01. tbl. 101. árg. 2015

Ritstjórnargrein

Sérhæfð læknisþjónusta - ölmusa eða öryggi til framtíðar?

Ólafur Baldursson lungnalæknir‚ framkvæmdastjóri lækninga Landspítala

doi: 10.17992/lbl.2015.01.04

Þessi orð eru rituð rétt fyrir jól. Enn hefur ekki tekist  að komast að samkomulagi um laun lækna, þrátt fyrir að brátt sé liðið ár frá því að samningar urðu lausir. Það er alltof langur tími í máli sem þessu, þó svo að það sé skiljanlegt að það taki málsaðila tíma að ráða fram úr svo flóknu máli. Sjaldan veldur einn er tveir deila, og vonandi hafa lesendur getað fagnað því að deilan sé leyst og samkomulag í höfn.

Það er illt að svo mikilvægt mál sem nauðsynleg læknisþjónusta í landinu sé ár hvert í óvissu vegna fjármögnunar. Föst fjárlög sem ekki taka mið af þjónustuþörf, sem jafnan vex í takt við fjölgun aldraðra og misalvarlega flensufaraldra ár hvert, henta hér illa. Öll viljum við standa vörð um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Það er vart umdeilt að sú þjónusta er ein helsta forsenda farsældar í landinu enda einn þeirra þátta sem ráða mestu um hvar landsmenn vilja búa. Þetta er flókið langtímaverkefni en okkur Íslendingum hefur oft gengið illa að tryggja viðgang slíkra verkefna. Rétt er að hafa hugfast að langt er um liðið frá því læknar tóku að sækja framhaldsnám til bestu sjúkrastofnana og háskóla erlendis og ruddu þannig braut þeirrar sérhæfðu læknisþjónustu sem við búum enn við. Þökk sé þeim sem riðu á vaðið á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar, og jafnvel fyrr, og þeim sem hafa haldið kyndlinum á lofti síðan þá. Þeir eru margir og ólíkir læknarnir sem hafa gert þetta í áratugi, en eitt eiga þeir sameiginlegt: þeir hafa engan stuðning fengið frá íslenskum yfirvöldum í sérnámi sínu (4-8 ár), námi sem er dýrara og oft álíka langt og sjálft grunnnámið (6 ár). Oft og margsinnis hafa íslensk stjórnvöld verið hvött til þess að gefa þessum málum gaum, með takmörkuðum árangri, og oft hafa læknar gefið vinnuframlag sitt til þess að efla lög og reglur um nám og framhaldsnám lækna. Sem betur fer virðist loks hilla undir að sú vinna skili árangri í endurskoðaðri reglugerð um sérfræðileyfi. En meira þarf til að öryggi í rekstri þessara mála sé tryggt til framtíðar.

Yfirvöld þurfa að gefa til kynna með afgerandi hætti, sýna í verki í raun hvort ætlunin sé að reka hér örugga sérhæfða læknisþjónustu eður ei. Slík þjónusta verður ekki rekin án lækna. Á Landspítala eru starfræktar um 40 sérgreinar í læknisfræði, allt frá greinum á borð við meinafræði og sýklafræði, sem standa mjög nærri grunnvísindarannsóknum, til stórra klínískra þjónustugreina, svo sem hjarta-, lungna-, krabbameins-, gjörgæslu-, geð-, barna- og kvenlækninga, svo fátt eitt sé nefnt. Það tekur langan tíma að byggja upp slíka þjónustu og hún er viðkvæm þar sem margar greinarnar eru tæpt mannaðar og mann-aflinn vel samkeppnisfær á alþjóðlegum vettvangi. Í fámennum sérgreinum þar sem fjórir standa vaktir þarf ekki annað til en að einn til tveir hætti, þá er starfsemin í uppnámi. Það vantar sárlega markvissa stefnu yfirvalda varðandi stjórn og rekstur læknisþjónustu á landsvísu. Samkeppni ríkisstjórna undanfarinna 30 ára um botnsætið í þessu efni er eitilhörð, og hallar þar á engan. Yfirvöld hafa nær alla tíð nálgast þetta verkefni hikandi og fálmandi. Engan þarf því að undra að sú óvissuferð hafi leitt okkur á þá títtnefndu bjargbrún sem heilbrigðiskerfið hékk á um hríð, og nú síðast á nöglunum einum, en nú rennur það hins vegar niður ísilagða hlíðina og hraðinn eykst eftir því sem neðar dregur. Vandinn á sér því miður dýpri rætur og lengri sögu en sem nemur núverandi kjaradeilu eða títtnefndu efnahagshruni, með fullri virðingu fyrir þeirri ógn sem þjóðaröryggi stafar af því.

Athygli vekur hins vegar að yfirvöld, og stundum fleiri en ein ríkisstjórn, hafa kosið að „flýta sér hægt“ í þremur þjóðaröryggismálum; byggingu nýs spítala, launamálum lækna og rekstri sjúkraflutninga. Aðrir málaflokkar hafa fengið forgang. Það hlýtur að vera umhugsunarvert.

Hafi launadeila ríkis og lækna leyst farsællega þegar þessi leiðari birtist, er það fagnaðarefni og stjórnvöldum til tekna og vekur vissar vonir um að sérhæfð læknisþjónusta eigi framtíð í landinu. En þá þarf líka miklu meira til. Allir þurfa að leggjast á eitt um farsælt framtíðarskipulag hennar og stöðugleika til lengri tíma, yfirvöld og læknastéttin í heild. Fjárlög til 3-5 ára í senn væri til dæmis skref í rétta átt því þó svo að heiðnir forfeður okkar hafi gjarnan tjaldað til einnar nætur á ránsferðum sínum, er ekki sjálfgefið að við gerum hið sama. Jól yrðu eftir sem áður árviss að kristnum sið. Sé deilan hins vegar enn óleyst þegar þetta er ritað er fátt annað en að herða sig í trúnni og kyrja í kór: „Guð blessi Ísland“.Þetta vefsvæði byggir á Eplica