07/08. tbl. 98.árg. 2012
Umræða og fréttir
CPME er sterkur málsvari lækna - Katrín Fjeldsted er formaður samtakanna
Katrín Fjeldsted heimilislæknir var kjörin forseti Evrópusamtaka lækna, CPME, á ársfundi samtakanna í maí. Katrín hefur verið fulltrúi Læknafélags Íslands í CPME frá árinu 2000, setið í stjórn samtakanna frá 2006 og verið gjaldkeri undanfarin tvö ár. Hún er því öllum hnútum kunnug í rekstri samtakanna og rökrétt að hún byði sig fram til embættis forseta.
„Leitað er til CPME varðandi álit og ráðgjöf áður en ráðist er í stefnubreytingar á vegum ESB í
málefnum lækna og heilbrigðismála á Evrópusambandssvæðinu,“ segir Katrín Fjeldsted nýkjörinn
forseti Evrópusamtaka lækna, CPME.
„Það voru fleiri sem sóttust eftir embættinu og það varð að kjósa í tveimur umferðum. Kosið var um þrjá frambjóðendur, frá Belgíu, Tékklandi og Íslandi, en sá belgíski féll út leik eftir fyrri umferð,“ segir Katrín að vonum ánægð með niðurstöðuna.
Reglur um forsetaskipti eru með þeim hætti að Katrín mun taka formlega við embættinu um næstu áramót og starfar fram að því með núverandi forseta. Eftir að hún tekur við starfar fráfarandi forseti með henni fyrsta árið en kjörtímabilið er þrjú ár. „Þetta er skynsamlegt fyrirkomulag sem tryggir samfellu í þeim málum sem unnið er að hverju sinni þó skipt sé um forseta áður en þau eru útkljáð.”
Reka öfluga skrifstofu í Brussell
Samtökin hafa í um áratug rekið skrifstofu með framkvæmdastjóra og föstu starfsliði í Brussel enda er nálægðin við höfuðstöðvar Evrópusambandsins mikilvæg, en áður var fyrirkomulagið þannig að skrifstofan fluttist með hverjum nýjum forseta. „Þetta var mjög óhentugt og skapaði álag á skrifstofur viðkomandi læknafélags sem þurfti að taka að sér rekstur CPME til viðbótar við sinn daglega rekstur. Eftir að skrifstofa samtakanna var opnuð hefur starfið gengið mun betur og við vorum reyndar einnig heppin með fyrsta framkvæmdastjórann, Lisette Tiddens-Engwirda, sem var öllum hnútum kunnug í stjórnkerfi Evrópusambandsins og fylgdi eftir okkar málum á þeim vettvangi af mikilli kunnáttu. Hún réði með sér fólk sem er menntað í Evrópufræðum og stjórnsýslukerfi ESB. Það hefur skapað CPME sterka stöðu gagnvart ESB og nú er leitað til samtakanna um álit og ráðgjöf áður en ráðist er í stefnubreytingar á vegum ESB í málefnum lækna og heilbrigðismála á Evrópusambandssvæðinu. Samtökin taka einnig að sér ýmis verkefni fyrir stofnanir Evrópusambandsins á sviði heilbrigðismála og hafa af því tekjur, þannig að starfsemin hefur aukist á undanförnum árum. Lisette Tiddens-Engwirda lét af störfum fyrir tveimur árum og nýr framkvæmdastjóri, Birgit Beger, var ráðin í hennar stað.“
Katrín segir að CPME hafa einna sterkasta stöðu á hinum sameiginlega Evrópuvettvangi þó vissulega séu til fleiri samtök lækna sem sækjast eftir áhrifum og stöðu. „Af þeim má nefna UEMS, UEMO, FEMS, AEMS, PWG CEOM og fleiri, en þessi samtök eru ýmist reist á grundvelli sérgreina eða mismunandi samninga, sjálfstætt starfandi, spítalalæknar, unglæknar og fleiri. Forsetar þessara samtaka hafa hist nokkuð reglulega undanfarin ár. Það hefur örlað á togstreitu þarna á milli, sem er slæmt, en staðreyndin er sú að CPME eru langöflugustu samtökin, eru sterkust gagnvart Evrópusambandinu og því að mörgu leyti skynsamlegra fyrir læknasamtök að fylkja sér um CPME í stað þess að togast á um áhrif og stöðu.“
Átök og úrsagnir landa
CPME var upphaflega stofnað til að vernda hagsmuni lækna og læknasamtaka í löndum innan ESB, en þegar Ísland, Noregur og Lichtenstein gengu inn í Evrópska efnahagssvæðið og tóku upp samþykktir þess hverja af annarri var þeim boðin þátttaka í CPME rétt fyrir aldamótin síðustu.
Aðild að CPME eru bundin við landssamtök en ekki einstaklinga og eru aðildarlöndin nú 26 alls, en Frakkland, Spánn, Italía og Portúgal sögðu sig úr samtökunum í kringum árið 2008. Katrín kveðst bjartsýn á framtíð samtakanna þrátt fyrir þá ágjöf og segist munu leggja áherslu á að reyna fjölga aðildarlöndum samtakanna, bæði til að bæta upp fyrir úrsögn þeirra fjögurra sem nefnd voru en einnig til að tryggja að samþykktir samtakanna skili sér sem lengst og víðast um lönd Evrópu. „Það er öllum læknum til hagsbóta og tryggir öryggi sjúklinga.“
Mörg stór mál brenna á samtökunum
Af málum sem brenna á samtökunum núna nefnir Katrín mikinn reglubálk um frjálsa för lækna á milli landa, en þar þarf að samræma ótal atriði til að tryggja öryggi sjúklinga ekki síður en starfsöryggi læknanna. Samræming á faglegum gæðum læknismenntunar er lykilatriði í þessu.
„Stefna Evrópusambandsins í flestum málum lýðheilsu og heilbrigðismála kemur inn á borð til okkar og má nefna rafræna skráningu heilbrigðisupplýsinga sem gengur undir nafninu e-health og er mjög stórt mál. Þá má nefna flóknar reglur um samskipti lækna og lyfjafyrirtækja sem er eitt af þeim málum sem þarfnast stöðugrar endurskoðunar og eftirlits eftir því sem tækninni fleygir fram og ný lyf koma á markað. Síðan eru hagsmunamálin mjög misjöfn eftir því hvar í álfunni er borið niður og CPME getur beitt sér fyrir hönd ákveðinna landa og svæða til ná fram úrbótum og einnig með samstarfi við Evrópusamtök ýmissa sérgreinasamtaka lækna. Ég nefni Evrópusamtök heimilislækna sem hafa verið mjög virk í því að samræma nám í heimilislækningum og festa í sessi ákveðin viðmið. “
Starf CPME er þannig skipulagt að fulltrúarnir skiptast í vinnuhópa sem taka að sér að rannsaka og undirbúa einstök mál. „Þetta getur verið mikil vinna þegar um flókin mál er að ræða en vinnuhóparnir skila skýrslu til stjórnar CPME sem sendir frá sér ályktun byggða á skýrslunni. Hóparnir eru virkir allt árið og nýta sér að sjálfsögðu nútímatölvutækni til samskipta en í gjaldkeratíð minni hefur verið lögð áhersla á að draga eftir föngum úr kostnaði samtakanna við fundahöld og það hefur tekist. Sjálf mun ég nýta varaforseta samtakanna sem eru fjórir og skipuleggja fundi okkar og ferðalög á þann hátt að hagkvæmast sé hverju sinni. Ég býst þó við því þurfa að vera meira á ferðinni en áður, þó ég ætli ekki að flytja til Brussel,“ segir Katrín og vill greinilega ekki gera of mikið úr þeirri upphefð sem fylgir forsetaembætti Evrópusamtaka lækna.