07/08. tbl. 98.árg. 2012

Umræða og fréttir

Lyfjaspurningin: Hvernig á að skammta fólínsýru með lágskammta-metótrextmeðferð?

u07-fig1   u07-fig2

Höfundar taka fúslega við athugasemdum
frá lesendum um pistlana og önnur lyfjatengd efni.

 

Metótrexat virkar í lágum skömmtum sem sjúkdómshemjandi lyf á iktsýki, sóragigt og sóra í húð. Lyfið er fólínsýruantagónisti og er efnafræðilega skylt fólínsýru og fólíniksýru en þrátt fyrir að hafa verið í notkun í meira en 30 ár er nákvæmur verkunarmáti við þessum sjúkdómum þó ekki að fullu þekktur. Metótrexat í lágum skömmtum hemur hvatann díhýdrófólatredúktasa og hamlar þannig umbroti fólínsýru í tetrahýdrófólínsýru. Þetta getur leitt til skorts á fólínsýru í líkamanum og hömlun á myndun DNA og nýmyndun frumna. Í vefjum þar sem frumuskipting er ör, svo sem beinmerg, húð, munn- og þarmaslímhúð, er mikið næmi fyrir metótrexati. Talið er að metótrexat hemji fleiri fólatháða hvata í frumum sem hafi áhrif á bólgusvar. Önnur tilgáta er að metótrexat hafi áhrif á bólgusvar með áhrifum á umbrot hómócysteins. Þá er talið að metótrexat hafi áhrif á cýtókína og stuðli jafnvel að frumuáti (apoptosis) bólgufruma (activated lymphocytes).1

Aukaverkanir vegna metótrexats hafa áhrif á meðferðarheldni og leiða oft til þess að meðferð er hætt.2 Má nefna sár í munni, óþægindi frá meltingarvegi, áhrif á beinmerg og brengluð lifrarpróf. Hvernig fólínsýra hefur áhrif til að draga úr aukaverkunum metótrexats er ekki þekkt en margar rannsóknir hafa verið gerðar á mögulegum verndandi áhrifum fólínsýru á aukaverkanir metótrexats. Jafnframt hafa rannsóknir reynt að leggja mat á það hvort fólínsýra dragi úr virkni metótrexats í lágum skömmtum á iktsýki og sóra í húð.3,4

Niðurstöður þessara rannsókna hafa verið mismunandi og sumar sýnt jákvæð áhrif á aukaverkanir á meltingarveg og lifrarpróf á meðan aðrar sýna engan mun á fólínsýru og lyfleysu. Ekki hefur tekist að sýna fram á verndandi áhrif fólínsýru á beinmerg. Flestar rannsóknir hafa sýnt örlítið hærri skammta af metótrexati hjá þeim sem eru á fólínsýru miðað við lyfleysu.1-3 Óljóst er hvort það skýrist af því að fólínsýra kalli á örlítið hærri skammta eða að hærri skammtar þolist með fólínsýru.

Í yfirlitsgrein frá Cochrane2 var reynt að leggja mat á áhrif fólínsýru og fólíniksýru á aukaverkanir lágskammta-metótrexats á meltingarfæri og blóð í þeim tilgangi að veita læknum og sjúklingum færi á meta hvernig best væri að nota þau með metótrexati. Yfirlitið náði til allra tvíblindra, slembaðra samanburðarrannsókna með lyfleysu. Í þeim rannsóknum þar sem áhrif fólínsýru á virkni og aukaverkanir metótrexats hafa verið rannsakaðar hefur fólínsýra ýmist verið gefin 5 mg einu sinni í viku, daginn eftir metótrexatskammt eða 1-5 mg daglega nema á þeim degi sem metótrexat er tekið og virtist skammtastærð ekki hafa áhrif.4

Cochrane ályktar að niðurstöður renni stoðum undir verndandi áhrif fólínsýru á aukaverkanir metótrexats á meltingarveg og slímhúðir. Ekki var hægt að draga ályktanir af áhrifum fólata á aukaverkanir á blóð né heldur á lifrarpróf. Ekki var talið að niðurstöður bentu til þess að fólínsýra dragi úr áhrifum metótrexats.

Margir íslenskir gigtarlæknar hafa tileinkað sér leiðbeiningar sænska gigtarlæknafélagsins en þar er mælt með að gefa 5 mg fólínsýru einu sinni til tvisvar í viku 24 klst eftir metótrexatgjöf.5

Samantekt

Það er ekkert eitt rétt svar því hvaða skammt af fólínsýru skal nota með lágskammtametótrexat-meðferð. Ef til vill getur meðferð með fólínsýru á sama tíma minnkað aukaverkanir metótrexats á meltingarveg og slímhúðir.

 

Heimildir

  1. Whittle SL, Hughes RA. Folate supplementation and methotrexate treatment in rheumatoid arthritis: a review. Rheumatology 2004; 43: 267-71.
  2. Ortiz Z, Shea B, Suarez Almazor M, Moher D, Wells G, Tugwell P. Folic acid andfolinic acid for reducing side effects in patients receiving methotrexate for rheumatoid arthritis. Cochrane Database Syst Rev 2000; 2: CD000951.
  3. Prey S, Paul C. Effect of folic or folinic acid supplementation on methotrexate associated safety and efficacy in inflammatory disease: a systematic review. Br J Dermatol 2009; 160: 622-8.
  4. Chakravarty K, McDonald H, Pullar T, Taggart A, Chalmers R, Oliver S, et al. BSR/BHPR guideline for disease-modifying anti-rheumatic. Rheumatology (Oxford) 2008; 47: 924-5.
  5. >  2008; 47: 5. Guidelines for the Pharmaceutical Management of Rheumatoid Arthritis  Swedish Society of Rheumatology. svenskreumatologi.se/kunder/srf/sites/default/files/49/Guidelines_for_the_Pharmaceutical_Management_of_Rheumatoid_Arthritis.pdf - 21. Júní 2012.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica