12. tbl. 98. árg. 2012
Umræða og fréttir
Sérgrein. Blóðfræðifélag Íslands
Í lok síðustu aldar, eða árið 1999, tóku þeir blóðfræðingar sem þá voru starfandi á Íslandi sig saman og stofnuðu Félag íslenskra blóðlækna, sem var skammstafað FÍBL. Þar sem nokkurs ruglings gætti því margir héldu að allir blóðfræðingar væru virkir félagar í FÍFL (Félag íslenskra fjallalækna) var ákveðið að breyta nafni félagsins í Blóðfræðifélag Íslands. Stofnfélagar voru Sigmundur Magnússon, Guðmundur Ingi Eyjólfsson, Guðmundur M. Jóhannesson, Páll Torfi Önundarson, Jóhanna Björnsdóttir, Vilhelmína Haraldsdóttir og Sigrún Reykdal. Aðrir áhugasamir um blóðfræði, sem voru þó nokkuð margir, voru aukafélagar og sóttu fundi. Félagið var stofnað sem hagsmunafélag fyrir blóðfræðinga og áhugafélag um framgang og þróun blóðfræðinnar.
Í árdaga félagsins var blóðfræði stunduð á Landspítala með nokkrum plássum á legudeild krabbameinslækninga og á Borgarspítalanum á sameiginlegri legudeild með smitsjúkdómum og krabbameinslækningum. Á þessum tíma var nokkur dagdeildarstarfsemi þó hún hafi ekki verið neitt í líkingu við það sem hún er í dag. Mikil og blómleg starfsemi fór fram á læknastofum blóðfræðinga utan spítalans en göngudeildarstarfsemi á spítölunum var illa skilgreind og fór gjarnan fram með óformlegum hætti á göngum legudeildanna. Jafnframt sáu blóðfræðingar um mikla starfsemi á rannsóknarstofum spítalanna og rannsóknarstofunni á Læknasetrinu í Mjódd.
Á þeim rúma áratug sem félagið hefur verið starfandi hefur margt breyst. Við sameiningu spítalanna árið 2001 var stofnuð legudeild blóðlækninga á Landspítala við Hringbraut með 14 leguplássum og dagdeild sem fluttist í núverandi húsnæði á 11 B árið 2004. Göngudeildarstarfsemi spítalans er vel skipulögð og hefur eflst og vaxið gífurlega á undanförnum árum. Á sameinuðu sjúkrahúsi var blóðfræðinni skipt í klínískar blóðlækningar sem sinnir legudeilda, dag- og göngudeildarstarfsemi blóðlækninga og blóðmeinafræði sem sinnir rannsóknarhluta greinarinnar, blæðurum og storkumeinum. Mikil samvinna og skörun er skiljanlega þarna á milli og ráðgjöf fyrir spítalann og landið allt er sameiginleg.
Á árunum 2006-2011 hefur komum til blóðlækna á dagdeild fjölgað um helming, eða úr 2000 komum á ári í 4200. Helstu ástæður þessa má rekja til aukins fjölda þungra krabbameinslyfjameðferða sem áður kröfðust innlagnar en nú eru gefnar á dagdeild, nýrra lyfja sem auðveldara er að gefa á dagdeild, betri árangurs meðferðar og lengri lifunar, hækkandi aldurs og aukinnar tíðni blóðsjúkdóma. Sjúklingar sem áður lágu langdvölum á legudeild eftir aðgangsharða krabbameinslyfjameðferð og langvarandi mergbælingu eru nú í meira mæli heima með miklum stuðningi á dagdeild. Þetta fyrirkomulag er auðvitað miklu hagkvæmara fyrir þjóðfélagið og að öllu leyti betra fyrir sjúklinginn. Þetta krefst þó þess að bráðaþjónusta fyrir þennan viðkvæma sjúklingahóp sé góð og skilvirk.
Árið 2004 var farið að framkvæma háskammtakrabbameinsmeðferðir með eigin stofnfrumuígræðslu hér á Íslandi. Í upphafi var áætlað að þær meðferðir yrðu um það bil 7-10 á ári í samræmi við þann fjölda sjúklinga sem hafði verið sendur erlendis í slíka meðferð árin á undan. Þessir sjúklingar eru nú þrefalt fleiri en áður og í ár er útlit fyrir að 26 sjúklingar ljúki slíkri meðferð. Helstu ástæður þessarar fjölgunar eru hærri aldur sjúklinga sem fara í meðferðina og aukin tíðni eitilfrumukrabbameina og mergæxla.
Þegar undirrituð var að huga að sérnámi árið 1994 var haft á orði að blóðfræði væri algerlega mettuð sérgrein og vonlaust ef ætlunin væri að koma heim og starfa við fagið. Á þeim tíma voru fjórir læknar í sérnámi. Ég var þá deildarlæknir á Borgarspítalanum og undir miklum áhrifum frá Guðmundi Inga Eyjólfssyni sem kynnti mig fyrir faginu og vakti áhuga minn. Hann sannfærði mig um að fagið væri fjölbreytt, bæði mikil bráðalyflæknisfræði sem og langvinnir sjúkdómar og krefjandi greiningar og rannsóknarstofuvinna. Ég lét því úrtöluraddir ekki hafa áhrif á mig og fór í blóðfræði. Allir blóðfræðingar sem þá voru í sérnámi fengu vinnu á Íslandi og voru verkefnin strax ærin. Stórt skarð var höggvið í hóp blóðfræðinga árið 2006 við skyndileg fráföll Guðmundar M. Jóhannessonar og Jóhönnu Björnsdóttur og hefur hópurinn vart borið sitt barr síðan. Á árunum 2003-2008 fóru engir læknar í sérgreinina blóðfræði vegna þeirrar háværu umræðu að fagið væri mettað, en á sama tíma fækkaði starfandi blóðfræðingum í klínísku starfi úr 8 í fjóra en verkefnin fóru stigvaxandi. Það voru því góð ráð dýr og mikilvægt að leggja snörur fyrir unga lækna. Var þá gott að hugsa til gamalla tíma með Guðmundi Inga og rifja upp þá hluti sem heilluðu mann mest við fagið og hefur borið vel í veiði þar sem nú eru fimm læknar í sérnámi í blóðfræði erlendis.
Í framtíðinni mun Blóðfræðifélagið leggja áherslu á aukna norræna og alþjóðlega samvinnu, meiri fræðslu fyrir heilbrigðisstarfsfólk og sjúklinga, sem og að standa vörð um faglega þætti blóðfræðinnar og hagsmuni blóðfræðinga.
Þegar á heildina er litið álít ég því að Blóðfræðifélagið eigi sér bjarta framtíð.