11. tbl. 98. árg. 2012

Umræða og fréttir

Lán í óláni eftir Hjálmar Freysteinsson – bókarfrétt

u12Bókaútgáfan Hólar hefur gefið út ljóðabókina LÁN Í ÓLÁNI eftir Hjálmar Freysteinsson, lækni á Akureyri. Vísurnar eru í flestum tilfellum tengdar atburðum og umræðuefnum í samfélaginu – oftar en ekki ortar til að benda á spaugilegan flöt málanna og gera þannig tilveruna agnarlítið skemmtilegri.

Lítið dæmi úr bókinni:

Meðan Ólafur Ragnar lá undir feldi og hugleiddi hvort hann ætti að fara eða vera á Bessastöðum, varð jarðskjálfti á Reykjanesi. Skjálftinn var sagður sérstakur að því leyti að hann var ekki á flekaskilum. Um þetta tvennt, Ólaf og skjálftann, orti Hjálmar:

Titrar jörð í takti hröðum
tíðum kringum flekaskil,
en heilabrot á Bessastöðum
bjuggu þennan skjálfta til.

Og í einhverri sálarkreppunni hugsaði Hjálmar þetta:

Heimilislækna þú heiðra skalt,
þeir hafa flestir það orð á sér,
að vera lagnir að lækna allt,
sem lagast af sjálfu sér hvort eð er.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica