11. tbl. 98. árg. 2012

Umræða og fréttir

Vaxandi óánægja meðal sérfræðinga Landspítala

Mannauðssvið Landspítala birti í sumar niðurstöður starfsumhverfiskönnunar meðal starfsmanna spítalans er gerð var í vor. Sams konar könnun var gerð af mannauðssviði árið 2010 og eru niðurstöðurnar um margt svipaðar, þó merkja megi breytingar á afstöðu ákveðinna starfshópa til sumra spurninga. Spurningar voru ekki að öllu leyti sambærilegar svo ekki er hægt að gera beinan samanburð í öllum tilvikum.

u02-fig1
„Sérfræðingar spítalans eru of fáir og meðalaldur þeirra fer hækkandi,“ segir Þorbjörn Jónsson formaður LÍ.

Læknablaðið leitaði til Ómars Sigurvins Gunnarssonar formanns Félags almennra lækna og Þorbjörns Jónssonar formanns Læknafélags Íslands og spurði þá hvað vekti sérstaklega athygli þeirra í könnuninni. Björn Zoëga forstjóri Landspítala varð ennfremur góðfúslega fyrir svörum þegar leitað var til hans.
„Það blasir við af niðurstöðum þessarar könnunar að kandídatar og almennir læknar eru mjög óánægðir með sinn hlut,“ segir Ómar Sigurvin. „Aðeins 7% almennra lækna segjast sjaldan eða aldrei hugsa um að hætta störfum á Landspítalanum. Flestir almennir læknar stefna á sérnám erlendis og því getur verið eðlilegt að einhverjir hugsi um að hætta, en þessar tölur eru ógnvænlegar. Þegar skoðuð eru viðbrögð við fullyrðingunni: „Ég mæli með Landspítala sem góðum vinnustað“ sést einnig að það eru aðeins 11% sem taka undir það. 89% treysta sér sem sagt ekki til þess. Það er gríðarlegt áhyggjuefni að þeir læknar sem eru að hefja starfsferil sinn séu svona óánægðir, strax frá upphafi.“
Þorbjörn bætir því við að þetta sé áhyggjuefni þar sem leiða megi að því líkur að þeir sem upplifa þessa starfsaðstöðu, móttökur og umhverfi muni tæpast sækjast eftir að koma til baka að loknu sérnámi. „Þessi óánægja er líkleg til að birtast með tvennum hætti; annars vegar að læknar í sérnámi erlendis ílengist þar í stað þess að snúa heim að loknu námi, eða þeir velja sérgrein þar sem þeir geta starfað hér heima utan Landspítala.“

Skortur á starfsaðlögun og ófullnægjandi starfsaðstaða

Björn Zoëga forstjóri Landspítala segir að erfitt sé að meta svör lækna þar sem svarhlutfall meðal þeirra sé mun lægra en annarra stétta innan spítalans. „Svarhlutfall almennra lækna og sérfræðinga er frá tæplega 30% og upp undir 40% en hlutfall annarra stétta er um 70%.“
„Það sem veldur mestri óánægju meðal almennra lækna er ófullnægjandi starfsað­staða, algjör skortur á starfsaðlögun og ófullkomnir verkferlar. Starfslýsingar fyrir lækna eru ekki til og ekki skilgreint hvernig störf þeirra skarast við störf annarra stétta á spítalanum. Langstærstur hluti almennra lækna telur að vinnutengd líkamleg og andleg streitueinkenni séu of mikil, þeir telja sig ekki fá nægan tíma til að ljúka störfum sínum og telja að oft skorti nauðsynlegan stuðning. Þetta er önnur könnunin í röð sem sýnir mjög slæma niðurstöðu hvað almenna lækna varðar og maður furðar sig á því að ekki skuli hafa verið brugðist við nú þegar. Við sjáum því miður engin merki um slíkt. Ástandið á spítalanum er í rauninni mjög slæmt og fyrir almenna lækna er það nánast óbærilegt. Kennslu er víða ábótavant og þrátt fyrir viðleitni á einstaka sviðum er það engan veginn nóg og vinnan gengur nánast öll út á að bjarga deginum, komast yfir þau verkefni sem brýnust eru og vona að ekkert fari verulega úrskeiðis. Þetta ástand skapar mikið óöryggi í starfi almennra lækna og er í rauninni ógn við öryggi sjúklinga.
Þetta er vandamál sem hefur verið til staðar lengi og stafar af því hvernig læknar hafa verið menntaðir. Það er ákveðinn kúltur að henda unglæknum beint út í djúpu laugina en þetta á ekki við lengur og við erum að leita leiða til að breyta þessu,“ segir Ómar.
Þorbjörn tekur undir orð  Ómars og segir það mjög alvarlegt ef aðeins 30% almennra lækna og 12% kandídata geta tekið undir þá fullyrðingu að þeir hafi tíma til að ljúka verkefnum sínum þannig að þeir séu ánægðir með þau. „Það er hreinlega algjörlega óviðunandi niðurstaða. Það má líka benda á að í kjölfar fyrri könnunar frá 2010 óskaði Læknaráð Landspítalans eftir svörum frá stjórn stofnunarinnar um það hvort gripið yrði til sértækra ráðstafana varðandi lækna til að bregðast við niðurstöðunum sem voru á mjög svipuðum nótum og þessi könnun. Það var ekki á stjórnendum að skilja að svo yrði gert og svörun við fullyrðingunni: „Á minni starfseiningu hefur verið unnið með niðurstöður fyrri starfsumhverfiskannana“, bendir ekki til þess. 16% almennra lækna taka undir og 22% sérfræðinga.“
Það vekur ennfremur nokkra athygli að yfirlæknar spítalans sem hafa stjórnunarlega ábyrgð eru giska ánægðir með sinn hlut og telja 75% þeirra að Landspítalinn sé góður vinnustaður. 64% þeirra telja ennfremur að unnið hafi verið með niðurstöður fyrri starfsumhverfiskannanna og athyglisvert er að 89% þeirra telja að á þeirra starfseiningu ríki andrúmsloft framþróunar, en undir þetta taka aðeins 49% sérfræðinganna.

u02-fig2
„Átandið á spítalanum er í raun mjög slæmt og fyrir almenna lækna er það nánast óbærilegt,“ segir
Ómar Sigurvin Gunnarsson formaður Félags almennra lækna.

Björn segir að frá síðustu könnun, sem gerð var 2010, hafi verið bætt úr ýmsu í starfsumhverfi starfsfólks spítalans. „Niðurstöðurnar hvað læknana varðar eru ekki eins góðar og vildum sjá og eflaust ýmislegt sem betur mætti fara. Þó vil ég nefna að yfirlæknar með stjórnunarábyrgð eru almennt ánægðir með starfsumhverfi sitt og telja aðstæður að flestu leyti góðar. Almennu læknarnir og sérfræðingarnir telja að vinnuálag sé of mikið og að starfsaðstaða þeirra gæti verið betri.“
Þátttaka í könnuninni var innan við 30% meðal sérfræðinga og almennra lækna annarra en kandídata, en meðal síðastnefnda hópsins var hún um 50%. Því er spurning hversu marktækar niðurstöðurnar eru. Þorbjörn og Ómar svara þeirri fullyrðingu hiklaust. „Fólk missir áhugann á því að taka þátt í svona könnunum þegar ekkert er gert með niðurstöðurnar. Maður spyr sig til hvers sé að taka þátt í slíku. Það er ein birtingarmyndin enn á slæmu ástandi á vinnustaðnum. Kandídatarnir eru að svara slíkri könnun í fyrsta skipti og vonandi upplifa þeir að unnið sé með niðurstöðurnar á jákvæðan hátt.“

Óánægja sérfræðinganna er áhyggjuefni

Aðspurður um hvort lágt svarhlutfall stafi að því að læknarnir telji að slík könnun hafi engin áhrif segir Björn að það sé einkennileg afstaða ef rétt er og erfitt að henda reiður á slíku. „Ef fólk nýtir ekki þetta tækifæri til að lýsa vandamálunum á sannfærandi hátt þá er lítið hægt að gera. Við höfum farið út í ýmsar aðgerðir eftir niðurstöður síðustu könnunar 2010, meðal annars höfum við styrkt stjórnendur einstakra sviða og hvatt til aukinna samskipta og samstarfs, bæði innan sviða og á milli þeirra. Því má ekki gleyma að við sem stjórnum spítalanum horfum á hann í heild og ýmsar breytingar sem verða innan sviða eru ekki beinlínis á okkar könnu.“
Það vekur einnig athygli að einungis 31% sérfræðilækna treysta sér til að mæla með Landspítala sem góðum vinnustað og hefur fjölgað nokkuð í þeim hópi frá síðustu könnun. „Þetta er sannarlega áhyggjuefni, því sérfræðingarnir eru sá hópur sem ætti að vera fastur í sessi enda búnir að ljúka sérnámi og starfa við sína sérgrein. Svo mikil óánægja í þeirra röðum vekur upp margar spurningar um hvert spítalinn stefnir,“ segir Þorbjörn. „Við höfum þegar séð að sérfræðingar spítalans hverfa margir til starfa erlendis eða eru í hlutastörfum erlendis. Óánægja þeirra fer vaxandi og þessi könnun staðfestir það.“
„Óánægja sérfræðinga er líklega að miklu leyti kjaraleg. Þetta er starfsumhverfiskönnun en ekki kjarakönnun og hafa verður í huga að í flestum tilfellum eru það kjaralegar forsendur sem ráða því hvort fólk ræður sig erlendis. Við getum í rauninni ekki haft áhrif á kjör lækna þar sem það eru stjórnvöld sem ráða því. Launakjör innan spítalans eru í samræmi við stefnu stjórnvalda í þeim efnum,“ segir Björn.
Aðspurðir um hvað þeir telji að megi verða til þess að snúa þessari óheillaþróun við, segir Þorbjörn það augljóst að ekki verði brugðist við sívaxandi álagi á lækna spítalans með öðrum hætti en að fjölga þeim. „Sérfræðingar spítalans eru of fáir og meðalaldur þeirra fer hækkandi. Það staðfestir það sem vitað er, að nauðsynleg endurnýjun á sér einfaldlega ekki stað. Þarna þarf að snúa við blaðinu. Síðan þarf algjöran viðsnúning í tækjamálum spítalans og almennri starfsaðstöðu lækna svo þeir hafi löngun og áhuga á að starfa þar að loknu sérnámi. Spítalinn verður að vera samkeppnisfær á þessu sviði.“
Björn kveðst margoft hafa sagt á undanförnum misserum að ekki sé hægt að kreista meira útúr spítalunum og læknum hans en þegar er. „Við verðum að fá andrými, hvernig sem það gerist. Það þarf að upplýsa almenning og stjórnmálamennina um hvernig þetta gengur fyrir sig og hversu langt er hægt að ganga áður en eitthvað lætur undan. Fyrir samþykkt síðustu fjárlaga sagði ég að komið væri að þeim punkti að ekki yrði þrengt meira að starfseminni án þess að eitthvað léti undan. Við höfum lagt niður starfsemi á þremur stöðum og sameinað á aðra staði. Ef krafist er meiri niðurskurðar verðum við að leggja af meiri starfsemi. Ég hef verið mjög skýr að hér væri ekki meira að hafa. Það er pólitísk ákvörðun ef ganga á nær spítalanum en þegar hefur verið gert. Fjárlög næsta árs eru þau fyrstu eftir hrunið þar sem ekki er uppi krafa um aukið aðhald í rekstrinum. Með því gefst vonandi tækifæri til að styrkja innviðina.“

u02-fig3
„Fjárlög næsta árs eru þau fyrstu eftir hrunið þar sem ekki er uppi krafa um aukið aðhald í rekstrinum.
Með því gefst vonandi tækifæri til að styrkja innviðina,“ segir Björn Zoëga forstjóri Landspítala.

Breytingar á vísinda-, mennta- og nýsköpunarsviði

Ómar bætir því við að viðbrögð stjórnar spítalans séu jafnan þau að ekkert megi kosta neina peninga. „Við höfum lagt ýmislegt til um breytingar á starfsaðlögun almennra lækna og verkferla sem ekki ætti að kosta mikla peninga. Viðbrögðin eru alltaf þau sömu að ef lagfæringar eða breytingar kosta peninga þá er ekki hægt að verða við því. Við spyrjum á móti hvort ekki kosti meiri peninga á endanum að gera ekki neitt.“
En stendur til að draga úr vinnuálagi almennra lækna og sérfræðinga með því að ráða fleiri?  Björn segir einfaldlega að stutta svarið við þeirri spurningu sé nei.
„Jafnvel þó við vildum gera það þá er framboðið ekki til staðar og við þyrftum einnig að fá aukin fjárframlög til að geta ráðið fleiri. Við getum ekki bætt við læknum með núverandi fjármuni. Við höfum sagt frá því löngu fyrir hrun að styrkja þurfi mönnun innan spítalans þar sem vinnutímatilskipun EES kallar á meiri mannafla. Við höfum ekki getað mætt því eins vel og við viljum. Það má telja varnarsigur að við höfum getað haldið því sem fyrir er.“
Sá orðrómur hefur verið á kreiki innan spítalans að til standi að leggja niður vísinda-, mennta- og nýsköpunarsvið.
„Það verður ekki lagt niður en það er fyrirhuguð ákveðin skipulagsbreyting 1. janúar næstkomandi. Þá verða svið sameinuð en með sömu þjónustu og áður og frá þessu munum við greina betur eftir örfáar vikur. Þetta mun ekki koma niður á þeirri þjónustu sem veitt er.“
En stendur spítalinn fyllilega undir nafni sem háskólasjúkrahús í ljósi þess niðurskurðar sem orðið hefur? Björn segir að ekki séu sjáanleg merki um neitt annað.
„Við höfum getað haldið uppi talsverðri rannsóknarstarfsemi þó vissulega hafi hún verið minni árið 2011 en 2010. Tækifærin til að kenna kandídötum og unglæknum eru ekki þau sömu og áður en á móti hafa þeir fengið fleiri tækifæri til að stunda rannsóknir á launum. Ég bendi á að spítalinn byrjaði í fyrra að veita 10 styrki árlega, að upphæð ein milljón hver, til að styrkja unga vísindamenn. En ég játa fúslega að við höfum haft nokkrar áhyggjur af þessu og erum að leita leiða til að styrkja kennsluþáttinn á spítalanum enn betur og meira en verið hefur. Vonandi mun þess sjá merki strax á næsta ári.“
Hvað finnst viðmælendum að lesa megi jákvætt úr viðhorfum lækna af þessari könnun? Þeir eru sammála um að allir læknar spítalans telji störf sín mikilvæg. „Ég held að það sé ein aðalástæða þess að almennir læknar fást til starfa á Landspítala, að þrátt fyrir allt telja þeir sig vera að vinna mikilvæg störf,“ segir Ómar Sigurvin og Þorbjörn tekur undir þetta fyrir hönd sérfræðilæknanna.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica