12. tbl. 98. árg. 2012
Umræða og fréttir
Kennsla læknanema í Hong Kong
Um nokkurt skeið hefur verið áhugi meðal þeirra sem taka þátt í kennslu í svæfinga- og gjörgæslulækningum við Landspítala að endurskoða fyrirkomulag við kennslu og nám læknanema og deildarlækna. Reyndar hafa læknanemar kosið námskeiðið í svæfinga- og gjörgæslulækningum besta námskeið læknadeildar tvívegis á seinustu 8 árum, síðast veturinn 2008-2009. Það hefur því verið vel heppnað og á eflaust einhvern þátt í því að deildarlæknastöður á svæfingu hafa verið vinsælar og nokkur fjöldi er erlendis í framhaldsnámi í sérgreininni.
Yfirlitsmynd af Hong Kong frá The Peak, hæsta tindi á Hong Kong-eyju, yfir á meginlandið. Undirlendi
er ekki mikið og því mikið af háhýsum en á milli gróðurvaxnar hæðir (SK).
Námskeið læknanema hefur verið byggt upp á hefðbundnum fyrirlestrum og tveggja vikna verklegu námi ásamt verkefnavinnu og munnlegu prófi í lokin. Deildarlæknar dvelja styst 6 mánuði við deildina en þeir sem ætla í sérnám eru við deildina í eitt til tvö ár áður en þeir halda utan. Meðan á dvöl þeirra stendur taka þeir ríkulegan þátt í klínískum störfum og sækja fyrirlestra einu sinni í viku.
Eitt af því sem þó hefur vantað upp á við námið eru tækifæri og aðstaða til hermikennslu. Margir hafa bent á skort á slíkri aðstöðu en kostnaður og húsnæðisleysi hafa hamlað úrbótum. Slíkt verkefni gæti þó verið sameiginlegt með HÍ og Landspítala, enda myndu báðir aðilar njóta góðs af. Kennsla nema á heilbrigðisvísindasviði yrði þannig áhugaverðari og raunverulegri og skilaði betur þjálfuðum starfsmönnum til spítalans og annarra heilbrigðisstofnana. Einnig myndi slíkur búnaður ekki síður nýtast til viðhalds- og framhaldsnáms hinna ýmsu heilbrigðisstétta. Allt þetta myndi stuðla að auknu öryggi sjúklinga sem æ meiri áhersla hefur verið lögð á hin seinustu ár.
BASIC-námskeiðin
Það vakti því athygli Ölmu Möller og Kára Hreinssonar sem sóttu norrænt þing svæfinga- og gjörgæslulækna fyrir ári þegar þau heyrðu prófessor Charles Gomersall kynna BASIC-námskeið fyrir deildarlækna í sérnámi sem hann hefur þróað í samvinnu við prófessor Gavin Joynt og fleiri við Chinese University of Hong Kong, en þar starfa þeir við Prince of Wales Hospital. Charles er menntaður í Bretlandi og Gavin í Suður-Afríku en báðir hafa þeir starfað lengi í Hong Kong. BASIC stendur fyrir Basic Assessment & Support in Intensive Care og lýtur að greiningu og meðferð bráðveikra sjúklinga á sjúkrahúsi, á bráðamóttökum, legudeildum og gjörgæsludeildum. Á þessum námskeiðum er lögð mikil áhersla á hermikennslu.
Aðstaða til hermikennslu – Mr Plastic bíður í ofvæni eftir að verða bjargað af áhugasömum lækna-
nemum eftir erfið veikindi. Prófessor Gavin Joynt leiðir kennsluna (ADM).
Þeir hafa ekki látið þar við sitja, heldur þróað nokkur mismunandi námskeið: Very-BASIC, ætlað læknanemum og unglæknum; BASIC, ætlað deildarlæknum sem hyggjast læra gjörgæslulækningar og skyldar greinar og reyndum gjörgæsluhjúkrunarfræðingum; BASIC for NOW (nurses on wards), ætlað hjúkrunarfræðingum á legudeildum og Paediatric BASIC fyrir barnalækna og gjörgæslulækna á fullorðinsgjörgæslum sem einnig sinna bráðveikum börnum. Þá hafa þeir þróað námskeið um öryggi sjúklinga sem heitir Basic Patient Safety og framhaldsnámskeið fyrir svæfinga- og gjörgæslulækna sem heita Not So BASIC og Beyond BASIC varðandi öndunarvélarmeðferð og meðferð við nýrnabilun sem eru viðurkennd sem framhaldsmenntun af Evrópsku gjörgæslulækningasamtökunum (ESICM) og haldin með þeirra fulltingi. Síðast en ekki síst má nefna námskeið sem þeir félagar gerðu í samvinnu við samtökin Læknar án landamæra og nefnist BASIC DHS (developing health systems) fyrir heilbrigðisstarfsfólk í þróunarlöndum.
Öll námskeiðin eru byggð upp líkt og ALS-námskeiðin (Advanced Life Support) varðandi endurlífgun sem margir þekkja, með lestri hnitmiðaðrar kennslubókar, fyrirlestrum um valin efni en fyrst og fremst fjölda verklegra æfinga, í hermi, með líkönum og í umræðuhópum. Þá byggist kennsla læknanema einnig á rafrænum fyrirlestrum og kennslumyndböndum sem stúdentar geta farið inn á þegar þeim hentar. Til að tryggja virkni á námskeiðinu þarf að taka próf bæði fyrir og eftir námskeið.
Prófessorarnir Gavin Joynt og Charles Gomersall í hríðarkófi við Bláa Lónið þegar þeir heimsóttu
Ísland síðastliðið vor (ADM).
Athyglisvert er að prófessorarnir afhenda kennslugögnin ókeypis til þeirra sem eru áhugasamir um að halda námskeið og þarf einungis að greiða prentunar- og sendingargjald kennslubóka. Þannig þarf ekki greiða nein leyfisgjöld til að halda námskeið.
Heimsókn til Hong Kong
Þótt þeir félagar, Charles Gomersall og Gavin Joynt, deili með sér námsefni af fádæma örlæti gera þeir vissar gæðakröfur til kennara. Þannig þurfa kennarar að fara á sérstök námskeið sem haldin eru víða. Þá eru þeir viðstaddir og hjálpa til þegar námskeið eru haldin í fyrsta sinn á viðkomandi stofnun. Þeir komu til Íslands síðastliðið vor þegar svæfinga- og gjörgæslulæknafélag Íslands stóð fyrir BASIC-námskeiði fyrir deildarlækna og reynda gjörgæsluhjúkrunarfræðinga. Eftir góða reynslu af því námskeiði varð enn meiri áhugi á að taka upp Very BASIC-námskeiðið fyrir læknanema. Það námskeið er aftur á móti flóknara í framkvæmd og gerð er sú krafa að tilvonandi kennarar komi til Hong Kong og fái þjálfun í kennslunni.
Læknanemar spreyta sig á að taka blóðgös (KH).
Eftir Íslandsheimsókn Charles og Gavins buðu þeir okkur að koma og fá þjálfun í kennslu Very BASIC-námskeiðsins og með dyggum stuðningi Gísla H. Sigurðssonar, prófessors í svæfinga- og gjörgæslulækningum, fóru þrír læknar á vegum skurðlækningasviðs Landspítala og HÍ, þau Alma D. Möller, Kári Hreinsson og Sigurbergur Kárason, í heimsókn til Hong Kong. Námskeiðið var haldið á Prince of Wales Hospital sem er kennsluspítali Chinese University of Hong Kong en þar eru um 160 læknanemar í árgangi. Námskeiðið er haldið á 6. ári og þannig uppbyggt að nemarnir lesa kennslubókina og taka rafrænt krossapróf (opin bók) úr henni áður en námskeiðið hefst. Þá þurfa þeir að skoða rafræna fyrirlestra og horfa á nokkur kennslumyndbönd áður en þau koma í verklega hlutann. Haldnir eru tveir fyrirlestrar á dag og síðan eru verklegar stöðvar; þrjár flóknar hermistöðvar þar sem æfð er meðferð og viðbrögð við bráðum veikindum og stöðvar þar sem æfð er notkun hjálpartækja við öndunaraðstoð og meðferð hjartastopps. Þá eru umræðustöðvar um mat mikið veikra sjúklinga, verkjameðferð og öryggi sjúklinga. Loks er taka blóðræktana og blóðgasa æfð með líkönum.
Dvölin í Hong Kong var fróðleg og skemmtileg. Á námskeiðinu var fyrst fylgst með kennslu heimamanna en síðan vorum við Íslendingarnir látin taka fullan þátt í kennslunni. Kínversku stúdentarnir voru vel enskumælandi og almennt vel að sér og virtist þekking þeirra og kunnátta sambærileg við okkar stúdenta. Very BASIC-námskeiðið er vinsælt og ár eftir ár hæst metni kúrsinn í öllu læknanáminu við Chinese University of Hong Kong. Einnig voru gjörgæsludeildir og bráðamóttaka Prince of Wales Hospital skoðuð en þær deildir eru í nýbyggðri álmu. Gaman var að sjá að hönnun deildanna er mjög áþekk teikningum fyrirhugaðrar byggingar bráðakjarna Landspítala. Sérstaklega er mikið lagt upp úr smitsjúkdómavörnum en á þessum spítala var barist við HABL (SARS) árið 2004.
Bæði ferskur fiskur og lifandi er í boði á fiskimörkuðum í borginni.
Very BASIC í læknadeild
Very BASIC-námskeiðið er nokkuð víðtæk umfjöllun um greiningu og meðferð bráðra veikinda og skarast við aðrar sérgreinar læknisfræðinnar. Kennslan er því þverfagleg og koma fleiri en svæfinga- og gjörgæslulæknar að. Ætlunin hér heima er að námskeiðið komi að hluta til í staðinn fyrir nám í svæfingum og gjörgæslu en stefnt er að samvinnu við aðrar sérgreinar um að koma að kennslunni, til dæmis lyflækna, bráðalækna og skurðlækna. Námskeiðið tekur tvo heila eða fjóra hálfa daga. Ætlun Gísla H. Sigurðssonar prófessors er að taka það inn í námið næsta haust og hugsanlega að halda námskeið fyrir áhugasama læknanema utan dagskrár læknadeildar með vorinu.
Við reiknum með að áframhald verði á samvinnu við félaga okkar í Hong Kong og er þegar búið að leggja drög að framhaldsnámskeiðum BASIC í tengslum við norrænt þing svæfingalækna hérlendis 2015 og hafinn er undirbúningur að Paediatric BASIC-námskeiði sem haldið verður í apríl í samvinnu svæfinga- og gjörgæsludeildar og Barnaspítala Hringsins.