár leiðir til að sakborningar fái notið réttlætis þó langt sé um liðið og Sævar og Tryggvi látnir. „Í fyrsta lagi að ríkissaksóknari mæli með endurupptöku málanna í heild sinni til hagsbóta fyrir þau sem sakfelld voru. Í öðru lagi geti eftirlifandi sakborningar farið fram á endurupptöku málsins og virðist það vera sú lausn sem valin hefur verið og settur ríkissaksóknari, Davíð Þór Björgvinsson, er fara yfir beiðnir Erlu og Guðjóns. Í þriðja lagi geti Alþingi sett lög sem mæli fyrir um endurupptöku, en það er sísti kosturinn að okkar mati,” segir Jón Friðrik Sigurðsson að lokum.Þetta vefsvæði byggir á Eplica