10. tbl. 98. árg. 2012

Umræða og fréttir

Mannúðlegar geðlækningar og lúsaflekkusótt – úr norska læknablaði

u06-fig1Áhugi Norðmanna á Íslandi á sér margar birtingarmyndir. Í norska læknablaðinu birtust á síðasta ári tvær greinar sem sækja efni sitt í sögu geðlækninga á Íslandi og í Íslendingasögurnar.

Sálfræðingurinn Olav Nyttingnes var í heimsókn á Íslandi í apríl 2010 ásamt norska geðheilsuráðinu og samstarfsmönnum við háskólasjúkrahúsið í Stafangri til að kynna sér aðstæður „í landi sem hvorki hefur sérstaka löggjöf um geðheilbrigðismál né notar ólar í rúmum.” 

Nyttingnes telur sögu geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi mjög eftirtektarverða. Fyrir rúmum 100 árum hafi verið hér gamaldags landbúnaðar- og fiskveiðasamfélag sem var áratugum á eftir öðrum Evrópulöndum í samfélagsþróun, en engu að síður hafi verið reistur nútímalegur geðspítali þar sem beitt var sams konar lækningum og tíðkuðust annars staðar í Evrópu á þeim tíma. Árið 1933 urðu þáttaskil í íslenskum geðlækningum þegar Helgi Tómasson varð yfirlæknir á Kleppi og undir stjórn hans urðu geðlækningar á Íslandi mun mannúðlegri en annars staðar í Evrópu.

Nyttingnes tiltekur sérstaklega að Helgi bannaði alla notkun spennitreyja og óla í rúmum og beitti í stað þess samtalstækni og geðlyfjum þess tíma, sem voru morfín, skópólamín, klóral og barbítúratlyf. Sjúklingum sem þurfti að róa mátti halda niðri en aldrei lengur en 30 mínútur. 

Nyttingnes bendir á að Helgi hafnaði lækningaaðferðum samtímans sem höfðu háa dánartíðni eða heilaskaða sjúklinga í för með sér, og kenning hans hafi verið að ofbeldi í meðferð skilaði sér í ofbeldisfullum sjúklingum. Hann hafnaði einnig aðferðum sem sjúklingar óttuðust mjög og taldi það draga mjög úr lækningagildi þeirra. 

Þó að geðlækningar á Íslandi séu ekki algjörlega lausar við þvingun leyfast ekki rúmólar. Nyttingnes vísar í samtöl við íslenska geðlækna og sálfræðinga sem starfað hafa á geðdeildum á Norðurlöndunum og hefur eftir þeim að bráðamóttökur íslenskra geðdeilda séu rólegri en í Noregi og Svíþjóð og lyfjanotkun sé mjög svipuð. Meginheimild hans er þó saga Kleppspítala sem Óttar Guðmundsson geðlæknir ritaði og kom út 2007.

Nyttingnes hefur kynnt sér hvernig beita má þvingunarinnlögn og sjálfræðissviptingu geðsjúkra á Íslandi og ber það saman við löggjöfina í Noregi. Hann telur athyglisvert að þrátt fyrir að tölur um þvingunarinnlagnir hér séu ekki tæmandi, sé marktækur munur á fjölda slíkra innlagna í löndunum tveimur og greinilegt að þær séu mun færri á Íslandi. Ekki einasta sé þvingunarinnlögnum sjaldnar beitt hér en í Noregi, heldur sé þeim einnig beitt af meiri lipurð. Þetta telur Nyttingnes vera ótvíræða arfleifð Helga Tómassonar yfirlæknis.

Hann lýkur grein sinni með þeim orðum að saga íslenskrar geðlækninga sé að hluta til allt önnur en samtímasaga geðlækninga í Evrópu. „Lagaumhverfið á Íslandi sýnir að það er mögulegt fyrir lítið nútímalegt vestrænt land að veita geðheilbrigðisþjónustu án þess að smíða utan um hana sérstaka löggjöf.”

Fyrstu heimildir um lúsaflekkusótt

Per Holck prófessor í líffærafræði við læknadeild Óslóarháskóla hefur um árabil tekið þátt í fornleifarannsóknum við Hrísbrú í Mosfellsdal. Hann telur að í Grettissögu og Eyrbyggjasögu sé að finna fyrstu frásagnir í sögu læknisfræðinnar

af lúsaflekkusótt sem komið hafi upp á Íslandi í kringum árið 1000. Frásagnirnar eru sveipaðar dulúð og einkennin sem lýst er talin eiga uppruna sinn í forneskju og göldrum.

Í Eyrbyggjasögu segir af Fróðárundrunum. Hin suðureyska Þórgunna settist upp á Fróðá við Breiðafjörð og rúmföt hennar vöktu öfund Þóreyjar húsfreyju. Dag nokkurn um heyskapartíð lagðist ský yfir bæinn og varð niðamyrkur með rigningu. Þegar birti sá heimilisfólkið að rignt hafði blóði. Þórgunna kenndi óþæginda og gekk til hvílu og átti erfitt með andardrátt. Hún kvaðst dauðvona og tók loforð af heimilisfólkinu að brenna allar eigur hennar eftir dauða hennar. Eftir dauða Þórgunnu hélt Þuríður eftir sængurfötum hennar og ekki er að sökum að spyrja, sauðamaður missir vitið og finnst dauður í rúmi sínu einn morguninn og gengur aftur. Á jólaföstu eru sex heimilismenn dauðir og allir ganga aftur. Áður en yfir lýkur eru draugarnir orðnir 12 og fylgja þeim alls kyns undur og skelfingar. Tekur ekki fyrir draugaganginn fyrr en Snorri goði ræður heimilisfólkinu að brenna allar fórur Þórgunnu og fenginn er prestur til að stökkva vígðu vatni á híbýlin.  

Þá vitnar Holck til viðskipta Grettis við hinn sænska Glám í Grettissögu. Glámur deyr á dularfullan hátt, verður blásvartur og þrútinn á kroppinn, gengur þannig aftur og veldur miklum usla. Grettir réð niðurlögum hans en gekk svo nærri sér að hann var ekki samur maður eftir og þjáðist af sjúklegri myrkfælni það sem eftir var ævinnar.

Holck dregur þær ályktanir af lýsingum á útliti og hegðun persónanna í frásögnunum að hér sé um lúsaflekkusótt að ræða, sem lýsir sér í blóðflekkjum þar sem æðaveggir í húð og líffærum rofna. Einnig hafi sjúkdómurinn áhrif á miðtaugakerfið og geti valdið óráði. Þetta útskýri blásvart litaraft og vitstola hegðun. Smitleiðin er með fatalús og gat smitast hratt á milli manna ef búið var þröngt og hreinlæti ábótavant. Dánartíðni er um 50%.

Holck lýkur grein sinni með þeim orðum að það sé freistandi að draga þá ályktun af þessum lýsingum að á Íslandi hafi komið upp faraldur af lúsaflekkusótt árið 1000, en Eyrbyggja tiltekur nákvæmlega hvenær Fróðárundrin gerast. Þetta sé því hugsanlega fyrsta lýsingin á lúsaflekkusótt sem fyrirfinnst í sögu læknisfræðinnar þó vissulega geti sjúkdómseinkennin einnig átt við aðra smitsjúkdóma.

Til fróðleiks má geta þess að Hafsteinn Sæmundsson læknir hefur sett fram þá tilgátu að dauðsföll og ofskynjanir heimilisfólksins á Fróðá hafi stafað af sjúkdómnum ergotismus sem er eiturverkun er hagar sér með svipuðum hætti og lýst er í Eyrbyggju.

Heimildir

  1. Nyttingnes O. Beltefri psykiatri på Island. Tidsskr Nor Legeforen 2011; 131; 1316-8.
  2. Holck P. Flekktyfus på sagatidens Island? Tidsskr Nor Legeforen 2011; 131; 2504-6.
  3. Sæmundsson H. Lesbók Morgunblaðsins 1993; 13. mars: 10.




Þetta vefsvæði byggir á Eplica