09. tbl. 98. árg. 2012

Umræða og fréttir

Frá öldungadeild LÍ. Flateyjardalur og Fjörður. Páll Ásmundsson

Fagurt er í Fjörðum
þá frelsarinn gefur veðrið blítt,
heyið grænt í görðum,
grös og heilagfiskið nýtt.
En þá veturinn að þeim tekur sveigja,
veit ég enga verri sveit
um veraldarreit.
Menn og dýr þá deyja.

Björg Einarsdóttir, Látra-Björg, 1711-1784

Dagana 20.-23. júlí síðastliðinn héldu félagar úr öldungadeild Læknafélags Íslands í ferð um Fjörður og Flateyjardal undir leiðsögn Valgarðs Egilssonar félaga okkar. Norður var farið um Sprengisand en næstu tvo daga voru skoðaðir megináfangastaðirnir. Heim var ekið um Héðinsfjarðargöng og Siglufjörð.

u08-fig1
Hópurinn á fjörukambi í Hvalvatnsfirði.

Leiðsögn Valgarðs verður ferðalöngunum ógleymanleg. Þekking hans á náttúru svæðisins, fólkinu sem þar bjó og baráttu þess við óblíð náttúruöfl og einangrun virtist ótæmandi. Öllum var ljóst hve mjög hann ann þessum átthögum sínum.

Hér fylgja nokkur sögubrot um baráttu fólksins í Fjörðum.

Snjóþyngsli

Theódór Friðriksson lýsir í ævisögu sinni Í verum heimferð úr haustróðrum. Í myrkri og hríð gekk hann á skíðum frá Eyri í Hval­vatnsfirði heim að Gili þar sem hann bjó þá.

„Svona þumbaðist eg áfram. Fyrir mér urðu nokkur þvergil á leiðinni, og féll eg tvisvar fram af snjóhengjum. Eg var nú svo sem kunnugur leiðinni þeirri arna, en þó var það svona, að eg varð að hafa vakandi aðgæzlu á öllu, ef eg átti ekki að fara afvega, eftir að eg var kominn fram yfir Klifið, sem kallað var. Þá var hríðarmuggan orðin svo dimm, að rétt glórði í beygjurnar á skíðunum, og tók eg nú að kvíða fyrir því, að eg yrði að grafa mig í fönn. Mér blöskraði snjórinn, og kom það í hug, að bærinn mundi alveg kominn í kaf. Eg þóttist vera á réttri leið, en gat þó ekki fundið kotið. Eg byrjaði á því að rífa til með stafnum til þess að gera mér holu til að setjast að í. Þá varð fyrir mér undarleg misfella. Þetta var norðurstafninn á eldhúsinu. Jæja, karlinn, hugsaði eg, þetta mátti ekki tæpara standa. Þessi stund líður mér seint úr minni.“

Leitað læknis

Úr kaflanum Strandbyggðir Mið-Norðurlands sem Valgarður ritaði í Árbók FÍ árið 2000.

„Geirfinnur Magnússon býr síðastur í Kefla­vík. ...  Kona Geirfinns var Sigurbjörg Halldórsdóttir frá Háagerði, skyldi ala barn síðla sumars 1895. Fæðingin gekk ekki og næsti læknir var á Akureyri. Geirfinnur beislaði Jörp sína, kostagrip mikinn, og ríður inn Keflavíkurdal og yfir Uxaskarð og inn alla Strönd, inn Höfðahverfi og Svalbarðsströnd, fær bát með sig yfir til Akureyrar og ræsir lækninn, – heldur síðan strax af stað til baka. Læknir kemur á eftir með fylgdarmanni. Geirfinnur ríður nú á undan út Svalbarðsströnd svo sem hrossið þolir og út Höfðahverfi, en á hlaðinu á Lómatjörn þá fellur Jörp niður og er hún þá sprungin. Geirfinnur fær þegar annað hross lánað og ríður nú sem hann kemst út Látraströnd, Látrakleifar, út í Fossdal yfir Uxaskarð og niður í Keflavík. En þegar heim kemur ... þá er Jörp þar fyrir í hlaði. Og hafði hún þá staðið fljótlega á fætur á ný og hlaupið af stað – en hún velur að fara aðra leið, Leirdalsheiði út í Fjörður og síðan vestur yfir Fjörðurnar, Blæju og Hnjáfjall, niður hjá Messukletti og heim í Keflavík. Seinna kom læknirinn og var barnið þá lífvana. En það varð að reyna að bjarga lífi móðurinnar. Og var nú barnið tekið út með töngum og þurfti töluverð átök til og beyglaðist höfuðið æðimikið, en þó náðist það út ... en svo fer barnið allt í einu að anda og gráta eins og lifandi fólk gerir – og var þetta drengur, hann var skírður Þórhallur, varð merkur bóndi, að Botni í Fjörðum. Móðirin lifði ekki af. Örin á enni Þórhalls entust fram um 1980.

Saga úr drepsótt

Snemma á 18. öld var það að pest gekk um landið og banaði mörgum, í Keflavík öllum nema 11 ára stúlka lifði, Margrét að nafni. Þetta var um miðjan vetur. Faðir hennar dó síðastur, vissi áður að hverju dró og minnti Margréti litlu á að fara með bænir sínar. Sjálfur fór hann fram í göngin, þar væri svalara. Garðabönd í fjárhúsum hafði hann slegið frá svo að féð kæmist í hey. Mikil ótíð var og engar mannaferðir höfðu orðið um Keflavík. Og mátti Margrét nú ein þreyja þar sex vikur á útmánuðum. En upp úr páskum höfðu Látramenn hafið róðra og þegar út fyrir Gjögur kom sjá þeir að ekki rýkur í Keflavík. Þeir fara í land og þá var aðkoman þessi. Margrét lifði lengi, hún varð vinnukona síðar inní Höfðahverfi. Ekki hafði hún orðið söm eftir.

Keflavíkur-Manga lifir líklega fram undir móðuharðindi. Sagan er skráð af Þor­steini Þorkelssyni eftir sögn Sveins Sveins­sonar á Hóli í Höfðahverfi um miðja 19. öld, og er það traust heimild.“Þetta vefsvæði byggir á Eplica